01.03.1948
Neðri deild: 66. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (1647)

84. mál, sóknargjöld

Steingrímur Steinþórsson:

Ég get að mestu leyti fallið frá orðinu, vegna þess að það hafa komið fram til umr. nokkur þau atriði, sem ég ætlaði að minnast á, þegar ég kvaddi mér hljóðs um daginn. Ég ætlaði að beina sömu fyrirspurn til hv. n. eins og hv. 1. þm. Árn. gerði viðvíkjandi þeim sjóði, sem hv. þm. var að rifja upp l. fyrir. Ég get ekki fallizt á, að farið verði að skaftleggja almenning með nefskatti, eins og hér er gert ráð fyrir, til þess að leggja í sjóð samkvæmt 2. gr., þegar engin grg. er fyrir því, hver nauðsyn er til slíkra hluta. Ég sé ekki betur en að prestakallasjóði sé ætlað sama verkefni og hér er ætlazt til, að þessi svonefndi kirkjumálasjóður eigi að hafa með höndum. Hér er því í rauninni verið að stofna nýjan sjóð til þess að inna af höndum svipað verkefni og prestakallasjóði er ætlað að starfa að. Og ef ég fæ ekki einhverjar ákveðnar skýrslur um það atriði, hvað stjórn þessa sjóðs liður, hvernig honum hefur verið varið að undanförnu og hvaða möguleikar eru fyrir hann að sinna þeim verkefnum, sem hér er ætlazt til, að hann vinni að, þá mun ég greiða atkv. gegn 2. gr. þessa frv. Ég tel, að það þurfi að vera mjög ríkar ástæður til þess, að farið sé að skattleggja almenning með nefskatti til þess að stofna sjóð eins og þennan. Og það er að mínum dómi nokkuð mikil bíræfni, að jafnframt því, að sóknargjöldin eru hækkuð, eins og hér er gert, þá skuli vera farið fram á það að hækka þau til þess að leggja þau í allsherjar sjóð, eins og hér er gert ráð fyrir.

Ég get tekið undir það, sem hv. 6. þm. Reykv. (SigfS) sagði hér um 4. gr. frv., að eins og hún var, hefði ég alls ekki getað fylgt henni. Og brtt. er náttúrlega miklu betri en frvgr. var í upphafi og er því miklu nær því, að maður geti fylgt henni eins og hún liggur fyrir nú en eins og hím var.