06.11.1947
Neðri deild: 14. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (2350)

59. mál, ölgerð og sölumeðferð öls

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 69 ásamt hv. 1. þm. Skagf. (StgrSt) og hv. þm. Ak. (SEH) frv. um ölgerð og sölumeðferð öls. Með þessu frv. er lagt til, að leyfð verði hér á landi bruggun létt-áfengs öls. Tilgangur okkar flm. með því að flytja þetta frv. er fyrst og fremst tvíþættur. Í fyrsta lagi sá að afla ríkissjóði tekna til þess að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir í menningar- og heilbrigðismálum, sem ekki eru annars líkur til, eftir núverandi útliti að dæma, að bann hafi bolmagn til að snúast við á næstu árum. Í öðru lagi er tilgangurinn sá að gera nokkra tilraun til þess að draga úr hinni miklu og skaðlegu neyzlu sterkra drykkja í framtíðinni. Við flm. teljum, að við Íslendingar getum í þessum efnum stuðzt við reynslu annarra þjóða, sem um langan aldur hafa leyft bruggun áfengs öls í löndum sínum. Það vill svo vel til, að þessar þjóðir eru einmitt þær, sem við Íslendingar teljum okkur skyldastar og ekki einungis við, heldur og mikill hluti veraldarinnar lítur til sem mestu og þroskuðustu þjóða, sem hafa skapað fullkomin þjóðfélög og þegnum sínum fjárhagslegt öryggi. — þjóða. sem ríkt hefur hjá þjóðfélagslegt jafnrétti og ríkir hjá þjóðfélagslegt jafnrétti fremur en hjá e. t. v. flestum þjóðum heims í dag. Ég hygg, að það sé ekki að hlaupa á sig, þó við Íslendingar metum nokkurs reynslu þessara þjóða í einmitt þessum viðkvæmu málum, áfengismálunum. Þessar þjóðir hafa flestar leyft bruggun áfengs öls, og þar stendur þessi iðnaður á gömlum merg og er rekinn ekki fyrst og fremst til framleiðslu á drykkjarföngum til neyzlu innanlands, heldur til framleiðslu þýðingarmikillar útflutningsvöru, sem skapar verulegan gjaldeyri í bú þessara þjóða, og gildir þetta fyrst og fremst fyrrverandi sambandsþjóð okkar, Dani, sem talið er, að framleiði eitthvert bezta öl, sem til er í heiminum. Þessi löggjöf hefur ekki leitt til þess, að áliti þessarar þjóðar sjálfrar, að drykkjuskapur ykist þar. Að áliti margra skynbærra manna hefur ölframleiðsla stuðlað að aukinni hófsemi og minni neyzlu hinna sterkari drykkja.

Ég vil, áður en ég geri frekari grein fyrir efni þessa frv., minna á það, að það er um það rætt í okkar landi, að líkur séu fyrir því, að bruggun áfengs öl mundi leiða unglingana til drykkjuskapar. Við þessu er í fyrsta lagi það að segja, að mikill fjöldi unglinga drekkur í okkar landi. Á snið við þá ömurlegu staðreynd verður ekki komizt. Hvað drekkur þetta unga fólk? Drekkur það sterka drykki eða drekkur það létt suðræn vín eða tiltölulega meinlausa drykki, lítið áfengt öl? Svarið getur ekki verið nema eitt. Það drekkur ekki nema það, sem það hefur að drekka, og það eru hinir sterku drykkir, brennivínið, sem er ódýrasta tegundin, en sterkasti drykkurinn. Staðreyndin er þá þessi: Unga fólkið drekkur í dag á Íslandi og drekkur sterkt vín, brennivín. — Það er ekki hægt að segja, þótt ungt fólk byrji á því að drekka bjór, að þar sé um að ræða freistingu, sem verði til þess, að unga fólkið á Íslandi fari að drekka óholl og sterk vín. Ég held þess vegna, að það sé ekki heppilegt, að unga fólkið eigi ekki á öðrum drykkjum völ en hinum sterku vínum. og að unga fólkið mundi, ef það ætti þess kost, í stað hinna áfengu sterku drykkja, drekka létt og lítt áfengt öl. Ég fæ ekki séð, hvaða breytingar til hins verra slíkt gæti haft í för með sér. Frekar gæti ég trúað, að heilsu unglinganna væri minni hætta búin af því að neyta slíkra drykkja en hinna sterku drykkja. sem þeir óneitanlega neyta nú um skör fram.

Af kunnáttumönnum er talið, að skilyrði til ölgerðar sé sérstaklega góð hér á landi. Talið er, að drykkjarvatnið á Íslandi, og þá sérstaklega vatnið hér í Rvík, hið svokallaða Gvendarbrunnavatn, sé alveg óvenjulega gott drykkjarvatn og þess vegna sérstaklega heppilegt til ölgerðar. Það eru þess vegna taldar miklar líkur fyrir því, að ef hafizt yrði handa um ölgerð hér á landi, mundi bætast við nýr og verulegur liður í útflutningsverzlun þjóðarinnar, þar sem ölið væri og má benda á það, að hér hefur verið framleitt sódavatn, sem þótti sérstaklega heppilegt til útflutnings, sódavatn,sem fyrir stríð var töluvert flutt út. Ég held, að það væri mjög skynsamlegt fyrir Íslendinga nú að reyna að gera útflutningsverzlun sína fjölbreyttari, og vissulega hefur þjóðin mikla þörf fyrir auknar gjaldeyristekjur. Það virðist vera lítið skynsamlegt að standa gegn því, að slíkur útflutningur geti hafizt.

Í frv. þessu er lagt til. að sú ölgerð, sem leyfð verði, sé miðuð við 4% áfengi af vígi en óáfengt teljist það öl, sem hefur undir 1,8% af áfengi. Leyfisgjald til þess að mega brugga öl setjum við flm. í frv. 40 þús. kr. Við flm. erum reiðubúnir að ræða breytingar á því. Renni þessi upphæð í ríkissjóð. Að því er snertir gjald af óáfengu öli, þá fer það eftir lögum um gjald af innlendum tollvörutegundum. Nú eru greiddir í ríkissjóð 60 aurar af hverjum lítra hins óáfenga öls. Virðist sjálfsagt að hafa þessar prósentur hærri af áfengu öli. Það verður töluvert dýrara og má gjarnan vera það, og að sjálfsögðu mundi ríkissjóður hafa verulegar tekjur af þessum iðnaði. En hins vegar er sjálfsagt, að gjald af útflutningsöli verði töluvert minna, því að sjálfsögðu hefur ríkissjóður hag af því, að hin innlenda framleiðsla verði samkeppnisfær á innlenda markaðinum við hina erlendu. En fyllilega er til athugunar að hækka þessi gjöld.

Þá leggjum við til í frv., að tekjum þeim, sem ríkissjóður hefur af sölu áfengs öls, skuli fyrst um sinn varið til þess að byggja og reka fjórðungssjúkrahús í Vestfirðinga-, Norðlendinga- og Austfirðingafjórðungi. Má gera ráð fyrir, að tekjur ríkissjóðs af þessum iðnaði mundu nema þegar í upphafi milljónum króna á ári. Nú er það svo, að að undanförnu hafa verið uppi tillögur um svo kölluð fjórðungssjúkrahús, sem ríkið byggði eitt og stæði straum af. Hefur verið á það bent, að í því felst tiltölulega lítil sanngirni, að ríkið reki og byggi fyrst og fremst sjúkrahús í höfuðborg landsins, sem hefur langbezta fjárhagslega möguleika til þess að byggja slíkar stofnanir og reka þær, en láta hins vegar fámennar byggðir, sem eiga við sífelldan fólksstraum frá sér að stríða, standa sjúkrahúslausar eða læknislausar eða láta þær kikna undir rekstri stofnana, sem þegar hefur verið komið upp. Þess vegna leggjum við til, að tekjunum af þessum nýja iðnaði verði varið til þess að byggja þessar nauðsynlegu menningarstofnanir, læknisbústaði, í þorpum, bæjum og sveitum. Það er nú komið svo, að ríkissjóður byggir embættismannabústaði yfir presta þjóðkirkjunnar í vaxandi mæli, yfir hæstaréttardómara, sem eru hæstlaunuðu embættismenn launalaganna, og yfir héraðsdómara, sem einnig eru mjög hátt launaðir. Hins vegar gengur erfiðlega að fá styrk til þess að byggja læknabústaði og sjúkraskýli, og ég er ekki bjartsýnni en svo á fjárhag ríkissjóðs, að ég held, að alllengi, verði að bíða eftir þessum byggingum, ef ríkissjóður á að standa straum af þeim án þess að nýjar tekjulindir komi til, sem sérstaklega væri ætlað að standa undir kostnaðinum við þessar framkvæmdir. Og ég er á þeirri skoðun, að við þm. gerum nokkuð mikið að því að leggja byrðar á ríkissjóð, án þess að benda á, hvernig hann fái fjárhagslega staðið undir þeim. Þess vegna höfum við flm. þessa frv. bent hér á tekjulind, sem er örugg og trygg og mun nægja til þess að sinna þessum verkefnum. sem hér er bent á.

Ég tel, að það sé fyllilega í samræmi við anda þessa frv., að lagt er til, að því fé, sem fæst með þessum nýja tekjustofni, verði varið til heilbrigðis- og menningarmála. Það er íslenzkt menningarmál, að dregið verði úr notkun hinna sterku drykkja. En ef ekkert verður hins vegar gert til þess að lækna þessa meinsemd, er hætt við því, að stöðugt sígi frekar á ógæfuhliðina, frekar en að nokkra lækning megi eygja í þessum efnum. Áfengisnautnin hefur verið kynfylgja mannkynsins frá því að sögur hófust. Þetta er ekki uppátæki hinna síðustu og verstu tíma, ekki spilling í íslenzku þjóðlífi, sem hefur leitt til þess, að ungt fólk drekkur nú oftar og meir en áður og fullorðna fólkið fer verr með vín en oft áður. Áfengisnautnin er gömul, jafngömul erfðasyndinni og eitt af flóknustu viðfangsefnum mannlegs samfélags. Það hafa verið gerðar margvíslegar tilraunir til þess að lækna menn af þessari nautn, sem sjúkir eru orðnir, en því miður hafa þær mistekizt, a. m. k. að því leyti hvað það snertir að útrýma sjálfri nautninni. Það hafa verið reyndar ýmsar leiðir af hálfu löggjafarvaldsins. Það hefur verið reynt algert bann. Sú ráðstöfun, sem lengst hefur gengið í þessum efnum, er algert bann, og við höfum reynslu af því, hvernig bannið hefur gefizt. Bandaríkin komu á banni hjá sér, sem hélzt um langt skeið, en árangurinn varð sá, að það var afnumið. Árangurinn varð neikvæður, því að í kjölfar þessara ráðstafana sigldi margs konar spilling, sem átti sér ekki neinn líka. Og við Íslendingar höfum okkar reynslu af þessari ráðstöfun löggjafarvaldsins. Hér var bann, það átti að þurrka landið. Sú tilraun tókst þannig, að hafin var heimabruggun í svo að segja hverri byggð landsins og fólkið drakk í sig alls konar ólyfjan. Niðurstaðan varð sú, að bannið var afnumið, ekki með einhliða valdboði löggjafarvaldsins, heldur með allsherjar atkvæðagreiðslu með þjóðinni sjálfri, Íslendingar sjálfir settu á bann, og Íslendingar sjálfir afnámu það með almennri atkvæðagreiðslu. Það voru ekki nokkrir brennivínsþm. á þingi, sem afnámu bannið, heldur þjóðin sjálf.

Ég minnist ýmissa atvika frá þessum árum, bannárunum, frá bernsku minni og æsku. Ég man, þegar fólkið kom saman á skemmtanir í heimahögum mínum. Það var bann, þurrt land á Íslandi þá. En þeir, sem vildu drekka, þeir drukku — og drukku illa — vont vín, heimatilbúið brugg.

Ég held, að sporin frá bannárunum hræði og sé ekki líklegt, að umbóta verði leitað í slíkum ráðstöfunum á komandi árum, a. m. k. ekki í náinni framtíð. Og ég býst einnig við því, að þm. séu flestir of minnugir á ástand þessara ára til þess að þá fýsi að láta það ástand skapast á ný, láta þá atburði endurtaka sig, sem gerðust í hverri byggð á þeim árum.

Kjarni málsins er sá, að hvorki við Íslendingar né aðrir verða þvingaðir til siðgæðis í þessum efnum með lagaboði. Það er einstaklingurinn sjálfur, sem verður að vinna sigur yfir sjálfum sér, því að á honum einum er hægt að byggja batnandi meðferð áfengis, en ekki á valdboði og reglugerðum. En ég held hins vegar, að löggjafarvaldið geti hjálpað eineinstaklingunum til þess að sigrast á sjálfum sér, að það geti gert ráðstafanir, sem beini mönnum inn á réttari braut í þessum efnum en nú er. Eða hvaða ráðstafanir gerir hið íslenzka ríkisvald nú til þess að beina mönnum inn á rétta braut í þessum efnum, draga úr neyzlu sterkra drykkja eða leitast við að stuðla að því, að menn drekki minna eða drekki ekki? Ég held nú, að afskipti löggjafarvaldsins, eða ríkisvaldsins öllu heldur, í þessum efnum birtist fyrst og fremst í því, að það er bannað eða a. m. k. hefur ekki fengizt leyft í þessu landi — að selja sterk vín. og þá fyrst og fremst þau vín, sem mest eru drukkin, í minni flöskum en þriggja pela flöskum. Það hefur verið ríghaldið í það, að sterk vín yrðu ekki seld í minni flöskum, eins og til þess að tryggja það, að ef menn á annað borð byrja á þessu áfengi, sé tryggt, að þeir drekki þessa ólyfjan. Verður ekki séð, að annað geti vakað fyrir ríkisvaldinu og framkvæmdavaldinu en einmitt þetta með þessari ráðstöfun. Það vita allir menn, að í einum pela af áfengi er þrisvar sinnum minna áfengi en í 3 pelum. En íslenzka ríkisvaldið sér um það, að þeir, sem þetta vín vilja kaupa, geti ekki fengið það nema á 3 pela flöskum, þannig hjálpar íslenzka ríkisvaldið þeim, sem hjálpar þurfa, til þess að vinna sigur yfir sjálfum sér í þessum efnum.

Ég skal nú ekki fara lengra út í það að rekja ástandið í þessum málum hjá okkur og þau mörgu víxlspor, sem stigin hafa verið í þeim. En ég vil minnast á eitt atriði í sambandi við ölið. Því hefur verið haldið fram, að öl væri jafnvel enn skaðlegra fyrir heilsu manna en hinir sterku drykkir, og þess vegna væru rík rök gegn því að leyfa bruggun slíks öls hér á landi. Ég vil svara þessari staðhæfingu með því að vitna til ummæla, sem fjöldamargir læknar viðhöfðu við mig og marga aðra um það, að áfengi sé því skaðminna, þess þynnra sem það sé. Fyrir nokkrum árum ritaði einn af okkar lærðustu læknum, Helgi Tómasson. grein um þessi mál í víðlesið blað, þar sem hann benti á þessa læknisfræðilegu staðreynd, að þess þynnra sem áfengi væri, þess minna skaðlegar verkanir hefði það á líffæri mannlegs líkama. Ég hygg, að þessi röksemd læknisfræðinnar vegi nokkuð þungt. Ég hygg, að hún segi það, sem við flm. segjum í grg. fyrir þessu frv., að það sé stefnt í réttari átt með því að gefa þjóðinni kost á því að drekka léttan, áfengan bjór, heldur en að halda í stöðugt vaxandi mæli að henni hinum sterku, óhollu drykkjum. Ég tel þessa röksemd læknisfræðinnar e. t. v. einna veigamestu rökin, sem hægt er að bera fram fyrir þessu máli nú, og skal játa það, að ég legg meira upp úr rökum þeirra manna, sem þekkja mannlegan líkama og vita, hvað heilsu hans hentar, heldur en því, sem leikmenn á þessu sviði segja.

Ég hef nú í aðalatriðum gert grein fyrir efni þessa frv. Ég vil svo að lokum segja það, að það má vel vera, að þetta mál sæti töluverðri mótspyrnu hér á Alþ. Við flm. höfðum alltaf búizt við því, að svo færi. En það er von okkar, að með því að fara þessa leið, væri gerð tilraun til úrbóta á miklu þjóðfélagsvandamáli, sem þjóð okkar á nú við að stríða. Það er sannfæring mín, að það sé skynsamlegt að reyna þessa leið og það sé hættulaust að reyna hana. Ég vænti þess, að hv. þm., sem allir þekkja vel hið slæma ástand, sem nú ríkir í áfengismálum okkar, láti einnig sannfæringu sína ráða, þegar þetta mál kemur til atkv. hér í deildinni.

Ég veit, að þegar hafa borizt áskoranir og mótmæli gegn þessu frv. frá ýmsum utan af landi, og þau mótmæli hafa einnig borizt úr mínu héraði. En ég segi við kjósendur mína, eins og ég segi við aðra, þetta mál varðandi, að ég hlýði á rök þeirra og álit, en hef það, sem réttara og sannara reynist, og tel mig ekki endanlegar bundinn af kjósendum mínum en öðrum. Þess vegna segi ég það, að áskoranir frá kvenfélögum og fleiri samtökum — en ég veit, að þær áskoranir eru af góðvilja sprottnar og engu öðru en góðvilja — hafa ekki breytt sannfæringu minni í þessu máli. Þessi góðu og virðulegu samtök hafa ekki borið fram nein rök frambærileg gegn þessu frv., og ég vildi meina, að skörin væri að færast upp í bekkinn, ef hv. þm. geta ekki haldið sannfæringu sinni fyrir því, að jafnharðan sem mál væru borin fram á Alþ., bærust áskoranir utan af landi gegn framgangi þeirra. Ég leyfi mér því að vænta skilnings og stuðnings þm. í máli þessu og tel rétt, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. fjhn., því að í frv. eru ákvæði, sem varða tollamál, og tel ég því eðlilegt, að hv. fjhn. fjalli um málið.