10.02.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í D-deild Alþingistíðinda. (5015)

279. mál, lögfesting embætta og opinberra starfa

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þáltill. þessi fjallar um það, að Alþ. álykti að fela stjórninni að leggja fyrir Alþ. frv, um að lögfesta opinber embætti, sem stofnuð hafa verið án heimildar í l. og ekki hafa verið lögfest síðan.

Þeir, sem kunnugir eru þingsögu Íslendinga — og kunnugri en ég, munu minnast þess, að áður fyrr þótti sjálfsagt, þegar stofnað var til nýrra embætta og opinberra starfa, að framkvæmdavaldið léti staðfesta það á Alþ. Þessar ráðstafanir hafa í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóðinn, og er stjórninni óheimilt að stofna til embætta eða opinberra starfa, sem hafa í för með sér launagreiðslur úr ríkissjóði, nema eftir l. Eftir að störf ríkisins færðust í vöxt, hefur verið vikið meir og meir frá þessari meginreglu og látið undir höfuð leggjast að leita til þingsins um stofnun starfa og embætta. Þegar starfsemi ríkisins tók að vaxa að mun, fór virðing framkvæmdarvaldsins fyrir þessari meginreglu þverrandi. Það getur verið skiljanlegt, þegar rekstur ríkisins er umsvifamikill, að þá geti verið erfitt að leita til Alþ. um stofnun hvers opinbers starfs og ekki hægt að heimfæra það undir almenn heildarlög, og í sjálfu sér er ekkert við því að segja, ef ekki er farið út yfir óheppileg takmörk. En á síðari árum hefur verið meira stofnað af embættum að Alþ. forspurðu en hæfilegt er og kveðið meira að því en Alþ. megi við una. Í raun og veru væri æskilegt, að um þetta væru ákvæði í l., helzt í l. um embættaveitingar, og hef ég lagt fram frv. um embættaveitingar, þar sem gert er ráð fyrir að leitað sé til Alþ., þegar stofnað er til embætta. En jafnvel þó að slíkt frv. næði ekki fram að ganga fljótlega, og við því er ekki að búast, þá virðist eðlilegt og sjálfsagt, að nú verði þau embætti og störf lögfest, sem stofnað hefur verið til án slíkrar heimildar, og það er lagt til í þessari till. Dæmi um þetta hirði ég ekki a.ð nefna mörg, þó mætti geta þess, að stjórnarráðið hefur stofnað til embætta, án þess að l. séu fyrir um þau. Í l. munu vera ákvæði um það, hve mörg ráðuneyti skuli vera, en tvö ráðuneyti, viðskmrn. og félmrn., eru ekki til í l. Með þessu er ekki að því fundið, að þessi ráðuneyti hafa verið stofnuð, bæði eru þau sjálfsögð og hafa mikið hlutverk að vinna, heldur er ég að finna að því ósamræmi, sem felst í því, að utanrrn. t.d. er stofnað með 1., en félmrn. og viðskmrn. ekki. Það væri eðlilegt, að þau væru einnig lögfest. Um þessa þáltill. mun vera ákveðin ein umr., og tel ég rétt að vísa henni til allshn. til athugunar.