23.03.1948
Neðri deild: 83. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

196. mál, ríkisreikningurinn 1944

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. þm. A-Húnv., sem er einn af yfirskoðunarmönnum reikninganna, hefur nú í ræðu sinni vikið að orsökum þeim, er hann telur til þess, hve síðbúnir reikningarnir séu. Taldi hann m.a. þetta stafa af því, hve illa gengi með reikningsskil sumra ríkisstofnana. Ég vil í því sambandi benda á, að mér skilst; að það sé hlutverk yfirskoðunarmannanna að sjá um, að ríkisstofnanir skili reikningum sínum í tæka tíð, og finnst mér, að þeir hefðu mátt bera fram kvartanir út af þessu við ríkisstj. og Alþ. Það má vera, að þeir hafi gert það við hæstv. ríkisstj., en þeir hafa ekki hreyft því hér. Nú, en ef einstakar ríkisstofnanir eiga sök á drættinum, þá er full ástæða til að taka það til athugunar og láta þær bæta ráð sitt eða breyta að öðrum kosti um yfirstjórn þeirra, ef þörf krefur.