17.11.1947
Neðri deild: 19. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í C-deild Alþingistíðinda. (2369)

59. mál, ölgerð og sölumeðferð öls

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það mætti nú ætla, að ég hefði ýmsu að svara þeim þremur hv. þm., sem mælt hafa gegn þessu máli. En í raun og veru er það nú samt ekki margt, sem ég þarf að segja gegn málflutningi þeirra og rökum. Í ræðum þessara þriggja hv. þm. hefur verið afar lítið um rök. Það hefur aðallega borið þar á fullyrðingum og staðhæfingum, sem lítil rök hafa fylgt. Það er dálítið táknræn ein setning. sem hv. síðasti ræðumaður sagði, sem nú var að setjast niður, fyrir allan málflutning þessara manna hér á þingi og utan þings. Hann sagði: það er aðeins einn réttur skilningur til á þessu máli, það er að fella þetta frv. frá 1. umr. Það er einmitt þetta, sem einkennir allar umr. þeirra manna. sem eru svipaðrar skoðunar og þessir hv. þm., að það er ekki til nema einn réttur skilningur. Það er ekki til nema ein hlið á málinu, — sú hlið, sem þeir túlka, sá skilningur, sem þeir hafa gert að sínum skilningi og þeir staðhæfa. að sé sá eini rétti skilningur. Þetta sýnir mjög vel, af hve mikilli víðsýni og öfgaleysi og af hve miklum vilja til þess að leysa það vandamál, sem hér er um að ræða, ræður þeirra mótast. Það er ekki til nema einn réttur skilningur, það er skilningur þessara hv. þm. Það er ekki til nema ein hlið á þessu máli. Er það hygginna manna háttur, manna sem rökstyðja vilja mál sitt og leiða fram rök með og móti, að viðhafa slíkan málflutning?

hv. þm. af þeim þremur hv. þm., sem hér hafa talað, sem ég tel mig sérstaklega þurfa að svara, er hv. 6. þm. Reykv. (SigfS), sem flutti ræðu sína hér í tveimur köflum og skemmti hv. þm. með því í síðari kafla ræðu sinnar að tyggja upp allan fyrri kaflann, með nokkrum smábreytingum og útþynningum. Þessi hv. þm. var einu sinni kennari. Mér er að vísu sagt, að hann sé hættur að kenna, og mig furðar satt að segja ekkert á því, að hann sé hættur að kenna. Hann byrjaði samt á því að halda hér nokkurs konar kennslustund fyrir mig. Hann margtók fram, að hann ætlaði að kenna mér að draga réttar ályktanir, kenna mér rök, kenna mér þetta og hitt. Ég hef lært eitt af ræðu þessa hv. þm., nefnilega, hvernig ekki á að flytja mál, hvernig ekki á að reyna að gera málstað sinn líklegan, því að svo dæmalaus vatnsgrautur var öll ræða hans, að ég minnist þess ekki í lengri tíma að hafa heyrt slíkt borið á borð fyrir hv. þingheim a. m. k.

Það var fyrst og fremst tvennt, sem þessi hv. þm. deildi á þetta frv. fyrir og þóttist í sambandi við þau atriði hafa sannað á mig litla rökvísi. Hann sagði: Í fyrsta lagi hefst grg. þessa frv. á rökleysu, því að þar er sagt, að það eigi að afla aukinna tekna í ríkissjóð með bruggun og sölu áfengs öls, en jafnhliða draga samt sem áður úr brennivínssölu. Ég játa það, að það er okkar flm. höfuðröksemd fyrir þessu máli, að við teljum, að með bruggun og sölu áfengs öls í landinu mundi draga úr þeirri hóflausu brennivínsneyzlu, sem hér á sér stað. En ég vil ganga lengra í því en bara að leyfa að brugga öl. Ég vil láta hækka verð á brennivíninu. Það mundi þýða það, að enn fleira fólk mundi fælast frá að kaupa það, og líka þýða það, það ef ríkissjóður þarf þessara tekna við óskertra, þá eru líkur til þess, að hann með hækkuðu verði á brennivíninu héldi þeim gróða óskertum. En væri þá svo mikill skaði skeður, þó að tekjur ríkissjóðs af brennivínssölu beinlínis rýrnuðu? Væri þá mikill skaði skeður, þó að íslenzka ríkið hefði nokkrum millj. króna minni ágóða af sölu þessara sterku og hráu drykkja en nú er? Það var eins og hv. 6. þm. Reykv. yrði skelkaður við þá tilhugsun, að brennivínsdrykkjan minnkaði, þá tilhugsun, að Íslendingar ættu kost á færri brennivínsflokkum eftir að farið væri að brugga ölið. — Nei, þessi hv. þm. hefur ekki sannað á okkur flm. þessa frv. neina af þeim rökvillum, sem hann taldi, að kæmu fram hjá okkur í sambandi við þetta frv. Það er í fyrsta lagi hægt að hækka brennivínsverðið, og ég teldi það heppilegast til þess að bægja mönnum frá að drekka sterku drykkina, en til þess að drekka fremur ölið. Og það er enginn skaði skeður, þó að tekjur ríkisins af þessari verzlun minnkuðu eitthvað, en ykjust að sama skapi við ölsölu, eða jafnvel þó að þær ykjust ekki að sama skapi af þeirri sölu.

Þá var annað atriði, sem þessi hv. þm. gerði mjög að umræðuefni. Hann spurði um það, hvort ég gæti ekki afsannað skýrslu landlæknis um áhrif öldrykkju með tölum og hagskýrslum. Nú minntist þessi hv. þm. ekki á neina tölu úr þessum skýrslum landlæknis. Hann var að fleipra um þessar skýrslur, en minntist ekkert á það, hvernig þessar skýrslur væru annað en það, að í þessum skýrslum væri sannað, að þar í löndum, sem menn drykkju mikið áfengt öl, drykkju menn mikið brennivín og meira af sterkum drykkjum en þar, sem sala áfengs öls væri ekki leyfð. Af því að þessi hv. þm., sem einu sinni kenndi stærðfræði í skóla, kallaði eftir tölum, skal ég nú taka nokkrar mjög einfaldar tölur og sýna honum þær.

Árið 1946, sem er sá tími, sem skýrslur liggja fyrir um nýjastar um áfengisneyzlu Íslendinga, voru seld sterk vín og drykkir á Íslandi alls tæplega 600 þús. lítrar, þ. e. a. s. 4,55 lítrar á hvert mannsbarn á landinu. Á sama tíma voru seld vín á Íslandi með 16 til 22% áfengisstyrkleika 86.701 lítrar, eða 0,6 lítrar á mann á Íslandi, og 17,981 lítrar af borðvínum eða 0,1 lítri á mann á Íslandi. Af áfengu öli var ekkert drukkið, af því að það var ekki til í landinu. Í Danmörku var á árinu 1945 drukkið af sterkum vínum 1,92 1 á mann, af léttum vínum 1,99 1 á mann, en af sterku öli 31,1 1 á mann. Hvað segja þessar tölur? Segja þær það, sem hv. 6. þm. Reykv. staðhæfir hér, og segist styðjast þar við skýrslur landlæknis, að því meira öl sem menn drekki, því meira drekki menn af sterkum vínum? Eftir samanburðinum lítur þetta þannig út að Íslendingar, sem hafa ekkert öl, drekka hálfan fimmta 1 á mann af sterkum vínum, en Danir, sem hafa öl, drekka 1,9 1 á mann af sterkum vínum. Hvað sanna þessar tölur? Sanna þær mitt mál eða sanna þær mál hv. 6. þm. Reykv. ? Ég held því fram, að með því að leyfa sölu og gerð létts, áfengs öls í landinu séu líkur fyrir því, að neyzla sterkra vína minnki. Hann heldur því fram, að með því að leyfa þetta séu líkur fyrir því, að neyzla sterkra vína vaxi. Ég held, að það sé ekki hægt að draga þá ályktun af þessum tölum. Það held ég, að liggi nokkurn veginn í augum uppi. Íslendingar drekka hálfan fimmta lítra á mann af sterkum vínum, en í öllandi, þar sem drukkið er hvað mest öl, þar er ekki drukkið nema innan við 2 1 á mann af sterkum vínum.

Ég hef ekki tekið fleiri lönd til samanburðar í þessu. Það má athuga það síðar, en mér virðist, að þessar tölur tali sínu máli.

Það er hins vegar athugavert í þessu sambandi að Danir sem drekka svona lítið af sterkum vínum, en mikið af öli, drekka nokkurn veginn sama áfengismagn, miðað við hreinan spíritus eins og við Íslendingar. Við Íslendingar drekkum, miðað við hreinan spíritus, um það bil 2 1 á ári, en af því er svo að segja allt áfengismagnið eða 1,84 1 á ári, sterk vín, en í Danmörku er hins vegar mjög mikill hluti áfengismagnsins úr léttu vínunum og öli, og minnist ég enn á þá staðreynd læknavísindanna, að því þynnra sem áfengið er, því skaðminna sé það. Menn geta sagt sér það sjálfir, hvort muni vera skaðlegra að drekka vín, sem er 100% alkóhól, eða drekka það í 4–6% bjór, eins og Danir gera, eða í borðvíni, sem er 12–15%. Það verður að líta á þetta, þegar svona mál eru rædd. Það er ekki hægt að berja höfðinu við steininn og æpa: Þjófur, þjófur! eins og þessir þm. gera, sem nú bera okkur, sem þetta mál flytjum, á brýn að við viljum gefa drykkjuhrútunum og þeim, sem misnota áfengi, sem frjálsastar hendur til þess að drekka það. Það er ekki hægt að flytja mál með slíkum hætti og ætlast til þess, að menn séu teknir alvarlega.

Ég hef þá svarað þeim tveimur höfuðröksemdum, sem hv. 6. þm. Reykv. gerði að uppistöðu í málflutningi sínum. Ég sé ekki mikla ástæðu til þess að fara að ræða bannið. Það var gert hér á skörulegan og glöggan hátt af hv. 1. þm. Skagf. (StgrSt). En ég vil aðeins segja varðandi það, sem hv. 6. þm. Reykv. var að tala um, að ég myndi skírnarnafn mitt svo langt aftur. — að ég skal játa það, og tel ég mig ekki óminnugri mann heldur en ýmsa aðra, að ég man ekki skírnarorð mitt, en ég þarf ekki að muna það til þess að muna, hvaða ástand flaut í kjölfar bannsins. Ég man árin í kringum 1930, eftir að bannið var afnumið, heima á æskustöðvunum við Ísafjarðardjúp og norður í Eyjafirði, meira að segja úti í Svarfaðardal, þar sem hv. 6. þm. Reykv. eitthvað þekkir til. Ég man ósköp vel, hvernig ástandið var á skemmtunum bæði þar og vestra og víðar, þar sem heimabruggið flaut. Það eru einhverjar óskemmtilegustu endurminningar, sem fjöldamargir ungir menn eiga frá skemmtunum og samkomum.

Það er svo fjarri því, að ég telji að fólk í mínu héraði hafi verið verr á vegi statt en annað fólk, — ef til vill betur, — ég skal ekki fullyrða um það. En ég sá það, sem gerðist í þessum efnum í Eyjafirði og jafnvel í ættbyggð hv. 6. þm. Reykv.

Hv. þm. sagði, að nú brygði allt í einu svo við, að léttu vínin væru orðin vond og dygðu ekki til að halda mönnum frá neyzlu sterkra drykkja. Áður hefði því verið haldið fram, að léttu vínin ættu að draga úr neyzlu sterkra drykkja. Ég hef engan heyrt halda því fram, að léttu vínin væru verri nú en fyrr, en hitt er annað mál, að ekki er alltaf hægt að fá þessi léttu vín í áfengisverzluninni. Eina vínið sem alltaf er nóg af, er svartidauði og það er vegna þess, að ríkið græðir mest á því. Það er athyglisvert, að á árinu 1946 eru einungis seldir 17000 lítrar rúmir af brennivíni. Vegna hvers er þetta? Meðal annars af því, að þessi vín, léttu vínin, fást ekki, a. m. k. ekki alltaf, og það er allt gert til þess að halda sterku vínunum að fólkinu.

Um bannið er annars óþarfi að fjölyrða. Það kemur engum öfgalausum hugsandi manni til hugar, að á Íslandi verði sett á bann aftur. Þjóðin hefur reynslu af banni. Það voru sett bannl. á sínum tíma, sem voru samþ. með 60% meirihlutafylgi hjá þjóðinni — 60% sögðu já við því.

En 1933 voru bannl. afnumin með svo að segja 60% meiri hl. Það var 60% þjóðarinnar, sem sá, að þessi tilraun hafði misheppnazt. Þjóðin hefur þannig sjálf dæmt um þetta greinilega, — svo greinilega, að ekki verður um villzt. En þessir hv. þm. segja: Það var raunverulega aldrei neitt bann hér. Það var konsúlabrennivín, læknabrennivín og Spánarvín. En má ég spyrja þessa hv. þm.: Halda þeir, að heimabruggið hefði orðið minna og aðstaðan að því leyti betri, ef ekki hefði verið leyfður innflutningur á Spánarvínum? Það þarf einkennilegan hugsanagang til þess að draga þær ályktanir, og það þarf lengi að kenna mér að draga ályktanir, ef ég á að draga svona ályktanir.

Hv. 6. þm. Reykv. og raunar fleiri hafa talið það sem eina höfuðröksemd gegn þessu máli, að líkur væru til þess, að skólafólk og unglingar byrjuðu að drekka, ef það næði fram að ganga, og hv. þm. nefndi verkamenn og ég held fleiri stéttir. Hvers vegna nefnir hann ekki kennara og iðnaðarmenn? Er ekki hættan jafnmikil fyrir alla í þessum efnum? Varðandi það, að hætta sé á því, að unglingar byrji að drekka, ef farið væri að selja áfengt öll vil ég segja það, að mér er sagt, að á sínum tíma, þegar hér var öl í landi, þá hafi því farið fjarri, að unglingar væru ginnkeyptari fyrir því en aðrir, og það hafi verið mjög fátítt, að unglingar og menn yfirleitt drykkju sig ölvaða af öli.

Þetta kemur einnig heim við reynslu annarra landa. Við þetta bætist svo það, að við sjáum upp á það hér, að það ungt fólk sem drekkur, skirrist ekki við að byrja á því að drekka hin sterku vín. Spurningin er þá þessi: Er ekki fullt eins æskilegt, ef ungt fólk smakkar áfengi á annað borð, að það drekki þá hinn létta bjór eins og hin sterku og óhollu vín? Ég er mjög svipaðrar skoðunar eins og hv. 1. þm. Skagf., að ég held að unglingum þyki bjórbragð yfirleitt vont og þeir tælist þess vegna ekki til þess að drekka slíka drykki og hættan af þeim ástæðum, af bjór, sé því ekki fyrir hendi.

Ég vil þessu næst minnast lítillega á eina af höfuðröksemdum hv. 6. þm. gegn þessu máli. Hann talaði um það, að það væri ekki djarfmannlegt að selja starfsliði Keflavíkurflugvallarins öl.

Þetta er einhver sú einkennilegasta staðhæfing sem ég hef heyrt í þingræðu, að það sé ekki djarfmannlegt að verzla við ákveðið fólk í landinu. Ég veit hvað fyrir þessum hv. þm. vakir með þessu. Hv. þm. réðst á mig með miklum fúkyrðum í sambandi við það, hvernig ég og aðrir þm. hefðum selt landið okkar, talaði um landráð o. s. frv., og hann taldi, að það hefði verið gert í skjóli þess samnings, sem gerður var á sínum tíma um brottför Bandaríkjahers úr landinu, brotin l., þ. e. a. s. að innflutningur starfsliðsins til Keflavíkurflugvallarins og innflutningur á öli og drykkjarföngum væri ólöglegt. Ég skal segja þessum hv. þm. það, að ég segi það með góðri samvizku sem lögfræðingur og þm., að ég tel að þessi l., áfengisl., hafi ekki verið brotin af þessum innflutningi. Ég vil leyfa mér að lesa upp 9. gr. þessa samnings, með leyfi hæstv. forseta. en hún hljóðar á þessa leið:

„Eigi skal leggja neina tolla eða önnur gjöld á efni það, útbúnað. nauðsynjar eða vörur, sem inn er flutt til afnota fyrir stjórn Bandaríkjanna eða umboðsmenn hennar samkvæmt þessum samningi eða til afnota fyrir starfslið það, sem dvelur á Íslandi vegna starfa, sem leiðir af framkvæmd samnings þessa. Útflutningsgjalda skal heldur eigi krefjast af útflutningi téðra vara.“

Í þessari grein samningsins er greinilega tekið fram um það, að ekki skuli leggja neina tolla á nauðsynjar þær, sem fluttar eru til þessa starfsliðs. Og hver dregur það í efa, að öl sé nauðsynjavara því fólki, sem frá bjórlandi kemur? Það er ekki aðeins í Bandaríkjunum, sem þessir menn koma frá, heldur í öllum löndum, þar sem áfengur bjór er framleiddur, að hann er talinn til nauðsynjavöru, og ég veit ekki betur en inn í framfærsluvísitöluna íslenzku sé tekið öl og gosdrykkir og jafnvel brennivín. Svoleiðis að það er langsótt röksemd hjá hv. 6. þm. Reykv. að telja eitthvað ókarlmannlegt við það að vilja selja þessum erlendu starfsmönnum íslenzka framleiðslu af öli í stað þess að láta þá flytja erlent öl inn í landið, meðan íslendingar mega ekki sjálfir drekka það. Og það, sem fyrir okkur flm. vakir í grg., þegar við tölum um óviðfelldinn innflutning hins erlenda starfsliðs, er það, að á sama tíma og Íslendingum er bannað að neyta slíks öls, þá skuli vera til erlendir menn í landinu, sem mega gera það. Við teljum það þvert á móti skynsamlegt, að Íslendingar framleiði þessa vöru sjálfir og selji þessum útlendingum það og hagnist á því. Og það var einmitt sú leið, sem farin var á stríðsárunum, að brugga hér áfengt öl fyrir hina erlendu herl. Íslendingar fengu það að vísu ekki, en þessi leið var farin vegna þess, að það þótti viðkunnanlegra og þess var óskað af herstjórninni, að þessi framleiðsla yrði hafin hér. — Það er svo náttúrlega fjarri mér að fara að munnhöggvast við þennan hv. þm. um þá auðmýkt, sem ég sýni fyrir hinu erlenda valdi með því að vilja styðja að því, að íslenzkt öl verði selt á Keflavíkurflugvelli í staðinn fyrir hið erlenda öl, sem flutt er inn. Ég skal ekki fara langt út í það, en ég held, að það sitji illa á þessum hv. þm. að tala um auðmýkt við erlent vald, og ég vil leyfa mér að segja það, að ég held, að það færi betur öllum „Flekkum“ að gelta en þessum hv. þm.

Það eru svo ekki mörg fleiri atriði, sem ég þarf að svara í þessum ræðum, sem fluttar eru til andmæla þessu máli. En ég vil þó að lokum minnast á eitt atriði hjá hv. 6. þm. Reykv. Hann minntist á það, að útvarpsráði hefði verið skrifað af hálfu Stórstúkunnar og fleiri samtaka og óskað útvarpsumræðna um þetta mál. Ég ætti sæti í útvarpsráði og mér bæri þess vegna að beita mér fyrir því. að útvarpsumr. fengjust um þetta mál beint frá útvarpssal eða héðan frá Alþ. Það er rétt, að útvarpsráði barst bréf, ég held einum eða tveimur dögum eftir að þetta frv. var lagt fram hér í Alþ., og annað bréf nokkru síðar, þar sem þess var óskað, að útvarpsumræður færu fram um þetta mál. Útvarpsráð tók þetta til meðferðar og svaraði bréfriturum því, að málið væri til athugunar. Og ég get sagt frá því, að sú skoðun kom fram í útvarpsráði, að það kynni vel að vera, að ekki væri óeðlilegt, að útvarpsumræður færu fram um þetta mál, en það þótti nokkurt bráðræði – og mér þykir það bráðræði, ef samtök utan þings eiga að geta krafizt útvarpsumræðna um þetta mál áður en n. í þinginu fengi það til meðferðar.

Ég held, að það sé fátíð meðferð á þingmáli að útvarpsumræðna sé krafizt um það nema frá Alþ. sjálfu, en um það hafa engar óskir komið fram af hálfu þingflokkanna, eins og þingsköp gera ráð fyrir. Ég get gjarnan sagt það sem mína skoðun að ég er ekki á móti því, að þessi mál séu rædd fyrir þjóðinni. En mér finnst sú leið, sem þessi samtök sem meina vel í þessum málum, þótt leiðir þeirra séu stundum óljósar og torskildar, vilja fara í þessu máli, vera heldur flasfengin leið og raunar ekki geðþekk, þó að ég engan veginn vilji skorast undan því, að þetta mál sé rætt í áheyrn alþjóðar. Ég er tilbúinn að gera það hvenær sem er og hvar sem er. — Hitt er náttúrlega annað mál, sem hv. 6. þm. Reykv. minntist á, að mér bæri að segja af mér þingmennsku vegna þess, að einhverjir kjósendur úti á landi væru á móti þessu máli. Ég held, að þetta síðasta bregði upp dálítið réttri mynd af afstöðu þessa hv. þm. sem þm. til hluta, sem eru að gerast í þjóðfélaginu. Vegna þess, að okkur flm. þessa máls berast mótmæli gegn ákveðnu máli, þá eigum við annað hvort, í fyrsta lagi að skipta um skoðun, við höfum fengið svo mikið af mótmælum frá ýmiss konar félögum, að við ættum að skipta um skoðun, — en í öðru lagi, ef við ekki gerum þetta, þá eigum við að ganga af sannfæringu okkar, þá eigum við að segja af okkur þingmennsku. Ég skal ekki ræða um þetta. Í þessu birtist svo óþroskaður hugsunarháttur, að mig furðar, að jafnvel hv. 6. þm. Reykv. skuli geta alið með sér slíka hugsun. Nei, ég endurtek það sem ég sagði og hv. 1. þm. Skagf. sagði líka: Að sjálfsögðu fylgi ég sannfæringu minni í þessu máli. Hversu langt sem elzt verður til að mótmæla þessu máli, þá hefur það ekki minnstu áhrif á mína sannfæringu.

Hins vegar er ég reiðubúinn til þess að hlíta dómi kjósenda minna, þegar þar að kemur, fyrir afstöðu mína í þessu máli, og það er sannfæring mín ein, sem ræður í þessu máli. en ekkert annað og ég mun þess vegna hvorki ganga af sannfæringunni né heldur segja af mér þingmennsku, þó að allmörg stúkufélög og kvenfélög sendi mótmælt. Ég vil gjarnan. að þau ágætu félagasamtök, sem að þessum mótmælum standa, viti þetta. En hitt vil ég, að komi fram hér á hæstv. Alþ., þannig að fólk viti, og það er það, að við hér á þingi vitum, hvað er að gerast í sumum félagasamtökum: Það á að „tyrannisera“ þingið. Það á að gera okkur hrædda við kjósendur. Það er þetta sem er að gerast. Kjósendur í landinu hafa margir deilt á þm. fyrir það, að þeir hlypu of mikið eftir óskum kjósenda sinna, og þetta er alveg satt. Við höfum stundum hér á Alþ. hlustað of mikið á kjósendur, vegna þess að það, sem kjósendur segja okkur, er stundum, en ekki alltaf, það sem hollast er fyrir þá sjálfa og hollast fyrir þjóð okkar. Það er þetta, sem sum samtök í landinu virðast stefna að nú. Það er að ganga á gamla lagið, það er að setja fulltrúum sínum stólinn fyrir dyrnar og hræða þá frá því að fara nýjar leiðir til lausnar miklum vandamálum. Ég verð að segja, að ég met mikils starf margra ágætra bindindismanna í þessu landi, bindindismanna. sem eru innan þeirra samtaka, sem hafa verið að senda mótmæli og munu senda mótmæli, en ég hika ekki við að segja, að ég hef skömm og djúpa fyrirlitningu á því uppnámi, þeim tæting og tilraunum til æsinga, sem hafðar eru í frammi nú innan margra þessara félagasamtaka. Ég er reiðubúinn til þess að segja þetta hvar sem er. Ég veit, að það er til fólk í landinu, meira að segja margt bindindisfólk. sem öfgalaust vill vinna að umbótum á þessum málum, og ég veit, að því er ósköp lítið gefið um allan þennan tæting og tilraunir til þess að blása þetta mál upp sem það stórmál, sem heill og hagur þjóðarinnar velti á í framtíðinni. Fjöldi þessara manna hefur unnið miklu meira gagn fyrir bindindishreyfinguna og siðabót í þessum efnum en tætingsliðið, sem gerir hvert mál að öfgamáli, þar sem allri skynsemi er vísað á bug. Það er aldrei þetta fólk í neinu þjóðfélagi, sem bætir siðferðið og skapar traustan grundvöll undir þroskað þjóðfélag. Það er alltaf þetta fólk, sem stendur í veginum fyrir þroska, framförum og umbótum í vandasömum málum. Það eru alltaf öfgarnar, sem spilla fyrir því, að vandamálin séu leyst, og þess vegna er það engin tilviljun, hverjir eru meginandmælendur þessa máls með þjóðinni. Hverjir eru það? Það eru liðsmenn hv. 6. þm. Reykv. (SigfS). Fyrst og fremst kommúnistar, sem ætla þarna að reyna að fiska á öfgunum. Þeir vilja reyna að koma í veg fyrir, að skynsamlega sé tekið á vandamálum sem þessu, og umfram allt gæta þess, að öfgarnar verði sem greinilegastar, það er vatn á þeirra myllu. Ég tók það fram áðan, að það væru ýmsir ágætir bindindismenn hér á þingi og utan þings, og ég viðurkenni, að hv. síðasti ræðumaður talaði miklu hóflegar og skynsamlegar um þetta mál en hv. 6. þm. Reykv. En kommúnistar ætla sér að nota öfgarnar, hræða menn til að vera á móti þessu frv. til að reyna að fleyta sér eitthvað áfram á því, reyna að dytta eitthvað að sinni hripleku skútu, sem er alveg að sökkva, grípa í hvaða hálmstrá, sem flýtur.

Ég vil að lokum segja það, að ég er á sama máli og hv. 1. þm. Skagf. (StgrSt) um það, að það eru ýmis atriði í þessu máli, sem mætti e. t. v. breyta frá því, sem nú er í frv., og um það munum við vera fúsir til að ræða við þá n., sem fær málið til meðferðar. Hv. þm. drap t. d. á það, að hann gæti hugsað sér ríkisrekstur. og það tel ég einnig geta komið til greina. Þó má benda á það í því sambandi, að slík tæki sem þarf til framleiðslu öls, eru til í landinu, en þau eru í einkaeign, og með því að nota þau væri hægt að spara ríkinu fé. Þá er ég einnig til viðræðu um að hækka skattinn af ölinu og enn fremur leyfisgjaldið. Það má benda á það, að í stríðinu höfðu einstaklingar þessa framleiðslu með höndum og ríkið kom þar ekki nærri nema í þeim skilningi að taka toll af henni, en þetta kemur ekki í veg fyrir það, að aðrar leiðir gætu verið farnar í framtíðinni.

Ég endurtek það, að það, sem fyrst og fremst vakir fyrir okkur flm. er, að reynd verði ný leið í þessum efnum. Ástandið er nú svo slæmt, að litlar líkur eru til, að það verði bætt nema ný úrræði verði reynd. Við hljótum að líta til reynslu annarra þjóða, og ég trúi ekki, að Íslendingar séu öðruvísi en aðrar þjóðir, sem hafa lært að umgangast áfengi með siðmenningarbrag. Og það virðist svo, að þar sem létt áfengi og öl er á boðstólum sé minna drukkið af hinum sterkari drykkjum, og það vita allir, að öl er talsvert skaðminna en hinir sterku drykkir.

Ég vænti þess svo að lokum, að hv. d. láti þetta mál fá þinglega meðferð í n., eins og hverju máli hæfir.