20.12.1947
Sameinað þing: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í D-deild Alþingistíðinda. (3136)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ef það skyldi fara svo, að þessi ályktun yrði ekki samþ., og í rauninni hvort sem væri, skal ég gjarnan lýsa yfir því, að ég skal inna eftir því við viðskiptanefnd og fara fram á það við hana, að hún geri það sem hún getur til þess að greiða úr þeim vandræðum, sem kunna að verða, þar til endanlegar ákvarðanir verða teknar um þetta mál. Auðvitað verður viðskiptanefnd á hverjum tíma að miða aðgerðir sínar við þá möguleika, sem fyrir hendi eru í þessu máli eins og öðrum. En þó vildi ég segja það, að þetta mál ætti frekar að hafa forgangsrétt til afgreiðslu en önnur. Sennilega eru þessir menn komnir í þetta nám í þeirri góðu trú, að þeim verði veittur nauðsynlegur gjaldeyrir, og eiga því víst erfitt með að hætta því. Verður því að gera allt, sem unnt er, til að hjálpa þeim mönnum, sem komnir eru út í þetta í því trausti, að þeir geti fengið til þess nægilegan gjaldeyri. Verði þess vegna að því ráði horfið að gera ekki samþykkt um málið á þessu stigi, skal ég gjarnan bera viðskiptanefnd þessi boð, um vilja minn í málinu.