23.04.1947
Sameinað þing: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (575)

12. mál, fjárlög 1947

Arnfinnur Jónsson:

Herra forseti. Ég flutti hér við 2. umr. till. um hækkað fjárframlag til Eskifjarðarvegar og aðra um byggingu flugskýlis þar eystra. Hefur fyrri till. hlotið þá meðferð hjá hv. meiri hl. fjvn., að upphaflega fjárveitingin, 20 þús. kr., hefur verið lækkuð niður í 17 þús., svo að það mun sýnt, hvernig till. hefði reitt af, þótt ég hefði borið hana fram á ný, og mun ég því ekki gera það. — Hina till. mína hefur n. tekið upp — að vísu dálítið breytta —, og er nú gert ráð fyrir 55 þús. kr. til flugskýlis við Eskifjörð, en upphaflega var farið fram á 100 þús. kr. í þessu skyni. Ég mun þó sætta mig við þessa breytingu í trausti þess, að þeir, sem um þetta fjalla, ráði svo fram úr þessu sem bezt má verða fyrir Austfirðinga. — Þá átti ég nokkrar aðrar brtt. við frv., sem felldar voru, t.d. um 80 þús. fjárveitingu til tveggja brúa í Skriðdal. Nú sé ég, að hv. fjvn. hefur tekið upp fjárveitingu í þessu skyni. að upphæð 73 þús. kr., en ég miðaði mína till. við upplýsingar, sem ég fékk frá verkfræðingum vegamálaskrifstofunnar, sem mæltu með þessum brúm.

Brtt. um fjárveitingu til byggingar fávitahælis var felld, og nú leggur fjvn. til, að veitt sé 1/2 millj. kr., og er hér spor stigið til að skriður komist á þetta mál, þar sem l. um það eru búin að vera í gildi í 11 ár. Þetta vona ég að verði til þess, að framkvæmdir hefjist í þessu máli.

Í þetta sinn á ég nokkrar brtt., og hefur hv. þm. V-Ísf. gert grein fyrir tveimur þeirra. En þriðja till., sem ég ber fram með hv. 9. landsk. þm., er um hækkun framlags til Rauða kross Íslands úr 15 þús. kr. í 50 þús. kr. Getur hver maður séð, að 15 þús. er svo naum upphæð, að gagnslítið er fyrir starfsemi Rauða krossins, ekki sízt nú. Á síðasta ári hóf Rauði kross Íslands aðstoð fyrir börn í Mið-Evrópu og hefur útbýtt lýsi fyrir á 2. millj. kr., en það er talið nægja 750 þús. börnum í einn mánuð. Þetta hefur þótt rausnarlegt, enda hafa börn í 4 löndum notið þess. Auk þess hóf Rauði krossinn hjálp fyrir Íslendinga, sem dveljast í styrjaldarlöndunum, Þýzkalandi og Austurríki. Hann samdi við Rauða kross Danmerkur að senda þeim matárpakka, og hefur sú starfsemi haldið áfram frá því árið 1945 og þarf að vera næsta vetur. Eðlilegt hefði verið, að ríkið hlypi hér undir bagga, en þar sem annar aðili hefur gert það, þá þarf ríkið að viðurkenna það og bæta R.K.Í. það upp. Og því flytjum við þessa till., að við væntum, að hv. Alþ. sýni R.K.Í. að það viðurkenni starfsemi hans, þess vegna vænti ég, að till. verði vel tekið af hv. þm. Um þessar till. er svo ekki fleira að segja. Því var borið við við 2. umr. fjárl. í sambandi við hækkunartill., að halli væri á fjárl. og þyldu þau ekki hækkun, nema aflað væri tekna á móti. En eftir byrjun stjórnarinnar að afla tekna til að mæta hallanum ætti það ekki að vera vandi, því að hún gerði það eftirminnilega með hinni 40–50 millj. kr. tollahækkun. Hér átti að vera á ferðinni bráðabirgðaráðstöfun til að afla tekna til að mæta hallanum. Þessu kingdu hv. þm., en varð ekki gott af, enda virtist sem stjórnin sæi, að hvíld þyrfti um skeið. En þá lítur hún á fjárl., og nú eru verklegar framkvæmdir skornar niður um 15% og ekki nóg með það, því að svo eru önnur ákvæði til uppbótar, þar sem heimilað er að fresta ýmsum framkvæmdum, ef stjórnin sér ástæðu til þess. Skyldi þingi nokkurn tíma hafa verið borin svo strembin fæða á jafnstuttum tíma? Það er varla, að dómgreind hv. þm. hafi svo bilað, að þeir taki við þessu. Líklega er nú naumur tími til að stinga við fótum, því að það er ótrúlegt, að þeir menn, sem fyrir ári síðan voru svo stórhuga, að annað eins hefur ekki þekkzt — að þeir á svo stuttum tíma hafi orðið gegnsýrðir af stefnu hrunstefnumanna. Ég er sannfærður um, að þeim er hollast að staðnæmast hér og afla sér nýrrar bústýru.