18.11.1947
Neðri deild: 20. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í C-deild Alþingistíðinda. (2440)

83. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Flm. (Páll Þorsteinsson) :

Ég held, að það sé vægast sagt hæpin lagaskýring, sem hv. 2. þm. Rang. (IngJ) kom með í þessu máli. Þál. sú, sem hér hefur verið lesin upp og vitnað í, felur í sér tvö atriði. Annars vegar að undirbúa brúarbyggingu á Hvítá hjá Iðu, en hins vegar, að brúin skuli byggð eigi síðar en 1948. Síðan segir í sérstakri málsgrein: „Kostnaðurinn greiðist úr ríkissjóði.“ Hver getur skilið, að þessi síðasta málsgr. eigi eingöngu við annan lið þessarar þál., en ekki hinn? Ég held, að það sé hæpin lagaskýring, svo að ekki sé meira sagt. En jafnvel þó að við vildum viðurkenna, að það væri rétt, sem hv. 2. þm. Rang. hélt fram í þessu máli, þá er annað, sem afsannar alveg hans skoðun. Brúasjóður er í raun og veru ekki til og verður ekki til um næstu áramót, því að það fé, sem safnazt hefur í hann, hefur farið allt eða því sem næst til að brúa Jökulsá á Fjöllum. Í lok þessa árs renna út þau lagafyrirmæli, sem gert er ráð fyrir um innheimtu þessa gjalds, sem frv. mitt fjallar um. Nú er það hins vegar samþ., að brúin á Hvítá skuli reist á árinu 1948. þ. e. a. s. áður en nokkuð, sem heitir, hefur safnazt í brúasjóðinn, jafnvel þó að það frv. verði að 1., sem hér er til umr. Hvernig má það þá eiga sér stað, þegar ákveðið er, að brúna skuli reisa á árinu 1948, að hún verði byggð fyrir það fé, sem er þá ekki komið í brúasjóð? Nei, allt þetta hnígur að því, sem ég hélt fram áðan, að þeir, sem hafa barizt fyrir brúnni á Hvítá hjá Iðu og fengið þál. samþ., hafa ekki hugsað sér að fara þá leið um fjáröflun, sem ég legg til að nú sé farin, heldur að fá fé beint úr ríkissjóði 1948 eða 1949.