12.05.1947
Neðri deild: 126. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég hefði getað búizt við því eftir þá ræðu, sem ég hélt hér áðan, að hv. 2. þm. Reykv., sem vitanlega hefur stofnað til þessara umr. til þess að halda eina af sínum Sölva Helgasonar-ræðum hér á Alþ., mundi láta þar við sitja, en því var ekki að heilsa. Þeir, sem hlustuðu á mitt mál og hans og vita, að hér hafa talað tveir þeirra manna, sem sæti hafa átt í nýbyggingarráði allan tímann, sem það hefur starfað, geta, ef þeir hugsa um, hvað sagt hefur verið, auðveldlega séð, hver munur var á málfærslunni. Ég lýsti staðreyndum, hvað fram hefði farið í nýbyggingarráði, og ég bætti við það þeirri ósk, að hinni nýju stofnun mætti auðnast að taka við, þar sem nýbyggingarráð hætti, og tengja saman endana, þannig að sem minnst truflun yrði á nýsköpunarstarfinu, sem hv. 2. þm. Reykv. og ég höfum starfað að í bróðerni undanfarin ár.

Í minni ræðu kom ekki fram hnúta eða aðfinning til nokkurs manns né stéttar. En hvað skeður svo, þegar hv. 2. þm. Reykv. kemur hér í ræðustólinn? Fyrir utan hans hugsjónadraumóra, sem voru mér ekkert nýnæmi, þá þurfti hann endilega að bera hér á borð það andlega fóður, sem hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, hefur því miður drukkið í sig í allt of ríkum mæli: gamlar leifar, fúlar dreggjar úr kommúnistasellunum, áburður um svik. Og svo er alið á þessu, sem hans flokkur hefur frá fyrstu tíð borið fyrir þessa þjóð, stéttarígnum. Ég átti ekki von á því, að hv. 2. þm. Reykv. mundi í þetta skipti falla fyrir þessari freistingu, en raunin hefur orðið önnur.

Það, að hefjast handa um öflun nýrra framleiðslutækja á svo mörgum sviðum, sem raun ber vitni um, og verja drjúgum hluta af innistæðum þjóðarinnar, eins og gert var með nýsköpuninni svo nefndu, til þess með öflun hinna nýju tækja að gera þjóðina færari í lífsbaráttunni og girða fyrir atvinnuleysi í framtíðinni, var ekki annað en það, sem þingi og ríkisstj. var skylt að gera, eins og á stóð. Enginn einn stjórnmálaflokkur getur eignað sér hvorki hugmyndina né framkvæmdirnar. Nýsköpunin, sem hafin var undir forystu Sjálfstfl., átti sér fylgismenn í tugþúsundatali meðal þjóðarinnar og innan allra flokka, enda þótt einn þeirra. Framsfl., sem var í andstöðu við ríkisstj. og tók því ekki sem flokkur þátt í störfum nýbyggingarráðs, og blað hans, Tíminn, tæki jafnan mjög óheppilega afstöðu til þessara mála, og svo hitt, að annar stjórnmálaflokkur, kommúnistarnir, hlupu undan merkjum nýsköpunarstjórnarinnar á s.l. hausti. Þrátt fyrir hvort tveggja þetta er það víst, að mikill meiri hluti þjóðarinnar aðhylltist nýsköpunina. Það sýnir bezt hin mikla þátttaka í framkvæmdunum á hennar vegum, sem menn úr öllum landshlutum standa að.

Fyrrv. ríkisstj. tók þetta mál að sér í upphafi, eins og lýst hefur verið, og núverandi ríkisstj. setur það hæst á stefnuskrá sína að halda nýsköpuninni áfram. Það skiptir ekki mestu, hvaða hundraðshluti af andvirði útflutningsins er ákveðinn fyrir fram til þess að afla enn nýrra tækja í viðbót við þau, er þegar hafa verið fengin. Hitt tel ég meiru varða, að nú sé svo búið að þeim, sem lagt hafa hönd á plóginn, að þeir geti öruggir og óttalaust haldið áfram að vinna að sínum þætti í nýsköpuninni og þar með vinna sér og allri þjóðinni sem mest gagn.

Kommúnistar verða að gera sér það ljóst — og ég efast ekki um, að þeim er það þegar ljóst —, að ekkert er eins skaðlegt nýsköpuninni eins og verkföll, vinnustöðvanir eða hótanir um slíkar aðgerðir. Öll þjóðin veit, að hvað vel sem búið er um hnútana að öðru leyti, eru truflanir á atvinnulífinu af þeim ástæðum, sem nú greindi ég, banaráð við nýsköpunina. Kommúnistafl. brást nýsköpuninni, þegar hann sprengdi nýsköpunarstjórnina á s.l. hausti. Hans sök er það, að 117 daga stjórnarkreppa eyðilagði öll störf þingsins á þeim tíma og gerði það verklaust og landið stjórnlaust. Hans sök var það líka, að fyrir þessar sakir dróst á langinn óhæfilega langan tíma að semja um sölu afurðanna á erlendum vettvangi. — Kommúnistar höfðu öðrum hnöppum að hneppa. Þeir eyddu tímanum fyrir hinum flokkunum með óverjandi tvöfeldni og höfðu, eins og sagt er. tungur tvær og töluðu sitt með hvorri. Þeir reyndu að tefla hinum flokkum þingsins hverjum á móti öðrum, í stað þess að þeim hefði verið skylt að vinna að einingu á Alþ. Þeir hefðu að minnsta kosti átt að gera það til þess að tryggja framgang nýsköpunarinnar, fyrst þeir eru svo skapi farnir að tortryggja alla aðra í þessu efni. Þeir létust vera til í tuskið hvað stjórnarmyndun snerti við fleiri en einn í einu. Á meðan sumir þeirra sátu og sömdu eða létu semja um endurreisn fyrrv. ríkisstj. með sömu flokkum og áður, voru flokksfélagar þeirra á leynifundum með framsóknarmönnum og einstaka mönnum úr Alþfl., sem þeim voru að skapi, og höfðu þeir látið miklar ráðagerðir uppi um svo kallaða vinstri stjórn. Allt þetta laumuspil var rekið með flokkshagsmuni eina fyrir augum. Ekki datt þeim í hug að stuðla að því, að afgreiðsla fjárlaganna gæti farið fram á sómasamlegan hátt, né heldur að afgreiða önnur nauðsynjamál þingsins. Nei, allt þetta mátti bíða að þeirra dómi. Þá lá þeim og í léttu rúmi, að því er virtist, hvernig færi með sölu afurðanna, eins og áður segir, því að þeir hirtu ekkert um að vinna að því, að ábyrg ríkisstj. væri til, sem staðið gæti fyrir samningagerðum við erlendar þjóðir.

Jafnvel eftir það, að þessi flokkur hafði orðið þess valdandi, að nær 4 mánuðir þingtímans fóru forgörðum vegna stjórnarkreppunnar, og jafnvel þegar í slíkt óefni var komið, að ekki leit út fyrir annað en að forseti lýðveldisins yrði í annað sinn að leita út fyrir Alþ. til þess að mynda ríkisstj., neituðu kommúnistar afdráttarlaust. eftir því sem upplýst hefur verið, að ræða um myndun þingræðisstjórnar undir forystu Alþfl. Svona hrokafullir voru þessir vesalings menn orðnir af þeim völdum, sem þeir um stund höfðu haft í ríkisstj.

Það er von menn spyrji, hvað vaki fyrir þeim flokki, sem þannig hagar sér á Alþ., og það er von, að menn spyrji líka: Er þetta leiðin, sem leiðtogar þjóðarinnar eiga að fara til þess að tryggja nýsköpunina?

Hið eina, sem vitað er, að kommúnistar hafa afkastað á þessum tíma, er það að semja svo kallaða stefnuskrá fyrir flokk sinn eða skilyrði fyrir stjórnarmyndun á 14 fólíóblaðsíðum.

Þjóðin veit — og kommúnistar vita það líka að raunhæf nýsköpun, þ.e.a.s. endurreisn og stórfellt nýtt framtak í atvinnumálunum, er ekki bylting, heldur þróun. Þar er það ekki höfuðskilyrðið, að flaggað sé með fjarstæðukenndum — nærri stjarnfræðilegum — tölum um afrakstur, framkvæmdir og þess konar. en hlaupa síðan á brott frá öllu saman, áður en verkið er enn hálfnað.

Þjóðin, sem fagnaði nýsköpuninni, og hinn mikli fjöldi framtaksmanna landsins, sem af áhuga hefur tekið þátt í nýsköpuninni, á kröfu á allt öðrum vinnubrögðum gagnvart atvinnuvegum landsins en þeim, sem kommúnistar beita.

Núverandi ríkisstj. hefur efst á sinni stefnuskrá sem hlutverk sitt að tryggja góð og örugg lífskjör allra landsmanna og að halda áfram og auka nýsköpun í íslenzku atvinnulífi. Þetta mun líka vera að vilja þjóðarinnar.

Hitt vita allir, að kommúnistar meta nú mest það, að skapa að nýju glundroða í stjórnmálum landsins, koma af stað nýrri stjórnarkreppu til þess eins, ef vera mætti. að þeir næðu því að ná völdum. Það er nú fullreynt. að ekki þarf að ræða við kommúnista um þjóðlega einingu.

[Hér mun vanta tvær stuttar ræður EOl og ÁÁ, sem innanþingsskrifari (Björn Bald) hefur ekki staðið skil á handr. að, eftir því sem lestrarsalsvörður skýrir frá.]