03.03.1948
Sameinað þing: 49. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í D-deild Alþingistíðinda. (3175)

108. mál, rannsókn á vegarstæði

Flm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Þáltill. á þskj. 165, sem við hv. 1. þm. N-M. (PZ) flytjum, fer fram á það, að sameinað Alþ. leggi fyrir ríkisstj. að láta vegamálastjóra athuga á næsta vori og gera áætlanir um ruddan sumarveg af þjóðveginum á Þorskafjarðarheiði og á þjóðveginn á Rafnseyrarheiði. Till. er fram borin sökum þess, að á undanförnu ári hafa á héraðsmálafundum verið samþykktar eindregnar áskoranir í þá átt að fá þennan veg, og er þessi ósk fram borin ekki eingöngu vegna óska héraðsbúa, heldur Vestfirðinga almennt. — Því skal ekki neitað, að mjög mikil bót væri að akvegasamgöngum að Ísafjarðardjúpi, en samfellt akvegasamband er þó enn ekki fengið við Ísafjörð eða nein kauptún á Vestfjörðum. Ég býst við, að flestir alþm. skilji, að slíkar samgöngur þykja ófullnægjandi. Menn vilja fá akvegasamband án sjóferða, en Ísafjarðardjúp er nú þröskuldur þarna á milli, þar sem nokkurn hluta leiðarinnar verður að fara sjóleiðis.

Lýður Jónsson vegavinnuverkstjóri hefur rannsakað þessa leið frá báðum vegarendum, en miðhluti þessarar leiðar er enn órannsakaður. Lýður telur, að eftir sé að rannsaka um 10–25 km leiðarinnar, en samtals er áætlað, að þessi vegalengd sé 60–65 km, með því að vegurinn sé lagður allhlykkjótt, því að bein lína, er miklu styttri en þetta. — Yfirleitt er hér um holt og hjalla að ræða, svipað land og vestan við Þorskafjarðarheiði, þar sem akvegurinn hefur verið lagður.

Það er skoðun okkar flm. og Vestfirðinga yfirleitt, að þessa athugun þurfi að fullgera og fá áætlun um, hvað þessi ruddi sumarvegur mundi kosta. Við teljum, að þetta mundi ekki vera meira verk en svo, að því mætti ljúka nú á næsta vori. Það hafa víða annars staðar á landinu verið ruddir sumarvegir, t. d. um Hvalfjörð, og mér er kunnugt um það, að með þeim tækjum, sem nú eru fyrir hendi, sé það ekki kostnaðarsamt. Ég tel, að það væri ekki vonum fyrr, þótt undinn yrði nú bráður bugur að því að gera tilraun til þess að gera nothæfa leið um Vestfjarðaháls, til þess að tengja Vestfirði við akvegakerfi landsins. Fáist það ekki framkvæmt, getur farið svo, að Vestfirðir sitji svo um langan tíma án þess að fá fast samband við akvegakerfið.

Ég vona, að þessi þáltill., sem hvorki ætti að verða kostnaðarsöm né umfangsmikil í framkvæmd, fái greiðan gang gegnum þingið. Líklega ætti bezt við að vísa henni til allshn. og umr. um hana væri þá frestað, — eða til fjvn., og læt ég forseta um það.