15.12.1947
Neðri deild: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Ég vil algerlega mótmæla þeirri aðferð, sem hér er höfð í frammi af hæstv. forseta. Eftir að ég talaði í dag, hafa ráðh. talað á fimmtu klst. og flestir þessir ráðh. hafa ausið úr sér ósannindum. Hæstv. utanrrh. hefur komið fram sem argasti amerískur leppur hér og leyfir sér að hafa í frammi fullyrðingar og svívirðingar, án þess að forseti svo mikið sem hringi hann, síðan reif hæstv. ráðh. sig sérstaklega upp viðvíkjandi ameríska sendiráðinu, af því að einn fulltrúi ameríska sendiráðsins var á þingpöllunum, og vildi þar með sýna, hversu góður þjónn hann væri. Svo þegar kemur að því, að þm. fái rétt til að svara, þá er tekið af þeim orðið. Þetta er ekki málfrelsi, svona nær ekki nokkurri átt að haga sér, þm. hafa hér rétt til þess að tala, og ráðh. hafa enn þá ekki það vald á Íslandi, að þeir geti tekið af þeim þann rétt, og hæstv. forseti á ekki að láta hafa sig til þess að taka þennan rétt af þm. Forseti á að vera verndari þm. gagnvart ríkisstj., hann á ekki áð brjóta anda þingskapanna og þann rétt, sem okkur er falinn með þingræðinu. Ég mun þess vegna tala hér samkvæmt umboði mínu frá þjóðinni og standa á verði um málstað Íslands gegn amerísku leppstjórninni, sem leyfir sér að koma fram með frv. eins og þetta og ætla síðan að hefta málfrelsi Íslendinga á eigin Alþ.

Ég ætla þá að byrja á því, af því að hæstv. forsrh. talaði um hirtingu hér áðan, að hirta hann dálítið. Hæstv. forsrh. talaði um það hér áðan, að hann hefði nú umboð frá þjóðinni til þess að gera hér ýmsa hluti. Hæstv. forsrh. er víst búinn að gleyma því, hvernig hann komst á þetta þing. Hann heldur nú, af því að auðmannastéttin í Rvík hefur tyllt honum upp í ráðherrastól, að hann sé mikilsvirtur maður hjá okkar þjóð, vegna þess að honum er falið að vinna verstu verkin, sem um langan tíma hefur verið reynt að vinna gegn íslenzkri alþýðu. Í seinustu kosningum þótti flokki þessa hæstv. forsrh. hann ekki boðlegur í framboð í Rvík, og þess vegna var hann sendur út á land. Þannig risu hans eigin flokksmenn á móti því að hafa hann í kjöri hér í Rvík og hótuðu honum klofningi í flokknum að öðrum kosti. Svo er þessi hæstv. forsrh. að tala um, að hann tali í nafni alþýðu Íslands — hann tali í nafni íslenzku þjóðarinnar og hann treysti svona og svona mikið á verkalýðssamtökin. Þessi hæstv. forsrh. lætur sér þá blekkingu um munn fara, að við sósíalistar viljum engar ráðstafanir gegn dýrtíðinni, hins vegar er hann um leið að segja frá frv. okkar, sem liggur fyrir þessari hv. d., og í því frv. er sýnt fram á með rökum og till., hvernig hægt sé að halda dýrtíðinni í 300 stigum án þess að skerða réttindi og hagsmuni alþýðu Íslands. Í okkar till. felst það að halda vísitölunni í 300 stigum með skynsamlegum ráðstöfunum í þjóðarbúskapnum, sparsemi á ýmsum sviðum á rekstri þjóðarbúsins, lækkun á vöxtum og öðru þess háttar og að svo miklu leyti sem það kæmi við einhverja, þá kæmi það við þá ríkustu í þjóðfélaginu, heildsala, braskara og aðra slíka. Ríkisstj. hins vegar sér það einvörðungu, að það sé hægt að halda vísitölunni í 300 með því að skera niður kaup og samningsbundin réttindi verkalýðsfélaganna. Það má ekki fara aðra leið — leið, sem þýðir skynsamlegri rekstur þjóðarbúsins —, af því að það kemur við þá ríku. Þessi eina leið, sem ríkisstj. sér, það er að skera niður á kostnað launþega. Þetta, að ríkisstj. þykist vera að berjast á móti dýrtíðinni, það er ekkert annað en yfirvarp til þess að geta lækkað launin, því að þessar ráðstafanir verða aðeins til þess að gera dýrtíðina enn tilfinnanlegri fyrir fátæka fólkið í landinu. Ríkisstj. ætlaði sér að skapa grundvöll gegn verkalýðnum með því að skapa atvinnuleysi og bölsýni hjá fólkinu, en allt þetta hefur mistekizt. Allt, sem hún hefur básúnað út, um að ómögulegt væri að selja íslenzkar afurðir, hefur hæstv. utanrrh. orðið að viðurkenna, að sé ekki annað en blekking. En í eymd sinni og vandræðum hefur ríkisstj. gripið til þess ráðs að tala um Rússa og Rússland, þegar þarf að ráða fram úr vandamálum á Íslandi, og með þessu móti ætlar hæsta. utanrrh. sér að skapa vitfirringu, álíka og var í Þýzkalandi, til þess að reyna að koma einhverju svipuðu á hér eins og þar var. Íslendingar eru hins vegar of pólitískt þroskaðir og skynsamir til þess, að þess háttar aðferð takist.

Forsrh. taldi Alþfl. aldrei hafa snúizt í neinu máli. Við sósíalistar höfum aldrei snúizt, þegar um baráttumál alþýðunnar hefur verið að ræða. En hæstv. forsrh. og hans flokksbræður hafa snúizt í þeim málum.

Hæstv. samgmrh. hefur haft hljótt um sig í kvöld, enda minnist hann líklega fyrri afstöðu sinnar til bindingar vísitölu. Það er rétt að lofa hæstv. forsrh. og þingheimi öllum að heyra álit núv. hæstv. samgmrh., sem fram kom við umr. um áform ríkisstj., sem sat árið 1944, um að binda vísitöluna. Hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „En svo kemur það merkilegasta af öllu: hvernig hæstv. ríkisstj. hyggst að kippa þessu í lag, því að um efnishlið frv. þess, sem hér liggur fyrir, er það í stuttu máli að segja, að þar er stungið upp á að fara þá einu leið í dýrtíðarmálunum, sem þegar hefur sýnt sig að vera ófær. Það er búið að reyna þessa leið eða svipaða, og það var hætt við hana aftur, vegna þess að hún reyndist þeim, sem fyrst prófuðu hana, alófær, fyrir utan allt annað, sem segja má um hana. Höfuðstefna frv. er nefnilega sú að ákveða með l., hvert kaupgjald skuli vera í landinu, og ákveða þetta einhliða án viðræðna við þann aðilann, sem við þetta fyrirkomulag á að búa. Þetta var reynt með setningu gerðardómsl. um áramótin 1941 og 1942, og allir muna, hvernig þeirri tilraun lauk.“

Enn fremur segir þessi núv. hæstv. samgmrh., flokksbróðir hæstv. forsrh., með leyfi hæstv. forseta: „Að þessi leið sé opin, leiðir af því, að í frv. er grunnkaupshækkun þó hvergi bönnuð, og að hún verði notuð, hefur reynslan sýnt á tíma gerðardómsl. Allt í allt má segja, að þessi einhliða ákvörðun kaupgjaldsins sé leið, sem ekki komi til greina, nema stórkostleg vá sé fyrir dyrum og engin önnur leið til úr ógöngunum. Nú má að vísu segja, að hér sé voði á ferðum fyrir þjóðfélagið, ef svo heldur áfram til lengdar sem nú horfir í dýrtíðarmálunum, en ég vil á hinn bóginn halda því fram, að ekki hafi verið reyndar til hlítar aðrar leiðir, sem aðgengilegri eru og ég mun minnast á síðar.“

Og síðan tilkynnir hv. þm., að Alþfl. sé á múti þessum ráðstöfunum ríkisstj. Þá var Alþfl. ekki í stjórn og var á móti bindingu vísitölunnar, en nú, þegar Alþfl. á forsrh. í ríkisstj., þá berst hann af slíku ofurkappi fyrir því að binda vísitöluna, að hann ætlar að svipta þm. málfrelsi sínu.

Hæstv. forsrh. talaði hér um og belgdi sig upp af því, að hann hefði barizt fyrir hagsmunum íslenzkrar alþýðu og verið 16 ár í stjórn Alþýðusambands Íslands. Fulltrúi hverra var hann í stjórn Alþýðusambandsins? Hann var aldrei fulltrúi verkamanna. Hann var fulltrúi pólitísks flokks, sem með verstu einræðislögum, sem hafa verið á Íslandi, gaf sér alræðisvald um málefni verkamanna og bannaði, að nokkrir aðrir en yfirlýsti.r alþýðuflokksmenn væru kjörnir til trúnaðarstarfa í samtökum verkamanna. Hæstv. forsrh. var á sinni tíð neytt upp á verkalýðsfélögin af flokki, sem kúgaði þau undir einræðisvald sitt. Réttur minni hl. var fótum troðinn, og allar lýðræðisreglur þverbrotnar, og í krafti þessa sat núv. hæstv. forsrh. í stjórn Alþýðusambandsins í 16 ár, og allan þennan tíma gekkst hann fyrir því, að verkalýðsfélögin væru þannig, að minni hl. væri neyddur til að kljúfa sig út úr, ef hann varð undir í stjórnarkosningu. Svo þegar hann gat ekki lengur haldið við þessu ófremdarástandi og einræðisvald Alþfl. í Alþýðusambandinu var brotið á bak aftur, þá hrökklaðist hann úr stjórn Alþýðusambandsins, en hann fór þaðan ekki allslaus. Hann fór með eignir sambandsins með sér. Fátækir verkamenn, sem byggt höfðu upp samtök sín og lagt fram af sínum litlu launum til þess að samtök þeirra gætu aflað sér nokkurra eigna, þeir áttu ekki að fá að halda eignunum. Með þær fór núv. hæstv. forsrh. burtu og skildi Alþýðusambandið eftir með 80 þús. kr. Skuld. Ég held, að hæstv. forsrh. hefði ekki átt að minnast á baráttu sína í þágu alþýðu þessa lands, því að hún hefur ekki verið svo glæsileg. Hann hefur aldrei skilið baráttu verkamanna fyrir bættum kjörum. Hann hefur aldrei þekkt, hvað það er að standa í verkfalli kannske mánuðum saman og vita síg lítið eða ekkert eiga handa sér og fjölskyldu sinni. Hann virðist jafnvel halda, að verkföll séu sköpuð af einhverjum utan að komandi mönnum, en skilur ekki, að þau eru það eina, sem verkamönnum er eftir skilið til þess að geta barizt fyrir því að fá að lifa við mannsæmandi kjör. Hæstv. forsrh. sagði, að það hefði veríð dýrt ævintýri að hafa sósíalista í stjórn á Íslandi, en það, sem veldur því, að núv. ríkisstj. er ekki oltin úr sessi, er það, að þjóðin horfir nú á þau verk, sem við sósíalistar komum til leiðar í tíð fyrrv. stjórnar. En þegar við settum fram hugmyndirnar, sem urðu að veruleika í tíð fyrrv. stjórnar eða eru að verða það nú vegna aðgerða fyrrv. stjórnar, þá stimplaði núv. hæstv. forsrh. þær sem skýjaborgir. Hæstv. forsrh. ....