19.11.1947
Sameinað þing: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (3110)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Áður en málið fer til n. vil ég benda á nokkur atriði, sem ég tók fram í fyrra og ég held, að þurfi að athuga. Ýmsir af þessum námsmönnum, sem gjaldeyri þurfa, hafa styrk til náms síns. Um þá styrki vil ég fyrst segja það, að það hefur fram að þessu, að því er mér virðist, ákaflega lítið verið athugað, hvaða menn eru áður til staðar með nám af sama tagi, sem styrkir eru veittir til, og hvaða þörf við höfum fyrir þessa menn. Það eru nú komnir menn, sem hafa verið við nám, sem ekki er sjáanlegt, að við höfum þörf fyrir. Þeir eru komnir með sérnám í vissum greinum, þ. e. hafa lokið prófi í greinum, sem menn eru þegar fyrir í og jafnvel fleiri en við höfum brúk fyrir, eins og þjóðfélagið er nú á vegi statt. Þess vegna tel ég, að þegar hv. allshn. fær þetta mál til athugunar, eigi hún að athuga þessa hlið málsins með það fyrir augum, að hún reyni að búa svo um, að einhvers staðar sé til yfirlit yfir, hvað við helzt þurfum af sérfræðingum, sem stundi nám í öðrum löndum, og þá hve marga í hverri grein fyrir sig, svo að ekki sé verið að ginna menn til að fara í nám, sem menn hafa ekki not af að náminu loknu.

Annað atriði, sem ég vil biðja hv. n. að athuga, er það, að hér hefur það borið við hvað eftir annað, að menn hafi farið t. d. til Ameríku til náms, — eða svo hefur það verið látið heita, — en hafa svo ekkert nám stundað þar. Þessir menn hafa verið styrktir til ákveðins náms þar og hafa slæpzt þar um tíma. En svo hefur borið við, að þessir menn hafa komið heim, án nokkurra prófa eða náms, en farið svo til Norðurlanda og verið styrktir til náms þar. — Maður, sem þannig fer land úr landi með styrki til náms frá því opinbera, en stundar ekki það nám, sem látið er í veðri vaka, að hann fari til að stunda, hann getur náttúrlega lært eitthvað annað og þroskazt eitthvað við ferðalagið og kynni af ýmsum hlutum og málefnum, en ég tel rangt að láta slíka menn fá styrki á styrki ofan. En svona dæmi eru mörg til frá síðustu árum. Þess vegna er nauðsynlegt, að á komist samræmdar reglur um þetta, til þess í fyrsta lagi, að hvorki séu menn látnir hafa styrki né gjaldeyri til náms, sem ekki stunda nám, og í öðru lagi til þess, að ekki séu látnir styrkir til manna né heldur gjaldeyrir til náms, sem við höfum ekkert með að gera, eims og málum er nú komið. Meðan nóg var til af gjaldeyri hjá okkur. var það fyrir sig, þó að þetta kæmi fyrir. En þegar gjaldeyrir er af eins skornum skammti og nú er, má það alls ekki koma fyrir. Þetta bendi ég á nú. Ég benti líka á þetta í fyrra, en því var þá lítill gaumur gefinn. Nú kreppir skórinn meir að í gjaldeyrismálum okkar en hann gerði þá, og má því vera, að eyru manna séu nú betur opin fyrir því en þá að koma á lagfæringu hvað þetta snertir. Það liggur í hlutarins eðli, að þegar búið er að finna það og taka ákvörðun um það, hve mikinn gjaldeyri í heild sé hægt að láta af hendi til að styrkja menn til náms erlendis, og það skilst mér, að fjárhagsráð ákveði, — þá skiptir viðskiptanefnd þeim heildarstyrk milli umsækjenda. Og styrkurinn er ekki nema nokkur hluti námskostnaðar þeirra manna, sem styrktir eru til náms. Hitt verða aðstandendur að sjá um. Það er því ekki nóg, að þessir menn fái aðeins gjaldeyri, sem styrknum nemur. — En fleiri menn mega ekki fá styrk, sem talinn er að vera til náms, heldur en þeir, sem nám stunda. Þess vegna verður að skera niður allan námsstyrk til þeirra manna, sem ekki rækja nám að neinu leyti, þó að kallað sé, að þeir séu við nám. Það þarf að hafa það fyrirkomulag, að lagt sé fram vottorð frá þeim stofnunum, sem íslenzkir menn stunda nám við erlendis, um, að þeir séu við nám. Að nafninu til hefur verið kallað eftir þeim í fyrsta sinn í vetur. Og í öðru lagi á ekki að styrkja menn til annars náms erlendis en þess, sem við teljum, að okkur sé nauðsyn á að fá sérmenntaða menn í.