04.03.1948
Neðri deild: 68. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í C-deild Alþingistíðinda. (2127)

20. mál, fjárhagsráð, innflutningsverslun og verðlagseftirlit

Ásgeir Ásgeirsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. V.-Húnv., að meiri hl. fjhn. hefur enn ekki skilað áliti. Það á m. a. rætur sínar að rekja til þess, að nýlega hefur verið haldinn fulltrúafundur bæjar- og sveitarfélaga um þessi mál, og hefur sá fundur gert till. til ríkisstj. um málið, og hefur n. verið skipuð til að athuga þær. Þar sem engin úrslit eru fengin, þá höfum við viljað bíða eftir því að heyra álit n. og till. fundarins, en það er þó vitað, að á þessum fundi var engin samþykkt gerð um það, að leggja bæri skömmtunarseðla til grundvallar leyfisveitingum. eins og þetta frv. leggur til. Við teljum slíkt fyrirkomulag óheppilegt, því að það hefur í för með sér smölun á seðlum og mun jafnvel stundum þurfa að veita viðbótarleyfi umfram áætlun, ef slíkt fyrirkomulag yrði tekið upp. Gætu þessi leyfi orðið allmikil og truflað allt leyfisveitingakerfið. Alþ. hefur afgr. þetta mál í hendur ríkisstjórnarinnar og fjárhagsráðs, og hygg ég, að svo verði bezt ráðið. Um hitt skal ég ekki segja, hvort skömmtunarseðlaaðferðin verður þægilegri fyrir kaupmenn eða kaupfélög, en ég tel líklegt, að við það mundi verzlunin dragast mjög til Reykjavíkur. Við teljum ríkisstj. eiga að ráða fram úr þessu, og get ég lagt hér til munnlega að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar.