24.11.1947
Neðri deild: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (2452)

92. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Finnur Jónsson:

Þessi síldveiði, sem hefur komið alveg óvænt til okkar hér við Faxaflóa, getur yfirleitt orðið til mikilla atvinnubóta, ef þetta er annað en stundarfyrirbrigði, en þá því aðeins, eins og hv. flm. benti á, að við séum undir það búnir að nota okkur þetta happ. Nú vill svo til, að við erum að breyta beinamjölsverksmiðjum hér við Faxaflóa í flestum verstöðvum í það, að þær vinni blaut bein, en um leið og sú breyt. fer fram, geta verksmiðjurnar, sem annars eiga að vinna blaut bein, hæglega unnið líka síldarlýsi og síldarmjöl úr síldinni með því að bæta við skilvindum í þessar verksmiðjur. Þetta mun vera búið að gera í Keflavík og mun vera í undirbúningi í Hafnarfirði. Enn fremur er sams konar undirbúningur hafinn í Reykjavík, og þá má líka gera ráð fyrir því, að í þeirri verksmiðju, sem ætlazt er til, að vinni í hinni nýju hvalveiðistöð í Hvalfirði, verði einnig hægt að vinna síldarafurðir. Ef við gerum ráð fyrir, að Hvalfjarðarverksmiðjan geti unnið 1000 mál. Akranesverksmiðjan 700–800 mál. Keflavíkurverksmiðjan álíka mikið, Hafnarfjarðarverksmiðjan álíka mikið og Reykjavíkurverksmiðjan 1500 mál, þá ættum við að hafa síldarverksmiðjur hér við Faxaflóa næsta haust, sem geta unnið úr allt að 4–5 þús. málum á sólarhring. Miðað við það aflamagn, sem er hér núna, væru þetta ekki stórvirkar verksmiðjur, en þeim mætti breyta með tiltölulega litlum tilkostnaði. Einnig vantaði þá mjöl- og lýsisgeymslur. Nú bendir allt til þess, að einstaklingsframtakið við Faxaflóa fáist í verulegum mæli til að leggja fram fé, og vera má að gott sé, að ríkið eigi hér einhvern hlut að máli, en ekki er óeðlilegt, að farið yrði eftir óskum flm. og verksmiðja reist á Akranesi. Akurnesingar hafa þegar sýnt lofsverðar, áhuga fyrir síldarverksmiðjum og eru nú með miklar hafnarframkvæmdir á prjónunum. Ég held, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, verði að athuga í þessu sambandi, hve mikið gert er ráð fyrir að einstaklingar muni á sig leggja og hver verksmiðjuafköstin þurfa að vera orðin hér næsta haust, sem yrðu að líkindum 4000 til 5000 mál.

Í sambandi við síldveiðar er ákaflega nauðsynlegt að athuga nánar um hagkvæmari hagnýtingu aflans. Vetrarsíldin hér mun vera svipuð að gæðum og sú síld, sem veiðist við Noreg í janúar og fram eftir vetri, og eins við Nýfundnaland. Og þar eð norska síldin byrjar ekki að veiðast fyrr en upp úr áramótum, ættum við að vera búnir að koma miklu af okkar vetrarsíld á markaðinn áður en sú norska byrjar að veiðast, ef gert er ráð fyrir áframhaldandi síldveiði hér fyrri hluta vetrar. Ég skýt þessu aðeins til hæstv. sjútvmrh., hvort ekki mundi vegur að koma síldinni þannig út saltaðri eða ísaðri, því að það gefur miklu meiri gjaldeyri í aðra hönd en að bræða hana. En hvernig sem þeirri hagnýtingu yrði háttað að öðru leyti, langar mig til að minnast á það við hæstv. sjútvmrh. að taka til athugunar þál. frá mér um að taka tvo vélbáta með sjálfritandi dýptarmælum á leigu til að leita hér að síld. Hér eru betri skilyrði til slíkrar leitar en fyrir Norðurlandi, torfurnar þéttari og leitarsvæðið ekki eins stórt. Nú hefur t. d. heyrzt, að síld sé farin að ganga í Borgarfjörð, og hefur Laxfoss orðið þar var við stóra torfu. Með slíkri leit, auk leitar annarra skipa, sem eru á veiðum, er hægurinn hjá að fylgjast nokkuð með. Það má náttúrlega segja, að 100 veiðiskip ættu að geta innt þessa leit af höndum, en ég hygg, að það mundi margborga sig að athuga, hvernig þessar síldargöngur haga sér hér í flóanum. Það flýtir fyrir veiðiskipunum að hafa leitarskip, sem ekkert gera annað en leita. Ég álít það ekkert mikið, þótt ríkið leyfði að verja 200 til 300 þús. í þessu skyni. En þetta var nú útúrdúr og ég bið hæstv. forseta afsökunar á því, að ég skuli hafa verið að ræða hér um mál, sem flutt er í Sþ., en það er aðeins vegna þess, að það er mjög skylt þessu máli. En um fyrirhugaða síldarverksmiðju hér við Faxaflóa vildi ég að lokum segja það, að ég álít að hana beri að stofna með sérstökum lögum og reka fyrir sérstakan reikning, en blanda henni ekki saman við aðrar síldarverksmiðjur ríkisins, því að hér er um önnur gæði síldar að ræða, síldin er veidd á öðrum tíma árs og önnur skip koma til greina. Að svo mæltu legg ég til, að málinu verði vísað til hv. sjútvn.