23.03.1948
Efri deild: 85. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (1964)

118. mál, hitaaflstöð og hitaveita á Ísafirði

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því, að eins og fyrri daginn þá verði það álitin tóm andúð við þetta mál sem önnur, ef á að ræða það, ekki sízt nú á síðustu dögum þingsins — en ég mun ekki láta það aftra mér.

Afgreiðsla þessa máls er táknræn fyrir vinnubrögðin í fjhn. Form. n. lýsir því yfir, að hann hafi ekki séð sér fært að taka afstöðu í svo umfangsmiklu máli, fyrr en rætt hafi verið við aðra aðila, — en síðan tekur stjórnarandstaðan fyrir að afgreiða málið — stjórnarandstaðan, sem reynir að koma ríkisstj. í fjárhagslegt öngþveiti, ef hún gæti.

Það furðar engan á því, þótt hv. frsm. haldi fast á málinu. Hitt er meiri furða, að jafnvel gefinn maður skuli halda því fram gegn skriflegum þskj., að raforkumálastjóri sé með málinn. — Ég skal aðeins benda á eitt atriði varðandi þetta. Raforkumálastjóri segir hér í áliti sínu meðal annars, með leyfi hæstv. forseta:

„Verkfræðingarnir miða áætlanir sínar við það, að íbúatalan á orkuveitusvæði rafveitunnar sé 4000 og að af þeim íbúafjölda búi 3000 á hinu skipulagða svæði Ísafjarðarkaupstaðar, en tilsvarandi tölur eru nú 3250 og 2300. Hér er því gert ráð fyrir 18.8% og 23.3% fólksfjölgun.“ — Það kemur hér strax fram, hvernig málið er undirbúið, það er miðað við 20% meiri fólksfjölda en til er á svæðinu. Og enn fremur segir: „Nú hefur fólksfjölgun verið hæg mjög um langan aldur á Ísafirði og í Hnífsdal, og jafnvel um fólksfækkun að ræða hin síðari árin. Er því nokkurt vafamál, hvort réttmætt er að byggja áætlanir á svo mikilli fjölgun sem gert er. Að vísu gera verkfræðingarnir ráð fyrir því, „að fólksfjöldinn mundi brátt ná því marki, ef staðurinn hefði upp á þá möguleika og þægindi að bjóða, sem umrætt fyrirtæki hefði í för með sér.“ Ég tel, að þessi fullyrðing þyrfti nánari rökstuðnings við.“

Eru þetta meðmæli með frv.? Er þetta ekki þvert á móti fullkomin ábending um það, að fleira sé í málinu, sem eftir er að rannsaka? Það er ekki vitað, hvort fyrirtækið geti borið sig. Til þess þarf að rannsaka, hvort fólksfjölgun verði jafnmikil og ráð er fyrir gert. — Tæknileg atriði eru heldur ekki undirbúin sem skyldi. Ég sé því ekki, að það sé neinn velgerningur við bæjarfélagið að hraða svo málinu, að önnur eins atriði og þetta svifi í lausu lofti, þegar hefjast skal handa.

Nú má segja, að hæstv. ráðh. þurfi ekki að gefa heimildina, fyrr en rannsókn hefur farið fram, og orð hv. frsm. féllu á þá leið, að hann mun vera mér sammála um, að málið þurfi frekari rannsóknar við, — en ef það er viðurkennt, þá á sú rannsókn auðvitað að fara fram áður en heimildin er samþ., því að lögin gefa Ísfirðingum fulla ábendingu um, að það sé vilji Alþ.. að þeim sé veitt aðstoð eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja nú þegar. Þessi heimildarveiting yrði því enginn velgerningur við Ísafjörð, ef raunin kynni að verða öll önnur siðar. Það ber hér enn að sama brunni og við Skeiðsfoss- og Andakílsvirkjanirnar — það er hafizt handa og gerðar of lauslegar áætlanir, og svo reynist kostnaðurinn tvöfaldur við það, sem áætlað var, svo að fyrstu afborganir og vexti verður að greiða úr ríkissjóði. Það er óverjandi, að ríkið skuli ekki setja yfirstjórn yfir þessi mál, sem krefst meiri fórna af fólkinu í viðkomandi héruðum, t.d. á Siglufirði og í Andakíl, því fólki, sem nýtur góðs af þessum fyrirtækjum.

Ég get ekki séð, að þessu athuguðu, að það sé nein goðgá, að málinu sé frestað með vinsamlegri dagskrá þangað til í haust, og það væri ólíkt sterkari aðstaða. sem Ísafjörður hefði þá, ef málið væri fullrannsakað og það lægi fyrir um það skýrt álit raforkumálastjóra, þar sem hann mælti með, að ríkið gengi í þessa ábyrgð. Hversu miklu sterkari aðstaða væri það ekki fyrir bæjarfélagið heldur en ef það legði nú út í fyrirtækið, það bæri sig ekki og öll gjöld á mönnum yrðu að stórhækka til þess að fá í rekstrarkostnaðinn? Sé þessa gætt, má það teljast hreinn fjandskapur við Ísafjarðarkaupstað að bera þetta frv. fram nú.

Út af því, sem hv. þm. Dal. sagði, vil ég taka það fram, að ég tel óverjandi að brjóta í þessu frv. reglu raforkulaganna um 85% hámarkið, — jafnvel það er vafasamt, en hér er gengið enn lengra og miðað við 90%, enda þótt aðeins sé um heimild að ræða. En það þarf ekki nema meðalskynsemi til að sjá, að ef búið er að heimila það af Alþingi að fara svo og svo hátt, þá hefur viðkomandi ráðherra ekki þægilega aðstöðu til að stinga þar við fótum. Hugsum okkur, að bæjarstjórn Ísafjarðar kæmi til hans og segði: „Við verðum að fá svo og svo háa ábyrgð, ef unnt á að verða að ljúka verkinu.“ Hvaða pressa liggur þá ekki á ráðherranum að fylgja fyrirmælum Alþ.? Þetta ætti jafnskynsamur maður og hv. þm. Dal. að sjá. — Og svo verður ekki látið staðar numið við Ísafjörð einan, heldur kemur hvert einasta þorp á landinu á eftir. Og á sama tíma og verið er að afgreiða þetta mál hér, er verið að rífast um að fresta l. um ýmsar framkvæmdir, sem sett voru þegar meiri bjartsýni einkenndi athafnalíf þjóðarinnar en nú. Það er ekki ósamræmi í þessu!

Ef dagskráin verður felld, mun ég bera fram tvær brtt. við 3. umr., aðra um það, að 2. gr. verði felld niður, og hina um, að hámark ríkisábyrgðarinnar verði fært niður í 85% í stað 90% af stofnkostnaði. Ég mun svo ekki taka aftur til máls í þessu máli, nema sérstakt tilefni gefist til.