23.04.1947
Sameinað þing: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

12. mál, fjárlög 1947

Katrín Thoroddsen:

Herra forseti. Það eru aðeins tvær brtt., sem ég hef leyft mér að flytja hér við fjárlagafrv. Það er ekki búið að prenta brtt., sem ég geri við 17. gr., um að hækka styrk til Kvenréttindafélags Íslands úr 15 þús. kr. í 30 þús. kr. Þessi upphæð er ekki há og engan veginn næg fyrir félagið til þess að standa straum af sinni miklu starfsemi, en hún mundi þó nægja til þess, að félagið þyrfti ekki að draga mjög úr starfsemi sinni, þó að ýmis nýmæli, sem það hefur á prjónunum, geti ekki komizt til framkvæmda. Það þjóðþrifastarf, sem Kvenréttindafélag Íslands hefur unnið, hefur hæstv. Alþ. fyrir löngu viðurkennt með því að veita félaginu styrk til starfsemi sinnar. Sá styrkur hefur undanfarið verið 50 þús. kr., en er nú orðinn lægri. Ég vænti þess, að hæstv. Alþ. sjái sér fært að veita á fjárl. þennan viðbótarstyrk.

Hin brtt. er á þskj. nr. 702. við 22. gr. frv., og er á þá leið, að ríkisstj. sé heimilað að verja allt að einni millj. kr. til byggingar farsóttasjúkrahúss í Reykjavík, enda leggi Reykjavíkurbær fram 1/3 hluta byggingarkostnaðar. Mér fannst réttara að hafa þetta orðalag á brtt., vegna þess að ég lít svo á, að það sé hagkvæmara, að ríki og bæjarfélag hafi samvinnu um lausn þessa máls, um stofnun slíks farsóttahúss, sem auðvitað yrði jafnframt til að einangra sjúklinga og kæmi þá öllum landslýð að notum, því að auðvitað er fólki hvaðanæva af landinu mikið í mun, að farsóttir breiðist ekki út um landið. Ætti að vera óþarfi að orðlengja um þetta, því að þörfin er öllum augljós fyrir löngu. Og hún verður æ brýnni með auknu þéttbýli og þröngbýll, eins og er hér í Reykjavík. En Reykjavíkurbær á ekki sjálfur farsóttahús. Farsóttahúsið í Þingholtsstræti er það eina, sem starfrækt er hér í bænum, og er það lítið og orðið gamalt og ófullnægjandi. En á slíku farsóttahúsi, sem hér er gert ráð fyrir, væri tækifæri til þess að einangra fyrst og fremst sjúklinga, sem vitað er um sjúkdóma i, og enn fremur þá sjúklinga, sem hefðu grunsamleg sjúkdómstilfelli., meðan verið væri að rannsaka sjúkdómana. En á þessu síðar talda hefur lítill eða enginn kostur verið að undanförnu. Ég vil í því sambandi minna á sjúkdómstilfelli, sem kom hér fyrir ekki fyrir löngu í Reykjavík, þegar barnaveiki kom upp hér í þéttbýlu hverfi. Það vildi svo óheppilega til, að sýkillinn fannst ekki við rannsókn, þó að hún væri margendurtekin og þó að hér væri um ótvíræða barnaveiki að ræða. Það fékkst ekki sjúkrahús fyrir þessa sjúklinga fyrr en fjórir af þeim voru sjúkir og einn látinn. Ég er ekki að áfellast yfirlækna farsóttasjúkrahússins fyrir þetta. Það er ekki nema eðlilegt, þegar pláss er lítið, að þeir heimti sýklarannsókn. En ef farsóttahús væri til fullnægjandi, kæmi slíkt ekki til mála. Í þessu tilfelli fannst sýkillinn ekki við ræktun, fyrr en sjúklingarnir höfðu legið 10 daga á farsóttasjúkrahúsinu. Það mætti nefna mörg fleiri dæmi um það, hve geigvænlegt er að eiga ekki næg farsóttasjúkrahús. Og í slíkri stofnun væri enn fremur mjög gott tækifæri fyrir lækna að rannsaka sóttir, sem til landsins berast. Og læknar hér í Reykjavík fundu sérstaklega sárt til þessa skorts á farsóttahúsi í haust s.l., þegar mænusótt barst hingað, sem var mjög með öðrum hætti, en við höfðum átt að venjast áður. Við þann sjúkdóm ríður mjög mikið á góðri aðhlynningu. En það var þá eins og fyrri daginn, að mjög fáir sjúklingar komust að á sjúkrahúsinu. Þessi mænusótt leggst í mörgum tilfellum mjög á heilann og heilahimnur, og hefði verið nauðsynlegt að athuga hana nánar, því að grunur gat leikið á, að hún væri ekki óáþekk tveimur tegundum þessarar veiki, sem mjög hefur borið á í Bandaríkjunum og í Suður-Afríku. — Um nauðsynina á því, að sjúkdómar séu rækilega rannsakaðir ætti ekki að þurfa að eyða mörgum orðum hér.

Á 20. gr. fjárlagafrv. er gert ráð fyrir tveggja millj. kr. framlagi til byggingar viðbótarhúsnæðis við ríkisspítalana. Þegar þess er gætt, að þörf er á a.m.k. 300–400 rúmum í viðbót þar — en það er álit hinnar stjórnskipuðu nefndar lækna og læknafélagsins, sem komst að þeirri niðurstöðu, að þetta sé nauðsynlegt, til þess að viðunandi megi telja —, og þegar þess er gætt, að ekki mun verða afgangur af þessu framlagi til farsóttasjúkrahúss, er nauðsynlegt að taka hér upp sérstakt framlag til þess. Mér er ljóst, að ein millj. kr. hrekkur þar ekki langt, jafnvel þó að Reykjavík leggi til hálfa milljón í viðbót. En ég sé ekki ástæðu til að bíða með að byrja á þessari byggingu, þangað til komin er stór fjárfúlga. Það hefur tíðkazt mjög í öðrum löndum að byggja smásjúkrahús fyrst fyrir hverja sótt. Það er að vísu dýrara, þegar til lengdar lætur, að byggja nokkurn hluta spítala fyrst. — En hér er um svo mikið nauðsynjamál að ræða, að ég vona, að hæstv. Alþ. sýni því fullan skilning. Og hv. frsm. fjvn. komst svo að orði í framsöguræðu sinni, að hann vildi fylgja þeim brtt., sem tryggðu það, að ávinningur væri af hverri krónu, sem út væri látin. Og ég held, að allir geti orðið sammála um það, að fámenna þjóð munar mikið um hvern mann, sem er úr leik vegna veikinda, þó að ekki sé nema vegna beins vinnutaps.