14.03.1947
Neðri deild: 95. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Það hafa nú blandazt inn í umr. um það mál, sem hér liggur fyrir, ýmis viðskiptamál. eins og innflutningsverzlunin og gjaldeyrisástandið. Ég tel víst, að viðskmrh. muni gefa skýrslu um þessi mál. þegar tími vinnst til. og mun því ekki fara frekar út í það, en vil þó aðeins skjóta því inn, að vitanlega tjói ekki að líta á þau mál eins og allir Íslendingar séu hættir að starfa og á næstu mánuðum komi bara skuldbindingar, en ekkert í staðinn. Þessa sjónarmiðs hefur nokkuð gætt hjá þeim svartsýnustu, en það er vitanlega ekki rétt. Ég vil hins vegar taka undir það, að fullkomin ástæða er til þess að gá að sér, og svo mikið hefur eyðzt undanfarið, að það verður ekki hægt að halda svoleiðis áfram, nema einhverjir óvæntir tekjustofnar fáist. Annars ætla ég ekki að ræða ástandið hér, en vil gera athugasemdir út af ræðu 2. þm. Reykv. Hann hélt því fram, að gjaldeyriseyðslan væri svo mikil vegna þess, að valdamiklir kaupsýslumenn neyddu vörum inn á landsmenn. Ég er undrandi, að maður, sem eitthvað hefur kynnt sér þessi mál, skuli halda þessu fram. Það þýðir ekki að neita þeirri staðreynd, að hin mikla kaupgeta landsmanna er aðalorsök gjaldeyriseyðslunnar. Þessi mikla kaupgeta hefur leitað útrásar í ýmiss konar vörukaupum, en ef innflutningurinn hefði ekki verið svo mikill, þá hefði fjármagnið leitað annað eða skapað enn meiri verðbólgu. Þetta hygg ég, að flestir séu sammála um, a.m.k. stundum. Ég skal ekki ræða frekar um kaupgetuna nú. en af henni stafar þessi mikli innflutningur, sem átt hefur sér stað. og sé hann böl, þá er hin mikla kaupgeta líka böl.

Það var í upphafi um tvær leiðir að ræða til þess að koma í veg fyrir gjaldeyriseyðsluna, en inn á þær vildi 2. þm. Reykv. og samstarfsmenn hans ekki fara. Önnur var sú að koma á í tæka tíð svo nefndum skyldusparnaði og draga með því úr kaupgetunni, en hin leiðin var sú, að skylda menn til að kaupa hluti í hinum nýju atvinnutækjum og láta þá um leið gerast virka þátttakendur í nýsköpun atvinnulífsins. Þessu var svarað af hálfu 2. þm. Reykv. og fylgismanna hans, að þetta væri sama og kauplækkun, auk þess sem þeirra skoðun var sú, að ekki væri heppilegt, að allir landsmenn ættu í atvinnutækjunum og yrðu með því atvinnurekendur. því að það mundi styrkja auðvaldsskipulagið á Íslandi. Vegna þess að ekki var farið eftir þeim leiðum, sem ég nú drap á, varð kaupgetan svo mikil, að hún varð að fá útrás annaðhvort í vöruinnflutningi eða aukinni verðbólgu. Þetta er augljóst hagfræðilegt lögmál, og þess vegna er það fjarstæða, sem 2. þm. Reykv. heldur fram, að gjaldeyriseyðslan sé sök nokkurra kaupsýslumanna.

Það kom fram bæði hjá menntmrh. og 2. þm. Reykv., að hér væri byggt mikið af óhófsíbúðum. Ég skal ekki mæla með „lúxusíbúðum“ og hef hindrað eftir föngum, að þær væru reistar, m.a. með því að láta alls ekki lóðir undir einbýlishús, ef þau hafa verið óhóflega stór. Flest þessi stóru hús, sem mönnum virðast vera villur, eru með 4–8 íbúðum, þó að þau séu byggð sem sérstæð hús. Það kann að vera. að nokkur hús séu óhóflega stór, en ég held, að þau séu tiltölulega fá. Nú verður hægt að fylgjast betur með þessu, ef þetta frv. um fjárhagsráð nær fram að ganga, og getur það orðið mikið til bóta, þó að ég sé þeirrar skoðunar, að þetta út af fyrir sig hafi ekki haft mikil áhrif fyrir fjárhagslífið í heild. Hinu verður ekki móti mælt, að það hefur verið byggt svo mikið í heild, að með því hafa verið teknir kraftar frá framleiðslunni. og er nauðsynlegt að slíkt verði tekið til athugunar. Og það er vissulega nauðsyn á að hafa á þessu betri hemil en verið hefur. En menn mega ekki ganga í þeirri dul að halda, að út af fyrir sig þurfi að auka fjölda þeirra íbúða, sem hér í Reykjavík eru byggðar á hverju ári. vegna fólks, sem verið hefur í bænum. Ég get fullvissað hv. þm. um það, að á síðasta ári hafa verið byggðar svo margar íbúðir í Reykjavík, að öll húsnæðisvandræði væru vissulega þar fyrir löngu úr sögunni. ef ekki hefði komið til hinn óskaplegi aðflutningur fólks utan af landi. Menn segja stundum, að það sé verið að drepa þessu máli á dreif, þegar á þessi sannindi er minnzt. En menn nálgast aldrei lausn þessara mála, nema menn geri sér þessi sannindi ljós. — Hv. 2. þm. Reykv. hefur m.a. rætt um það. að það sé nauðsynlegt að stuðla að atvinnulífi úti um landsbyggðina, til þess að þessi óhóflegi straumur fólks til Reykjavíkur stöðvist. Og hann stöðvast auðvitað aldrei að fullu, nema þannig sé búið að mönnum, að mönnum séu gefnir þeir möguleikar utan Reykjavíkur, að þeir kjósi heldur að dvelja annars staðar en hér í bænum. Það er að vísu svo, að sett hefur verið löggjöf um það, að ekki megi leigja utanbæjarmönnum húsnæði. Sennilega hefði verið hægt að fylgja þeim l. eitthvað betur fram en gert hefur verið með strangara eftirliti. Ég skal ekki dæma um það. En þó tel ég vera töluvert til í því, sem form. húsaleigun. hefur sagt við mig, að þungi straumsins, sem á hefur verið í þessu efni, sé svo mikill, að í lýðræðislandi eins og okkar væru engin tök á að standa þar á móti. Til þess hefði þá þurft að koma slíkt vald, sem að vísu þekkist í einræðisþjóðfélögum í heiminum, en við því betur erum lausir við.

Hvorki hin mikla eyðsla gjaldeyrisins né húsnæðisskorturinn stafar því af óhæfilegum byggingum „lúxusíbúða“. Þær hafa sáralitla þýðingu haft í þessum efnum. Ástæðan til þessa er fyrst og fremst sú, hve straumurinn til Reykjavíkur hefur verið gífurlegur. Hins vegar er það ljóst, að ef hægt á að vera að halda uppi atvinnulífinu á næstu árum, verður að hætta að eyða frá þjóðinni jafnmiklu fé til uppbyggingar íbúðarhúsa í einum bæ eins og hefur átt sér stað hér í Reykjavík undanfarið. Og m.a. þess vegna er óhjákvæmilegt að setja slíka löggjöf sem þessa og þá um leið að gera frekari ráðstafanir en hingað til hafa verið gerðar til þess, að bygging smárra íbúða gangi fyrir hinum stóru, jafnvel fyrir þeim íbúðum. sem engan veginn verða taldar „lúxusíbúðir“, heldur þannig, að æskilegast væri, að hver einasti maður gæti veitt sér slíka íbúð, þó að við höfum því miður ekki efni á því nú í dag.

Hv. 2. þm. Reykv. hefur mikið talað um valdið yfir bönkunum. Það er nú eftirtektarvert, að hann ræddi hér um það, að við ættum að spyrja útgerðarmenn og aðra um það. hvernig þeim líkaði að tala við landsbankastjórana. Hann vill ráða bót á því, hv. þm., og gera útgerðarmenn og alla aðra. sem hlut eiga að máli og óánægðir eru með stjórn Landsbankans, að einhvers konar yfirbankastjórn. Þar sem þeir gömlu bankastjórar væru ekki annað en vika,þjónar. Ég held, að þessi sannindi, að mönnum líkar mismunandi vel við þá opinberu embættismenn og að embættismenn sjálfir í frjálsu þjóðfélagi eins og okkar hafi nokkra tilhneigingu til embættismennskuyfirlætis og hroka — hvað þá í þjóðfélagi, þar sem þeir eru alls ráðandi. eins og í því þjóðfélagi, sem hv. 2. þm. Reykv. sækist eftir að skapa — ég held einmitt, að þessir gallar embættismennskunnar ættu að vera okkur til varnaðar um að hafa ekki slíka allsherjar einræðisstjórn yfir atvinnuvegum landsmanna sem hv. 2. þm. Reykv. hér hefur gerzt talsmaður fyrir. Ég var að vísu, að hann á sínum tíma hugsaði sér, að sú einræðisstjórn yrði vel skipuð með góðum og glæsilegum formanni og öðrum, sem hann gæti vel unnið með. En það er nú ekki öruggt, að öllum hefði líkað jafnvel við þann ágæta formann eins og hv. 2. þm. Reykv., heldur hefði svo getað farið. að menn hefðu farið að kvarta undan honum, áður en varði, og ekki síður en kvartað er undan bankastjórunum nú. Og embættishrokinn hefði líka ef til vill komið með starfinu — eins og sagt er, að gáfurnar til þess að gegna embætti komi stundum. þegar menn komast óverðskuldað í háar stöður. Það er vegna vitundarinnar um þá hættu, sem af þessu getur stafað. að íslenzka þjóðfélagið hefur nú ráðizt í það, sem frá kenningarsjónarmiði er ákaflega óhyggilegt, af því að það er mikill kostnaður við það, að hafa þrjá bankastjóra, þar sem ákaflega væri auðvelt, fræðilega séð, að komast af með einn. En þetta er haft eins og það er, af því að menn vilja ekki eiga allt undir einum eða tveimur mönnum. heldur hafa fleiri skjól. sem menn geti skotizt í, ef kalt blæs á móti þeim. Og ég held. að seint verði komizt fram hjá þeim þjóðfélagsástæðum, sem þessi ráðstöfun hvílir á.

Þá vil ég koma að því, sem ég vildi loks segja. Það hefur verið talað um það, að þessi stofnun, sem hér yrði sett á laggirnar, mundi geta stöðvað einstaklingsframtakið í landinu og líka orðið til þess, að einstaklingsframtakið yrði lamað. án þess að ríkisframtak yrði skapað í staðinn. Ég segi hiklaust, að ef þessi verður árangurinn, þá er alveg stefnt á móti því, sem fyrir mér vakir. að sem segir hér í 2. gr. frv. — með þessu eigi að samræma framkvæmdir einstaklinga og almannavaldsins. Og framkvæmdir einstaklinga eru taldar á undan, vegna þess að tilætlunin er sú, að eftir sem áður hvíli þetta þjóðfélag fyrst og fremst á einstaklingsframtakinu. En því aðeins getur einstaklingsframtakið unnið sitt hlutverk — og ekki sízt í þjóðfélagi þar sem ríkið og almannavaldið er búið að taka undir sig jafnmikið af verkefnum eins og í okkar þjóðfélagi —, að framkvæmdir þess og ríkisvaldsins séu samræmdar, meðan á jafnstórfelldum stofnframkvæmdum stendur eins og nú á sér stað í þessu þjóðfélagi. Mér er það ljóst, að ef framkvæmd þessara l. lenti í höndum manna, sem vilja berja einstaklingsframtakið niður eða vilja lama það og helzt eyðileggja, þá yrði þetta hættulegt vopn í þeirra höndum. Og einmitt vegna þess, að hér er allt undir því komið, að þeir menn, sem að þessu mikilvæga verki eiga að ganga, sem þetta frv. er um, og með jafnvíðtæku valdi eins og þeir hljóta eftir þessum l., vinni sitt verk í þeim anda, sem í upphafi 2. gr. segir, þá legg ég höfuðáherzlu á það varðandi samþ. þessa frv., að skipun ráðsins verði með þeim hætti, að sem bezt verði tryggt, að þeim tilgangi verði náð, sem fyrir okkur vakir. Og hef ég þess vegna gert áskilnað um að bera fram brtt. við frv., ef til vill við það fyrirkomulag, er frv. stingur upp á.