06.05.1947
Neðri deild: 122. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Hallgrímur Benediktsson:

Ég þarf ekki að lýsa afstöðu minni og skoðun á þeirri stefnu í verzlunar- og viðskiptamálum, sem hefur verið framkvæmd hér á landi nú um alllangt skeið. Þm. er það væntanlega kunnugt. að frjálsræði í viðskipta- og verzlunarmálum er að mínu áliti vænlegra en höft og hömlur til að skapa þjóðinni sem beztan árangur á viðskiptasviðinu. — Ef innflytjandi ræður sjálfur, hvar og hvernig hann gerir innkaup sín, er það áreiðanlegt, að niðurstaðan verður hagkvæmari, að því er snertir verð og gæði vörunnar, en ef hann verður að hlíta forsjá opinberrar nefndar um vörukaup sín, hversu svo sem þessar n. kunna að inna starf sitt af hendi með samvizkusemi og kostgæfni.

Þrátt fyrir þessa afstöðu mína mun ég fylgja því, að frv. þetta nái fram að ganga. að vísu með talsverðum breyt. Ástæðurnar fyrir þessu eru:

Í fyrsta lagi sú, að frv. þetta byggist á málefnasamningi núv. ríkisstj. — Að þeirri ríkisstj. standa þrír flokkar með ólíkar skoðanir á ýmsum málum og grundvallarstefnum jafnvel. Það er því ekki von, að einn flokkur fái allt að vilja sínum, meðan sá flokkur hefur ekki meiri hl. á Alþ. — Málefnasamningur þriggja ólíkra flokka getur því ekki byggt algerlega á stefnu eins flokksins og meðlima hans. Ég áleit rétt, eins og á stóð, að efnt væri til samvinnu þessara þriggja flokka, þar sem annað betra úrræði til stjórnarsamvinnu var ekki fyrir hendi eftir flokkaskiptingu á Alþ. og framkomu flokka þar að dæma.

Í öðru lagi, að sem stendur og í náinni framtíð eru það ýmis atriði, sem til greina koma og gera það að verkum, að hið opinbera getur ekki með öllu látið innflutningsmálin og viðskiptamálin afskiptalaus. Vil ég drepa á nokkur atriði þessu til skýringar.

Er þá fyrst á það að minna, að nokkur óvissa ríkir enn um, hvernig viðskiptum okkar við einstakar þjóðir verður háttað. Ekki hefur enn verið gengið frá samningum við lönd, sem við óhjákvæmilega verðum að eiga viðskipti við. Um sum þessara landa er það að segja, að vöruútflutningur til þeirra kemur því aðeins til greina, að andvirði hinna seldu vara verði notað til kaupa á framleiðsluvörum þeirra. Með öðrum orðum, til þess að selja tilteknar íslenzkar framleiðsluvörur verðum við að skuldbinda okkur til að kaupa vissar aðrar vörutegundir. Það er jafnvirðiskaupasjónarmiðið, sem fyrir stríð var svo algengt, sem hér gerir aftur vart við sig. Vil ég í þessu sambandi benda á, að mikil líkindi eru til. að í viðskiptum okkar við ýmis lönd þurfi að reikna með jafnvirðiskaupafyrirkomulagi að meira eða minna leyti. Þessi lönd eru Ítalía, Frakkland, Tékkóslóvakía, Pólland, Finnland og ef til vill enn fleiri lönd.

Þegar um jafnvirðiskaupafyrirkomulagið er að ræða, þá verður að hafa það hugfast, og vil ég beina því til réttra aðila, að ekki ber einungis að taka tillit til, hvar bezt verð að krónutali fæst fyrir útflutninginn, heldur verður einnig að taka tillit til þess, hvaða verð og gæði eru á þeim vörum, sem þar er hægt að fá keyptar. Ef bæði sjónarmiðin eru tekin með í reikninginn, gæti það leitt til þess, að hagkvæmara þætti að skipta meira við land, sem að vísu greiddi minna verð fyrir okkar framleiðslu, en seldi sína framleiðslu tiltölulega enn lægra verði.

Nú þegar er vitað, að við munum verða að flytja út til áður nefndra landa allverulegt magn íslenzka framleiðsluvara, en andvirði þeirra verður hins vegar að nota til vörukaupa frá þessum löndum, jafnvel þótt hægt sé að kaupa sams konar vörur annars staðar frá með hagkvæmara verði. Þetta meðal annars gerir það að verkum, að hið opinbera telur sig þurfa að hafa nokkra íhlutun um, í hvaða átt innkaupum okkar er beint.

Í annan stað ríkir ennþá nokkur óvissa um, hversu mikils erlends gjaldeyris þjóðin mun afla á yfirstandandi ári. Í sambandi við þá miklu kaupgetu, sem fyrir hendi er innanlands, er ekki með öllu óeðlilegt, að ríkisstj. vilji hafa hönd í bagga með innflutningi miður þarflegs varnings, á meðan ekki verður séð fyrir, hve mikil gjaldeyrisöflunin verður.

En enda þótt þetta sé viðurkennt af minni hálfu, vil ég leggja á það hina mestu áherzlu, að framkvæmd þessara hafta af hálfu þess opinbera verði sem frjálslegust. Vil ég í því sambandi sérstaklega minnast á tvö atriði.

Í fyrsta lagi vil ég vísa til heimildar, sem felst í 11. gr. frv. um útgáfu frílista.

Í l. um viðskiptaráð, sem gengu í gildi 1. des. 1945, var gert ráð fyrir frjálsum innflutningi ýmissa vörutegunda. Þetta var að mínu áliti spor í rétta átt, þó að ekki kæmi það til framkvæmda. Legg ég fyrir mitt leyti á það mikla áherzlu, að í sambandi við framkvæmd þessa frv., ef að lögum verður, verði heimild 11. gr. um útgáfu frílista notuð. Bendi ég á, að þrátt fyrir þá stefnu núverandi stjórnar að takmarka meira innflutning á miður þörfum vörum er vel framkvæmanlegt að gefa frjálsan innflutning á tilteknum vörum, sem á undanförnum árum hafa verið leyfðar eftir þörfum, og verða væntanlega takmarkalítið leyfðar framvegis. Á ég hér t.d. við kornvörur, sykur, kaffi og ýmsar vörur til útgerðar og landbúnaðar, svo og viss hráefni til iðnaðar. Óhindraður innflutningur þessara vörutegunda er raunverulega ekki breyting á því fyrirkomulagi, sem ríkt hefur, aðeins er með slíku skapað aukið athafnafrelsi og innflytjendur losaðir við óþarfa skriffinnsku.

Í öðru lagi vil ég benda á, að nú í fyrsta sinn er gert ráð fyrir því, að ríkisvaldið taki upp afskipti af margs konar framkvæmdum innanlands og gerir þær samkv. frv. háðar leyfi opinberrar stofnunar. Hér getur verið um ákaflega varhugaverða stefnu að ræða, og er hún það áreiðanlega, nema þeir, sem til starfans veljast, sýni þá víðsýni að einskorða starf sitt aðeins við hinar stærri línur, en láti sig eðlilegar framkvæmdir og atvinnustarfsemi litlu eða engu skipta. Mín skoðun er sú, að einstaklingarnir eigi að kveða á um það sjálfir án afskipta hins opinbera, í hvaða framkvæmdir er ráðizt, þar eð þeim er ljósara en opinberum nefndum, hvaða framkvæmdir eru arðbærar og hagkvæmar, þegar af þeirri ástæðu, að þeir reka framkvæmdir sínar fyrir eigin reikning, en opinberar n. fyrir almannafé. Þá er engin von til þess heldur, að sú margvíslega þekking, sem hinir mörgu einstaklingar hafa, sé fámennu ráði gefin. — Ég endurtek þá skoðun mína, að ráðið, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, láti sig eingöngu skipta höfuðatriðin, en sé ekki með óþarfa smámunasemi.

Að því er þennan þátt frv. snertir, fylgi ég því af illri nauðsyn sem tímabundinni bráðabirgðaúrlausn og eingöngu í trausti þess, að um viðsýna framkvæmd verði að ræða í líkingu við það, sem ég hef þegar drepið á.

Um frv. í einstökum atriðum vildi ég segja þetta:

Mörg ákvæði frv. eru næsta óljós, þar sem gert er ráð fyrir, að þau verði nánar skýrð og framkvæmd með reglugerð. Að mínu áliti getur það í senn verið bæði kostur og galli. — Kostur, ef framkvæmd þessara ákvæða verður falin víðsýnum og frjálslyndum mönnum, en galli, ef framkvæmdin lendir hjá mönnum, sem framkvæma höftin haftanna vegna. en ekki af tilliti til sérstakra vandamála, sem leysa þarf.

Sérstaklega tel ég þó, að æskilegt hefði verið, ef frv. hefði kveðið nánar á um skipan gjaldeyris- og innflutningsdeildar, svo og um það, hverjir eina að annast setning verðlagsákvæða og hafa eftirlit með framkvæmd þeirra. Ef ekki er talið ráðlegt að kveða nánar á um þetta atriði í frv. sjálfu, óska ég eindregið eftir því, að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að skýra fyrir hv. d., hvernig hún hugsar sér að skipa þessum málum. Upplýsingar um þetta atriði væri gott að fá, áður en málið er afgr. frá deildinni.

Ég mun ekki fara út í það hér að rekja efni einstakra greina frv., þar sem það hefur verið gert af hv. frsm. meiri hl. fjhn., sem einnig hefur gert grein fyrir þeim brtt., sem meiri hl. n. flytur á þskj. 662.

Þó vil ég að lokum minnast á eitt atriði í frv., sem er nýmæli.

Í þeim l., sem til þessa hafa legið til grundvallar framkvæmd gjaldeyris- og innflutningshafta, hefur ekki verið kveðið á um það, eftir hvaða sjónarmiði úthluta skuli gjaldeyris- og innflutningsleyfum. Í 12. gr. frv. þess, er hér liggur fyrir, felst hins vegar ábending um framkvæmd þessa atriðis, þar sem sagt er:

„Sé úthlutun leyfanna við það miðuð, að verzlunarkostnaður verði sem minnstur. — Reynt verði, eftir því sem frekast er unnt, að láta þá sitja fyrir innflutningsleyfum, er bezt og hagkvæmust innkaup gera og sýna fram á, að þeir selji vörur sínar ódýrast í landinu.“

Um þessa reglu er ekki nema gott eitt að segja, það langt sem hún nær. Menn geta verið sammála um, að þeir, sem bjóða bezt og hagkvæmust kjör, eigi að sitja fyrir, að því er leyfi snertir. Hins vegar er vert að benda á, að í framkvæmd er þessi regla ekki einhlít, þar sem um vörur er að ræða, sem eru margbreytilegar að gerð og gæðum. Geri ég því ráð fyrir, að þessi regla komi þar helzt til framkvæmda, þegar „standardvörur“ og vörur líkar að gerð og gæðum eiga í hlut. Sé þetta haft í huga við framkvæmdina, er nýmæli þetta spor í rétta átt og til bóta.

Með tilvísun til þess, sem hér hefur verið á drepið, fylgi ég þessu frv.