15.12.1947
Neðri deild: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

111. mál, bráðabirgðafjárgreiðslu 1948

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mikið umr., en vil aðeins gera aths. við það. sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um það, að enn væru ekki tilbúnar hjá fjárhagsráði áætlanir um framkvæmdir í landinu. Það má vera, að þessu sé eitthvað ábótavant og það þurfi að bæta úr því, en ég vil þrátt fyrir það fullyrða, að fjárhagsráð hefur þegar unnið allmerkilegt starf til að koma þessum framkvæmdum áfram. Í þessu sambandi vil ég geta þess, að ég veit, að hv. 2. þm. Reykv. er vel kunnugt um það, að engar hagskýrslur liggja fyrir, sem hægt er að byggja slíkar skýrslur og áætlanir á, og allir, sem vinna í fjárhagsráði, hljóta að finna tilfinnanlega, hversu ábótavant er allri hagskýrslugerð hér hjá okkur Íslendingum. Með þessu er ég þó ekki að kasta steini á hagstofustjóra, því að með engri sanngirni er hægt að kenna honum um þetta.

Hv. 2. þm. Reykv. hlýtur að vera kunnugur þessum vandkvæðum, frá því er hann sat í nýbyggingarráði, og ég vil finna fjárhagsráði það til afsökunar að minna á þetta ráð, sem hv. 2. þm. Reykv. sat sjálfur í — og hann hefur eflaust unnið mikið gagn þar. Það var sett árið 1944 og sat til júníloka 1947. því var ætlað að semja áætlun um atvinnulíf þjóðarinnar næstu árin, svo að skipuleggja mætti vinnuna og allir gætu haft atvinnu. Ég vil ekki gagnrýna störf nýbyggingarráðs, en vil benda á það, um leið og hv. 2. þm. Reykv. bendir á það, að fjárhagsráð hefur ekki á þessum 6 mánuðum, sem það hefur verið til, gert umræddar áætlanir, að ekki tókst nýbyggingarráði á rúmum þrem árum frá 1944–´47 — að semja áætlanir, sem fyrir löngu áttu að vera til. Að vísu gerði það áætlun um togaraflotann, en það var aðeins lítill hluti af því, sem gera átti.

Ég verð því að biðja hv. 2. þm. Reykv. að taka til greina, áður en hann ræðst á fjárhagsráð, þá erfiðleika, sem honum eru vel kunnir, á áætlunarsamningu, meðan hagskýrslur eru jafnófullnægjandi og þær eru. Ég veit, að öllum er það ljóst, að grundvöllurinn fyrir áætlunarbúskap er í meira lagi veikur, meðan hagskýrslukerfið er jafnófullkomið og raun ber vitni um.