17.02.1947
Neðri deild: 75. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í D-deild Alþingistíðinda. (5040)

281. mál, landhelgi Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. — Ég hef átt tal við nokkra utanrmnm. um þetta, og þeir kannast ekki við það, sem hv. 2. þm. Reykv. segir í þessu efni, og hæstv. fyrrverandi utanrrh. sagði mér, að hann hefði ekki heyrt neitt frá stjórn Breta, síðan hann tók við embætti sínu, sem benti í þá átt, að um slíkt hefði verið samið. Það hefur því sannazt, svo að ekki verður um deilt, að hér er um hreinan hugarburð að ræða hjá hv. 2. þm. Reykv., og hann hefur ekki einu sinni getað nefnt, um hvaða fund hefði hér átt á ' vera að ræða. Það er enginn fundur haldinn frá 3. maí og þar til lýðveldið var stofnað. Frá því sjálf atkvgr. fór fram og þar til lýðveldið var stofnað, var ekki haldinn neinn fundur um þetta mál. Og ég held, að hv. 2. þm. Reykv. geti ekki einu sinni tilnefnt einn einasta fund, þar sem sé mögulegt, að slík skilaboð hafi verið borin fram.

Það verður ekki annað séð af þessum niðurstöðum, sem komið hafa fram við umr., en að það, sem hv. 2. þm. Reykv. ber hér fram, er algerlega á misminni byggt, og að það hafi verið vegna annars atburðar, sem gerðist nokkrum mánuðum eftir lýðveldisstofnunina. Ástæðan til þess, að þetta stendur svona öfugt fyrir hv. þm., að hann getur ekki nefnt þennan fund, er sennilega sú, að hann var ekki á þessum fundi, sem haldinn var 20. okt. 1944, en svo hefur hann frétt frá þessum fundi á kosningabaráttutímum, og þess vegna hefur þetta snúizt svona í huga hans, að honum finnst núna, að slíkt hafi átt sér stað fyrir lýðveldisstofnunina.