04.02.1948
Sameinað þing: 41. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í D-deild Alþingistíðinda. (3231)

100. mál, lyfjabúðir í Reykjavík

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Hv. þm. S-Þ. má ekki halda, að ég segi, að hann hafi ekki leyfi til að flytja þáltill. hér á þingi. En við málflutning hans í þessu máli dró hann fram ummæli, sem gáfu mér tilefni til þess að segja, að það væri ekki sjáanlegt, að hann hefði borið þetta mál fram til annars en að ýfast við landlækni. Þetta er vandasamt mál, og þá vill hv. þm. S-Þ. þeyta upp sem mestu moldviðri um það. Þetta er ljóst af málflutningi hans hér. Og ekki sízt þegar það er athugað, að hv. þm. S-Þ. hefur fordæmt öll verkföll og launadeilur, þá verður það einkennilegt, að hann lýsir yfir, að hann hafi samúð með því, að lyfjafræðingar segi upp starfi sínu, gangi út úr lyfjabúðunum og láti sjúklingana liggja þar, sem þeir eru komnir, án þess að fá meðul. (JJ: Hæstv. ráðh. ætti það skilið). Já, hv. flm. virðist vilja segja sem svo: Sjúklingarnir eiga þetta skilið, af því að ráðh. er flón. — Ætli það væri þá ekki betra að koma þessu ráðherraflóni frá en að lyfjafræðingarnir gengju út úr lyfjabúðunum og hættu vinnu? — Með þessu segist hv. þm. S-Þ., þessi mikli mótstöðumaður gegn öllum verkföllum, mundu vera eða hafa samúð með þessu. En hvert væri tilefnið til slíks verkfalls, annars eins öngþveitis í landinu sem þessa, sem skeður aldrei, nema í heilabúi þessa hv. þm.? Tilefnið væri þá, ef slíkt verkfall væri gert, sem aldrei verður auðvitað, að deila væri um það, hvort lyfjabúðir í Rvík ættu að vera fjórar, fimm, sex eða sjö. Það ætti að vera tilefni þessa verkfalls. Í hvaða skyni yrði þetta verkfall þá gert? Til þess að fjölga lyfjabúðunum, segir hv. þm. S-Þ. En lyfjafræðingarnir, sem hann hefði mestu samúð með, ef þeir gerðu þetta verkfall, eftir því sem hann sagði, þeir eru eftirspurðir menn. Þeir geta vafalaust fengið góð lífskjör. Og ættu þeir þá að gera þetta verkfall til þess að tryggja sín kjör? Nei, til þess að fá fleiri lyfjabúðir, segir hv. þm. S-Þ. Ég held, að þessi hv. þm. sé kominn eitthvað út af línunni í sambandi við þetta. Og einmitt þetta skraf hans um, að lyfjafræðingar gætu e. t. v. gert verkfall til þess að fá fleiri lyfjabúðir, það ber vott um taugaóstyrk hans í sambandi við þetta mál. Og það er af því, að þetta mál er flutt, eins og svo margt, sem hann kemur með, til þess að reyna að ýfast við einhvern. Það er svo mikill drifkraftur í sálarlífi þessa hv. þm. að vilja ýfast við menn. En þó að ég segi, að málflutningur þessa hv. þm. beri þessa vott, þá er ekki óeðlilegt, að þetta mál komi fram á þingi, og þetta mál er til athugunar í ráðuneytinu. Og ég hefði viljað hafa samvinnu við borgarstjórann í Rvík og þá n., sem hefur um þetta mál að fjalla, til þess að reyna að komast að sanngjarnri niðurstöðu um þetta mál.

Það er ekki rétt, að landlæknir sé prinsipialt á móti fjölgun lyfjabúða. En þessu máli hefur verið blandað saman við annað mál, og er það og svo erfiðleikarnir, sem eru nú á að fá starfsmenn, sem hefur orðið til þess, að þetta mál hefur dregizt. Ég vona, að sæmilegri skipan verði komið á um þetta. Og ég hef ekki undrazt það, þótt þetta mál hafi verið flutt hér, heldur hefur mér fundizt, að það væri með mjög annarlegu móti, sem hv. flm. hefur flutt það hér.