28.10.1947
Neðri deild: 9. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (2098)

20. mál, fjárhagsráð, innflutningsverslun og verðlagseftirlit

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er fram borað af hv. 6. þm. Reykv. (SigfS). Það fjallar um breyt. á l. um fjárhagsráð, sem samþ. voru á Alþ. s.l. vor. Þegar það mál var til meðferðar hér í deildinni á síðasta þingi, bar þessi sami hv. þm. (SigfS) fram brtt. við frv. Við það tækifæri flutti hann ræðu, sem hann sjálfur hefur orðið svo hrifinn af, að hann hefur látið prenta hana í grg. þess frv., sem hér liggur fyrir, til þess að tryggja það að hún kæmi tvisvar í þingtíðindunum. Aðalefni þessarar ræðu hans var lýsing á því, hvað illa hefði verið búið að kaupfélögunum í landinu, að því er snerti úthlutun innflutningsleyfa á þeim árum, sem hans flokkur, Sameiningarfl. alþýðu — Sósíalistaflokkurinn, var þátttakandi í stjórn landsins, en þá stjórn studdi hv. 6. þm. Reykv. eftir mætti. Mun sízt ofmælt það, sem hann sagði í ræðu sinni um þetta. En það er eftirtektarvert, að áhugi hans og flokksbræðra hans fyrir leiðréttingum í þessu efni og raunar fleirum vaknar þá fyrst, þegar þeir eru farnir úr ríkisstjórninni. Meðan þeir sátu þar, varð ekki vart neinna umbóta á þessu sviði eða tillagna frá þeim um þær, hvorki í ríkisstjórn né á Alþ., heldur stefndi þá allt í öfuga átt og til vaxandi ranglætis í þessum efnum.

Brtt. sú við frv. um fjárhagsráð. er hv. 6. þm. Reykv. flutti á síðasta þingi, var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Samvinnufélög skulu eiga kost á að fá að minnsta kosti sömu hlutdeild í heildarinnflutningi vefnaðarvöru, skófatnaðar og byggingarefnis. sem þau hafa í matvöruinnflutningi á hverjum tíma, enda séu engar hömlur lagðar á matvörukaup þeirra.“ Þessi till. hv. 6. þm. Reykv. var felld hér í Nd., enda var hún svo klaufalega orðuð, að ekki var unnt að samþykkja hana. Hún var alls ekki samhljóða þeirri till., sem samþ. var á aðalfundi S.Í.S. á Blönduósi í fyrra og hv. 6. þm. Reykv. talaði um í ræðu sinni áðan. Samkv. niðurlagi till. mátti engar hömlur leggja á matvörukaup samvinnufélaganna. Þetta var ekki fært að setja í lög, því að búast mátti við því, eins og nú þegar er komið á daginn, að óhjákvæmilegt gæti orðið að leggja hömlur á matvörukaup til landsins yfirleitt, og þá hlutu samvinnumenn og félög þeirra að sjálfsögðu að búa við þær hömlur eins og aðrir. Það er alkunnugt, að hlutur samvinnufélaganna hafði verið gerður minni en sanngjarnt var við skiptingu innflutningsins á undanförnum árum, sérstaklega af þeirri ríkisstjórn, sem studd var af hv. 6. þm. Reykv. En þó að allmargir þm. sæju nauðsyn þess að rétta hlut félaganna, gátu þeir ekki samþ. till. hv. 6. þm. Reykv. á síðasta þingi, vegna þess hvernig hún var úr garði gerð. Í stað þess var þá samþ. brtt. frá meiri hl. fjhn. við 12. gr. frv. um fjárhagsráð, sem samkomulag varð um milli stjórnarflokkanna og stefndi að auknu réttlæti í úthlutun innflutningsleyfa, eins og ég mun leiða rök að.

Nú flytur hv. 6. þm. Reykv. aftur till. um breyt. á l. um fjárhagsráð, og í þetta sinn hefur hann betur til vandað, því að nú tekur hann til flutnings till. sem fram hefur komið í fjárhagsráði frá fulltrúum Framsfl. þar þeim Hermanni Jónassyni, hv. þm. Str. og Sigtryggi Klemenzsyni lögfræðingi, og ber hana hér fram með litlum breyt. Í stað þess að bera fram sína gömlu till. frá því í vor, hefur hv. 6. þm. Reykv. þannig farið í smiðju til sér færari manna og tekið þaðan til flutnings skynsamlega gerða till.

Um till. þeirra Hermanns og Sigtryggs er gott eitt að segja og vel getur komið til mála að setja slík ákvæði beinlínis í lögin um fjárhagsráð, eins og hv. 6. þm. Reykv. leggur til, ef menn að athuguðu máli komast að þeirri niðurstöðu, að nauðsynlegt sé að gera lagafyrirmælin enn ákveðnari og gleggri en þau eru nú. En annars hef ég litið svo á að lögin um fjárhagsráð væru svo glögg að því er þetta atriði snertir, að þar væri bæði samvinnumönnum og öðrum tryggt réttlæti í úthlutun innflutningsleyfa og það frelsi, sem unnt er að hafa í þeim efnum, eins og hagur þjóðarinnar er nú, ef aðeins er farið eftir lögunum við framkvæmd þessara mála. Og vitanlega verður að gera ráð fyrir því, að þessi lög eins og önnur verði framkvæmd.

Flestir munu á einu máli um það, að æskilegast væri að hafa frjálsa og haftalausa verzlun. Þá gætu allir vörukaupendur hagað viðskiptum sínum eftir því, sem þeir teldu sér hagkvæmast hverju sinni, þá gæti eðlileg og heilbrigð samkeppni átt sér stað milli þeirra, sem fást við vörukaup til landsins og vörusölu innanlands, og þá mætti ætla, að það hæfasta héldi velli. En því er ekki að heilsa, að þjóðin geti búið við fullt frelsi í þessum efnum, eins og fjárhagsástæður hennar og viðskiptaástandið í heiminum er nú. Meira að segja fyrir 2–3 árum, þegar Íslendingar áttu innieignir hjá öðrum þjóðum, sem námu hundruðum milljóna króna, þótti ekki fært að aflétta gjaldeyrisviðskiptahömlunum. Á þeim árum var þó yfirstjórn viðskiptamálanna hér hjá flokki, sem hefur frjálsa verzlun mjög framarlega á sinni stefnuskrá. Það getur því enginn vænzt þess, að nú, þegar allar innieignir landsmanna erlendis eru gersamlega til þurrðar gengnar, sé hægt að afnema viðskiptahöftin, enda hefur enginn treyst sér til þess að bera fram till. um það. En jafnsjálfsagt er hitt, að haga yfirstjórn og framkvæmdum á verzlunarsviðinu þannig, að landsmenn fái að njóta svo mikils frjálsræðis sem unnt er, innan þeirra viðskiptamúra og varnargarða, sem óhjákvæmilegt er að hafa.

Nú hefur reynzt óhjákvæmilegt að taka upp skömmtun á mörgum helztu nauðsynjavörunum, og þá er mjög þýðingarmikið og í alla staði sjálfsagt, að mönnum verði gefinn kostur á að kaupa hinar skömmtuðu vörur á þann hátt, sem þeir telja sér hagkvæmast, og hjá þeim fyrirtækjum, sem þeir óska að skipta við hverju sinni. Um þetta ættu allir að geta sameinazt, a. m. k. allir þeir, sem aðhyllast nokkurt frelsi í verzlun og viðskiptum.

Það var fyrst og fremst með þetta fyrir augum, sem meiri hl. fjhn. Nd. bar fram brtt. sína við 12. gr. frv. um fjárhagsráð á síðasta þingt. Tillaga þessi var samþ. af þingmönnum stjórnarflokkanna og frumvarpsgreinin afgreidd með þeirri breytingu. Ég vil nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér síðari málsgrein 12. gr. laganna um fjárhagsráð, er hefur að geyma ákvæði um úthlutun innflutningsleyfa. Þessi lagaákvæði eru þannig:

„Sé úthlutun leyfanna við það miðuð, að verzlunarkostnaður og gjaldeyriseyðsla verði sem minnst. Reynt verði, eftir því sem frekast er unnt, að láta þá sitja fyrir innflutningsleyfum, sem bezt og hagkvæmust innkaup gera og sýna fram á, að þeir selji vörur sínar ódýrast í landinu. Skal þetta gilda jafnt um kaupmannaverzlun og samvinnuverzlanir og miðað við það, að neytendur geti haft viðskipti sín þar, sem þeir telja sér hagkvæmast að verzla“.

Þannig hljóða lagafyrirmælin. Þar er m. a. ákvæði um það, að reynt skuli að láta þá sitja fyrir innflutningsleyfum, sem bezt og hagkvæmust innkaup gera og sýna fram á, að þeir selji vörur sínar ódýrast í landinu.

En hverjir eiga að dæma um þetta, og hverjir eru þar færastir um að dæma? Ég tel að það séu notendur vörunnar sem þurfa að kaupa útlenda varninginn. Það er fyrst og fremst þeirra hagsmunamál að gera sem bezt kaup hverju sinni, með tilliti til vörugæða og vöruverðs, og því verður að gera ráð fyrir, að þeir geri sér yfirleitt far um að leita sem hagkvæmastra viðskipta. Ekki sízt er mikilsvert fyrir alla landsmenn að reyna að ná sem beztum kaupum eins og nú er ástatt. þegar skömmtun er upp tekin á mörgum helztu nauðsynjum og menn þurfa að gæta þess að fá sem bezt fullnægt þörfum sínum og heimila sinna með þeim innkaupaheimildum eða svokölluðum skömmtunarseðlum sem þeir fá í hendur. — Enda er það ljóst af því, sem segir í framhaldi lagagreinarinnar, sem ég las, að til þess er ætlazt að það séu notendur vörunnar, sem dæmi um það hverjir geri hagkvæmust innkaup og selji vörur sínar ódýrastar í landinu. Í niðurlagi greinarinnar eru fyrirmælt um það, að úthlutun innflutningsleyfanna skuli við það miðuð, að neytendur geti haft viðskipti sín þar, sem þeir telja sér hagkvæmast að verzla.

Um það ætti ekki að þurfa að deila, að þetta lagaákvæði sé í alla staði eðlilegt og sjálfsagt. Heimilisfaðir sem fær í sínar hendur skömmtunarseðla handa sér og fjölskyldu sinni fyrir ákveðið tímabil í senn á auðvitað sjálfur að ráða því, hjá hvaða verzlun innlendri hann kaupir skömmtunarvörurnar. Hann á að hafa frjálsræði til þess að ganga á milli búða og leita fyrir sér, kynna sér það, hvar hann getur gert bezt kaupin, og þegar hann er kominn að niðurstöðu um það á hann samkvæmt lögunum að geta keypt vörurnar Þar, sem hann telur sér hagkvæmast að verzla.

Tillögur þeirra Hermanns Jónassonar og Sigtryggs Klemenzsonar. sem þeir hafa flutt í fjárhagsráði eru byggðar á þessum lagafyrirmælum og í fullu samræmi við þau. Þar er lagt til m. a., að mönnum sé heimilt að afhenda ákveðinni verzlun skömmtunarseðla sína og fela henni að útvega viðkomandi vöru, ef þeir telja sér það hagfelldara en að kaupa gegn seðlunum vörur, sem þá kunna að vera fyrirliggjandi hjá einhverri verzlun. Þetta virðist vera heppileg leið og í fullu samræmi við bæði anda og bókstaf laganna.

Verði þessi aðferð notuð. er þar með fyrirbyggt, að menn neyðist til að kaupa gegn skömmtunarseðlunum vörur, sem þeir eru ánægðir með, en liggja í birgðum hjá einhverri verzlun. e. t. v. fyrir það, að þær hafa þótt óhentugar og dýrar. Í stað þess geta menn samið við aðrar verzlanir um útvegun á vörum gegn seðlunum og þannig tryggt sér útvegun á því sem þeir hafa mesta þörf fyrir, sé það á annað borð fáanlegt, og með svo góðum kjörum sem völ er á.

En þótt ég telji tillögur þeirra Hermanns Jónassonar og Sigtryggs Klemenzsonar, sem hv. 6. þm. Reykv. hefur borið hér fram í frumvarpsformi,. skynsamlegar og í fullu samræmi við ákvæði gildandi laga, þá er ekki þar með sagt, að ekki sé hægt að benda á aðrar aðferðir við framkvæmd laganna, sem geti leitt til viðunandi niðurstöðu. — Að sjálfsögðu geta menn látið í ljós þann vilja sinn að skipta við ákveðna verzlun einnig með öðru en því að afhenda henni skömmtunarseðla sína fyrirfram og panta hjá henni vörur gegn þeim. Ef t. d. 100 menn eða 500 menn senda fjárhagsráði yfirlýsingu um það, að nú óski þeir að hafa sín aðalviðskipti hjá einhverjum nafngreindum kaupmanni eða einhverju ákveðnu kaupfélagi, þá fæ ég ekki betur séð en þeir hafi lagalegan rétt samkv. lögunum um fjárhagsráð, eins, og þau eru nú til þess að fá vilja sínum fram komið. Þannig getur verið um fleiri en eina aðferð að ræða til að ná því marki, sem stefnt er að með ákvæðum laganna.

En á það vil ég leggja áherzlu, að þeir menn, sem gagnrýna tillögur framsóknarmanna í fjárhagsráði og andmæla þeim, skýri þá jafnframt fullgreinilega frá því, hvernig þeir vilja framkvæma lögin að þessu leyti, hvaða aðferð þeir vilja hafa, sem leiði til þeirrar niðurstöðu, að menn geti haft viðskipti sín þar sem þeir telja sér hagkvæmast að verzla, eins og í lögunum segir.

Þegar rætt er um vöruinnflutning til landsins og skiptingu vörunnar milli verzlana í landinu og landsmanna er ástæða til að vekja athygli á þeirri miklu samfærslu viðskiptanna á einn stað, sem orðið hefur nú síðustu árin. Viðskiptin hafa dregizt til Reykjavíkur að mestu leyti. Árið 1938 síðasta árið fyrir styrjöldina, komu rúml. 62% af innfluttum vörum á land í Reykjavík, en hinn hlutinn tæp 38%, var fluttur frá útlöndum beint til annarra verzlunarstaða hér á landi. En skv. verzlunarskýrslunum 1944 fór 90% af innfluttum vörum það ár til Reykjavíkur, en aðeins 10% samtals til allra verzlunarstaða utan höfuðstaðarins. Þessi mikla breyting mun, a. m. k. að verulegu leyti, hafa orðið af styrjaldarástæðum. En þótt nú sé liðið á þriðja ár frá stríðslokum, hefur lítil breyting orðið á þessu enn sem komið er. Árið 1945 hafði Reykjavík um 88% af innflutningnum og sennilega svipað hlutfallslega 1946, en skýrslur um skiptingu innflutningsins það ár eru enn ekki komnar.

Hér þarf að verða breyting. Að vísu er margt fólk nú orðið búsett í Reykjavík og þeim byggðum sunnanlands. sem ekki er óeðlilegt að telja á viðskiptasvæði Reykjavíkur, en þó eru enn svo margir af landsmönnum utan þeirra byggðarlaga. að það er mjög fráleitt, að þeir fái aðeins 1/10 eða 1/9 hluta af innflutningnum beint frá útlöndum til sinna verzlana. Það er áreiðanlega réttlætismál, sem fjárhagsráð og viðskiptanefndin ætti að gefa gaum, að það fólk, sem býr á Austurlandi, Norðurlandi og Vesturlandi og einnig á sumum stöðum sunnanlands, eins og t. d. Vestmannaeyjum, fái þær útlendu vörur, sem það kaupir, fluttar beint til verzlunarstaða í þessum landshlutum, ef það óskar þess og það er framkvæmanlegt, en þurfa ekki að kaupa meginhlutann af vörunum hjá reykvískum innflytjendum. — Með þessu er engan veginn sagt að það eigi að binda menn við að verzla á ákveðnum stöðum eða við ákveðnar verzlanir. Þó að verzlunin og verzlunarstaðir utan Reykjavíkur fái réttan sinn hlut, þá má búast við, að landsmenn hvaðanæva að geri alltaf töluverð kaup hér í Reykjavík, því að hingað til höfuðstaðarins eiga margir erindi og tíðar ferðir. Hins má þá einnig geta, að Reykvíkingar kaupa aftur á móti töluvert af vörum í öðrum landshlutum á sumarferðalögum sínum. Eins og áður er að vikið, hefur fyrir nokkru verið tekin upp skömmtun á mörgum helztu nauðsynjavörunum. Um það munu flestir sammála, að þess hafi verið full þörf og hefði raunar þurft að gerast fyrr. Að vísu hefur um mörg undanfarin ár verið skömmtun á fáeinum vörutegundum. en nú síðast áður en nýju skömmtunarreglurnar gengu í gildi, var aðeins sykurinn skammtaður — og danska smjörið. Vafalaust hefði það verið heppilegra, að víðtækari skömmtun hefði verið hafin áður en gjaldeyrisástæðurnar voru orðnar svo erfiðar sem þær eru nú.

Miklar takmarkanir á innflutningi erlends varnings og þar með fylgjandi nauðsynjavöruskömmtun eru afleiðingar af því m. a., að gálauslega og óviturlega hefur verið farið með mikinn hluta þeirra miklu fjármuna, sem þjóðin eignaðist á stríðsárunum. Fyrir nokkrum dögum kom lýsing á háttalaginu í viðskiptamálunum í þingskjali hér á Alþingi. Einn af þm. Sameiningarflokks alþýðu. Sósíalistaflokksins flutti þá þáltill. varðandi skömmtunina, og í grg. með till. er m. a. vikið að því hvernig haldið hafi verið á fjármálunum og viðskiptamálunum á undanförnum árum, þegar flokkur þessa hv. þm. Sameiningarflokkur alþýðu, Sósíalistaflokkurinn, var þátttakandi í ríkisstjórn. Í þessari lýsingu á viðskiptalífinu talar þm. um „afglapalegan innflutning,“ sem sé „einna áþekkastur því er aflasæll en útúrdrukkinn maður ráfar á lokadaginn milli verzlana og kaupir alls konar óþarfa, leikföng, skran og skartgripi, en gleymir hinu sem heimili hans má ekki án vera. “

Ekki er nú lýsingin fögur, — en því miður allt of nálægt því rétta, enda komin frá þm. úr einum af fyrrv. stjórnarflokkum. sem fóru með völd á þeim árum, þegar gjaldeyrissóunin var afskaplegust, og sennilega eru þeir færastir um að lýsa þessu sem sjálfir voru þátttakendur í ráðleysinu og öflugastir stuðningsmenn þess. Þannig gloppast stundum upp úr hv. þm. Sameiningarflokks alþýðu, Sósíalistaflokksins viðeigandi lýsingar á þeirra eigin verkum, meðan þeir fóru með völdin, en því miður bólar enn allt of lítið á iðrun og afturhvarfi í þeim herbúðum. Annars gera þeir Sameiningarflokks alþýðu, Sósíalistaflokksmenn sér far um að koma þeirri skoðun inn hjá fólki, að þeir hafi eitthvað hreinni skjöld í gjaldeyrismálunum heldur en fyrrv. samstarfsflokkar þeirra í ríkisstjórn. Í blaði sínu halda þeir því fram, að þeir hafi viljað leggja allar gjaldeyrisinnistæðurnar á nýbyggingarreikning, um þær mundir, sem þeir fóru í stjórn. Ekki er þetta nú í góðu samræmi við frásögn Alþingistíðindanna. Skömmu eftir að fyrrv. ríkisstjórn kom til valda, haustið 1944, lagði hún fyrir þingið frv. til l. um nýbyggingarráð. Í því frv. var lagt til. að 300 millj. kr. af innieign landsmanna erlendis skyldu lagðar á nýbyggingarreikning. Frv. fór til fjhn. í þinginu og fulltrúi Framsóknarflokksins þar bar fram till. um að í stað 300 millj. yrðu 450 millj. króna lagðar á nýbyggingarreikninginn. Þetta sést á þskj. 524 frá því þingi. Allir hinir nefndarmennirnir. fulltrúar þáverandi stjórnarflokka. og þar á meðal fulltrúi Sameiningarflokks alþýðu. Sósíalistaflokksins, lögðust gegn þessari brtt. og skiluðu saman nál. á þskj. 525. þar sem lagt var til. að frv. yrði samþ. óbreytt. Síðan greiddu hv. Sameiningarflokks alþýðu. Sósíalistaflokksþingmenn atkv. á móti þessari brtt. okkar framsóknarmanna, eins og aðrir stuðningsmenn þáv. ríkisstjórnar.

Ég skal ekkert segja um það, hvort þeim Sameiningarflokks alþýðu. Sósíalistaflokksmönnum tekst nú 3 árum síðar að telja einhverjum í þeim flokki trú um, að þeir hafi viljað leggja meira af gjaldeyriseignunum á nýbyggingarreikning. En skjalapartur Alþingistíðindanna, sem er öruggasta heimildin um tillögur manna á Alþingi, vitnar gegn þeim í máli nú.

Þjóðin getur ekki lengur hagað innkaupum sinum á sama hátt og einn af hv. þm. Sameiningarflokks alþýðu, Sósíalistaflokksins segir, að hún hafi gert á þeim árum, sem hans flokkur átti ráðherra í ríkisstjórn, en ég vitnaði í lýsingu hans hér áðan. Nú er stríðsgróðinn farinn. Hann hefur að vísu ekki allur eyðzt til fánýtra hluta en allt of stór hluti hans eyddist þannig, án þess að nokkur varanleg verðmæti kæmu í staðinn. Nú er ekki úr öðru að spila en því, sem vöruframleiðsla landsmanna á sjó og landi gefur í aðra hönd. Það verða menn að láta sér nægja. Af því leiðir, að eyðslan verður að minnka mjög verulega, bæði hjá fjölmörgum einstaklingum og því opinbera.

Það mál, sem hér er til umræðu. þ. e. a. s. endurbætur á okkar viðskiptakerfi, er raunar aðeins einn þátturinn í því umbóta- og viðreisnarstarfi, sem hér þarf að hefja nú þegar, ef okkar endurreista lýðveldi á að komast hjá þungum áföllum. Það verður að taka upp nýja stefnu í atvinnumálum, fjármálum og viðskiptamálum, til þess að þjóðin geti lifað efnalega sjálfstæð, frjáls og óháð. En þess að tryggja þjóðinni í heild viðunandi tekjur og öllum sæmilega afkomu, þarf að auka framleiðsluna á sjó og landi og gera hlut þeirra, sem framleiðslustörfin vinna, tiltölulega betri en hann er nú. Með því móti einu er hægt að gera framleiðslustörfin eftirsóknarverðari en önnur, svo að þeim fjölgi, sem þar að vinna, en um leið og það gerist, má vænta aukinnar framleiðslu og þar með aukinna tekna fyrir þjóðarbúið í heild.

Allur þorri manna mun nú loks hafa komið auga á það, að við Íslendingar verðum þegar í stað að lækka til mikilla muna kostnaðinn við framleiðslu á vörum okkar, bæði þeim, sem fluttar eru úr landi og þeim sem notaðar eru innanlands. Við getum ekki vænzt þess að geta selt útflutningsvörur okkar fyrir miklu hærra verð á heimsmarkaðinum heldur en aðrar þjóðir krefjast fyrir jafngóðar eða svipaðar vörur. Það verður ekki með nokkru móti hjá því komizt lengur að lækka framleiðslukostnaðinn. Enginn telur það lengur færa leið að borga mismuninn á kostnaðarverði og söluverði útflutningsvörunnar með milljónatugum úr ríkissjóði, eins og gert er þetta árið. En um leið og horfið er frá því bráðabirgðaúrræði, lækka vitanlega tekjur þeirra manna, sem vinna að framleiðslunni. Útvegsmenn sjómenn og aðrir, sem framleiða vörur til sölu á erlendum markaði, fá minna en áður fyrir sína vinnu. — En þessir menn eiga ekki einir að taka á sig þær byrðar, sem því eru samfara að koma aðalatvinnuvegunum á réttan kjöl. Slíkt væri fráleitt og hið mesta ranglæti. Laun og tekjur annarra manna í landinu þurfa líka að miðast við tekjurnar af framleiðslunni og breytast með þeim. Hér þarf að skapa eðlilegt samræmi í tekjum manna bæði innbyrðis hjá einstökum stéttum og milli þjóðfélagsstéttanna. Þetta má gera t. d. með því að ákveða hlutfallstölur tekna hjá stéttunum, mismunandi eftir því, hvernig störf þeirra eru, hvað þau eru erfið og vandasöm og hverja þýðingu þau hafa fyrir þjóðfélagið. Eftir að þetta hlutfall væri ákveðið, sem ætti að gerast með samkomulagi stéttanna eða fulltrúa þeirra, ef þess er kostur, þá ættu tekjurnar að breytast til hækkunar og lækkunar með vissu millibili, eftir því hve miklar heildartekjur landsmanna eru af framleiðslunni. Með þessari aðferð er hægt að skipta þjóðartekjunum sanngjarnlega. Eftir að slíkt fyrirkomulag vært upp tekið, væri það allra hagur, þegar vel árar og framleiðslustarfsemin er í blóma, og á sama hátt mundu þá erfiðleikar lakari áranna dreifast á alla landsmenn í sanngjörnum hlutföllum, en ekki bitna að mestu leyti eða eingöngu á einstaklingunum eða vissum hóp manna í landinu. — En þegar þessar hlutfallstölur yrðu ákveðnar, þyrfti vel að gæta þess að gera hlut fiskimannanna, sem vinna þau störf við framleiðsluna, er mest erfiði og áhætta fylgir svo ríflegan, að þau verk séu eftirsóknarverð. Það stoðar lítið að fá ný skip og báta, ef menn fást ekki til þess að sækja sjóinn, vegna þess að önnur léttari og áhættuminni vinna er betur borguð. Þannig þarf einnig að búa að bændum og öðrum, sem vinna framleiðslustörfin í sveitum landsins, að þau verði eftirsóknarverð. Meðaltekjur þeirra. sem vinna að framleiðslunni á sjó og landi. þurfa að vera meiri en t. d. skrifstofumanna og annarra, sem vinna létta vinnu. Það eru vafalaust fleiri menn við skrifstofustörf og ýmiss konar kaupsýslustarfsemi heldur en þarf að vera, og eitthvað af þeim ætti fremur að snúa sér að öðrum viðfangsefnum. Þar með er ekki sagt, að ekki þurfi einhverjir að vinna á skrifstofum og fást við kaupsýslu. Og þó að bæði mér og öðrum þyki stundum gott að geta fengið bíl á leigu, þá eru þeir sjálfsagt óþarflega margir mennirnir, sem hafa atvinnu af því að aka fólki um göturnar hér í Reykjavík. Svona mætti lengi telja. En það er ekki nóg að tala um þetta og skrifa um það. Ástandið breytist ekki við það eitt. Það eina, sem hér kemur að gagni, er að koma tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu í það horf, að menn hafi meira upp úr því fjármunalega að vinna nauðsynlegustu störfin heldur en hin, sem ónauðsynlegri eru. Með því, en ekki með prédikunum einum, fá þessi störf það aðdráttarafl, sem þau þurfa að hafa. Það þarf að skipa málunum þannig hér á landi að margir menn og dugandi telji sér það vænlegra til fjár og frama að stunda fiskveiðar á miðunum umhverfis landið eða að rækta jörðina heldur en að komast einhvers staðar til sætis í skrifstofustól eða að fást við ýmiss konar þarflítið kaupmang.

Viðfangsefnin eru fleiri sem hafa legið óleyst lengur en skyldi og ekki má lengur skjóta á frest. Eyðsla ríkisins og bæjarfélaganna má ekki fara fram úr ákveðnu marki miðað við þjóðartekjurnar ef landsmenn eiga að geta risið undir sköttunum og álögunum. Snemma á árinu 1945 var samþ. hér á Alþ. ályktun, þar sem skorað var á þáv. ríkisstjórn að undirbúa löggjöf um skyldur og réttindi opinberra starfsmanna. Þá var nýlokið setningu nýju launalaganna, en við undirbúning og samþykkt þeirra hafði verið vanrækt að setja ákvæði um réttindi og skyldur starfsmannanna. Sú ríkisstjórn, sem fékk þessa þál. í hendur og átti að fara eftir henni, vanrækti þetta undirbúningsstarf þótt hún væri við völd hátt á annað ár eftir að till. var samþ. á Alþ. eða að minnsta kosti minnist ég þess ekki að hafa séð neinar till. frá henni um þetta. Í stað þess tók hún að borga sumum fastráðnum starfsmönnum ríkisins mikið fé fyrir aukavinnu eða yfirvinnu, sem svo er nefnd, og munu þær aukagreiðslur í vissum tilfellum hafa hlaupið á tugum þúsunda til viðbótar fullum launum skv. nýju launal. Er það eitt af mörgum óleystum verkefnum, sem núv. hæstv. ríkisstjórn fékk í hendur, að kippa þessu máli í viðunandi lag.

Þá samþykkti Alþ. einnig í marzmánuði 1945 till. til þál. um athugun á starfskerfi og rekstrargjöldum ríkisins. Var stjórninni falið að láta framkvæma þessa athugun í því skyni að leita að möguleikum til þess að draga úr hinum gífurlega kostnaði við ríkisreksturinn. Till. var flutt af fjvn. þingsins. Fylgdi henni ýtarleg grg., þar sem birtar voru skýrslur, er sýndu, hversu stórkostlega kostnaðurinn við rekstur ríkisins hafði aukizt síðustu árin. En það fór eins um þessa samþykkt þingsins og hina sem ég nefndi áðan. Þeir sem áttu að fara eftir samþykktinni, gerðu það ekki, en alltaf fór eyðslan hraðvaxandi. Ég hef nýlega lagt fram fyrirspurn hér á Alþ. til hæstv. núv. ríkisstjórnar um það, hvað hún hafi aðhafzt í þessum efnum. Mér hefur borizt til eyrna, að hæstv. stjórn hafi þegar látið hefja þessa athugun, en um það fást væntanlega upplýsingar innan skamms, þegar fyrirspurn minni verður svarað.

Eitt af því, sem ekki verður komizt hjá að taka til meðferðar og lagfæringar í sambandi við niðurfærslu dýrtíðarinnar, eru húsnæðismálin, einkum í stærstu kaupstöðunum. Í þeim er nú og hefur verið síðustu árin mesta ófremdarástand, sérstaklega hér í Reykjavík. Þar eru annars vegar margir húseigendur, sem hafa verið hart leiknir af ákvæðum húsaleigulaganna, en að hinu leytinu eru líka margir, sem hafa hrifsað til sín óeðlilega mikinn gróða í sambandi við byggingar eða sölu nýrra húsa í skjóli þeirrar eftirspurnar eftir íbúðum, sem verið hefur. Þetta má ekki svo til ganga framvegis og þarf þess ekki heldur. Það er áreiðanlega hægt að byggja íbúðarhús, viðunandi að gæðum, fyrir miklu lægra verð en verið hefur á flestum þeim húsum, sem hér hafa verið byggð síðustu árin. Aðeins þarf að komast hjá því að borga meira en sannvirði fyrir efnið til þeirra, og þó sérstaklega að viðhafa meiri hagsýni og betri vinnubrögð við byggingarframkvæmdirnar heldur en gert hefur verið. Óhófið og óþarfaeyðslan þarf að hverfa á því sviði eins og öðrum.

Dýrtíðarvandamálið er margþætt, en það krefst skjótrar úrlausnar. Of lengi hafa menn þar vikið sér undan því, sem gera þurfti. Ég hef rætt hér nokkuð um það mál, vegna þess hvað það er nátengt því, sem hér liggur fyrir. Ef ekki tekst að draga úr verðbólgunni og lækka framleiðslukostnaðinn, svo að útflutningsframleiðslan geti þrifizt, þá verður ekki hægt að kaupa til landsins þær nauðsynjar, sem við þurfum að fá frá öðrum þjóðum, og þá er tómt mál að tala um skiptingu innflutningsins. Þess vegna er nú óhjákvæmilegt að lækka framleiðslukostnaðinn. svo að aðalatvinnuvegurinn geti staðizt og framleitt útflutningsvörur fyrir það verð, sem fáanlegt er fyrir þær erlendis. Um leið þarf að minnka eyðsluna hjá því opinbera og öðrum og gæta meiri hagsýni við opinberar framkvæmdir en gert hefur verið. Þá er og réttmætt að taka til almenningsþarfa hæfilegan skerf af þeim stórgróða, sem safnazt hefur hjá einstaklingunum á verðbólguárunum. Nauðsynlegt er að koma á sanngjarnri skiptingu þjóðarteknanna, eins og ég hef hér áður talað um og gera þýðingarmestu störfin, framleiðslustörfin, svo eftirsóknarverð að ekki skorti menn til að gegna þeim. — Jafnframt öllum þessum nauðsynlegu ráðstöfunum þarf að gera mönnum mögulegt að fá sem mest fyrir þær tekjur, sem þeir fá í hendur, með því að hafa verzlunina svo frjálslega sem unnt er, þó að innflutningshöft og vöruskömmtun sé hvort tveggja óumflýjanlegt nú fyrst um sinn. Menn þurfa að leita vandlega fyrir sér, reyna að finna beztu viðskiptastaðina og hafa frjálsræði til þess að gera kaupin þar, sem þau bjóðast bezt. Þetta er svo sjálfsagður hlutur, að um það ætti ekki að þurfa að verða neinn ágreiningur, enda að þessu stefnt með áðurnefndum ákvæðum fjárhagsráðslaganna frá síðasta þingi.

Takist að fá samkomulag um þær nauðsynlegu aðgerðir í atvinnumálunum, fjármálunum og viðskiptamálunum, sem ég hef hér nefnt, þarf engu að kvíða. Ef skynsamlega er á haldið, geta allir Íslendingar haft nóg að bíta og brenna, svo framarlega sem harðæri af völdum náttúrunnar steðjar ekki að. Við þurfum að vísu að hafa mikil viðskipti við aðrar þjóðir, en telja má, að við höfum sjálfir fullt hús matar. Öflun matvæla úr sjó og af landi eru okkar höfuðatvinnuvegir. Við höfum líka mikið af góðu íslenzku efni í klæði handa landsmönnum. Hér þarf því ekki að óttast skort brýnustu lífsnauðsynja, ef menn vilja fara skynsamlega að ráði sínu. En það er skortur þessara brýnustu lífsnauðsynja, fæðis og klæða, sem nú ógnar fjölda manna í öðrum löndum.

Það frv., sem hér er til umr., fer nú væntanlega til þingnefndar til athugunar. Ég tel víst að hv. þingdm. séu sammála um það, að skylt sé að fara eftir ákvæðum fjárhagsráðslaganna, m. a. því fyrirmæli, að skiptingu innflutningsins verði þannig fyrir komið, að menn geti haft viðskipti sín þar, sem þeir telja sér hagkvæmast að verzla. — E. t. v. telja einhverjir aðra leið að því marki eins greiðfæra og góða eða jafnvel betri en þá, sem þetta frv. gerir ráð fyrir og ef aðrar till. um framkvæmd laganna koma fram, þá er sjálfsagt að taka þær til athugunar.