15.12.1947
Efri deild: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (1419)

106. mál, skráning skipa

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti. Sjútvn. flytur þetta frv. samkvæmt beiðni sjútvmrh. Það er um að ræða breyt. á orðalagi gildandi laga. Efnislegu breyt. eru aðallega í 5. gr., eins og sjá má í grg., og eru þær ef til vill aðaltilefni þess, að frv. er flutt. Breyt. fela í sér skarpari línur milli skráningar fiskiskipa og kaupskipa, en um þetta hefur verið ágreiningur. Ýmsar fleiri breyt. er um að ræða, sem ég sé ekki ástæðu til að fara inn á, og niðurröðun er nokkuð breytt. Ég tel ekki ástæðu til þess að ræða frv. frekar nú, en vil benda hæstv. sjútvmrh. á, að það verði ekki tekið á dagskrá, fyrr en sjútvn. hefur athugað það vandlega. Það hefur aðeins verið athugað af tveimur nm., en það þarf ekki að líða langur tími, áður en n. getur tekið það fyrir. Það er nú ætlunin að slá því föstu, að öll skipaskráning heyri undir skipaskoðunarstjóra, eins og verið hefur í framkvæmd í Reykjavík, og það er eðlilegt, því að þetta er nátengt hans starfi. Þetta er meginbreyt., þótt um ýmsar minni sé að ræða, sem tala má fyrir við 2. umr. Ég vænti þess, að hæstv. forseti taki málið á dagskrá í samráði við n.