22.10.1947
Sameinað þing: 12. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í D-deild Alþingistíðinda. (3373)

8. mál, skömmtunarreglur

Flm. (Katrín Thoroddsen) :

Herra forseti. Ég vildi hér gera nokkrar athugasemdir við ræðu hæstv. viðskmrh., sem hann flutti um þetta mál fyrir nokkrtun dögum. Hann virtist vera á móti till. minni um að fella núverandi skömmtunarreglur úr gildi, en harðánægður með fyrirkomulagið eins og það nú er. Sú ánægja virtist þó annað slagið nokkuð blandin. Ýmist taldi hann skömmtunarkerfinu allt til gildis og taldi það gott og vinsælt og einkum af konum. Það verður ekki annað sagt en hæstv. ráðh. sé næsta lítilþægur og ósýnt um að greina last frá lofi, því að svo margar ásakanir hafa verið bornar fram á skömmtunarkerfið og óánægjan hefur verið svo mikil, að stuðningsblöð stjórnarinnar hafa ekki séð sér annað fært en birta umkvartanir eins og öllum er kunnugt, sem fylgzt hafa með blaðaskrifum um þessi efni. Líklega hefur hæstv. viðskmrh. þó verið eitthvað óánægður, því að annað veifið taldi hann, að endurbóta væri þörf, enda stæði þetta allt til bóta og væru þegar hafnar aðgerðir til úrbóta. Sem sagt, jafnskjótt og kerfið var sett á, reyndist það ónothæft og ábótavant. Það er gleðileg framför hjá hæstv. ráðh. að viðurkenna, að umbóta sé þörf, en allt um það taldi hann, að gagnrýni sú, sem kerfið hefur orðið fyrir, væri ekki fram komin af umbótavilja, heldur af útásetningarsemi og meinfýsi og fremur af vilja en mætti. Ég held, að flestir þeir, sem gagnrýnt hafa skömmtunarkerfið, að minnsta kosti opinberlega, hafi viðurkennt, að skömmtun væri nauðsynleg, og fer ég ekki dult með þá skoðun mína, sem greinilega kemur fram í þessari till., sem hér um ræðir, og grg. hennar og kom einnig fram í ræðu þeirri, sem ég flutti um þetta mál fyrir viku. En hvað því viðvíkur, að skömmtunarkerfinu sé ábótavant, þá held ég, að hæstv. viðskmrh. geti ekki rökstutt, að allar umkvartanir séu sprottnar af meinfýsi, enda hefur sjálfur hæstv. ráðh. viðurkennt, að gallar væru á kerfinu og enn fremur sagt, að gallarnir, sem ég benti á, væru þeir sömu og hann sagði, að ætti að bæta úr. Það er gott að heyra einhvern skilning úr þessari átt, því að það, sem á undan hefur gengið, hefur ekki gefið góð fyrirheit. Vera má, að einhverjar úrbætur verði gerðar til málamynda, en kerfið sjálft er svo meingallað, að það verður aldrei að gagni, þótt á því séu gerðar smávægilegar breytingar. Till. mín, sem hér um ræðir, er flutt til þess að koma í veg fyrir tímaeyðslu og alls konar axarsköft og óþægindi, en að aðferðir skömmtunarmanna batni mikið, er næsta ólíklegt og ótrúlegt þeim, sem hlýddu á hæstv. viðskmrh., þegar hann lýsti þeim erfiðleikum, sem verið höfðu á undirbúningi skömmtunarkerfisins. Já, erfiðleikarnir voru miklir. Fyrst var lausmælgi nefndarmanna, sem ekki gátu þagað um skömmtunina og áttu því sök á hamstrinu. Og kommúnistar einir hömstruðu, sagði sá góði maður, hæstv. viðskmrh., þegar fyrirsjáanlegt var, að umr. yrði frestað þann daginn. Það kemur engum á óvart, þótt hæstv. ráðh. beiti ósannindum og blekkingum. Það eru og hafa verið þeirra vopn. Hitt undraðist ég, þegar hæstv. viðskmrh. sagði, að kommúnistar hefðu tekið við línunni, ekki frá Moskvu, eins og venjulega, heldur frá ríkisstjórninni. Moskva er annars venjulega rökþrotanauðlendingin hjá hæstv. ríkisstj., eins og þingmönnum er kunnugt. En þrátt fyrir það, að lausmælgi kæmi hamstri af stað, og séð var, að í óefni var komið, þá var, í stað þess að flýta skömmtuninni, eytt dýrmætum tíma til þess að búa til dullykil, helzt í þeim tilgangi að blekkja prentara, eftir því sem hæstv. viðskmrh. sagði. Þessi dullykill ásamt erfiðum samgöngum töfðu svo skömmtunina um 1½ mánuð, og nú er lyklinum peðrað út meðal almennings, sem hver og einn verður að geyma eins og dýrmætt skjalasafn. Samning dullykilsins var sem sagt helzti tekniski erfiðleikinn, sem skömmtunarmennirnir þurftu að yfirstíga. Auðvitað eru tekniskir erfiðleikar fyrir hendi, þegar svona stendur á, en hjá mörgum slíkum barnasjúkdómum, ef ég má svo að orði komast, hefði verið hægt að sneiða með því að notfæra sér reynslu annarra þjóða, sem haft hafa skömmtun í mörg ár. Með því móti mátti alveg hlaupa yfir tilraunastigið. Það er engin vansæmd í því að tileinka sér reynslu annarra, og sjálfsagt að fylgjast með því, sem erlendis gerist, og samhæfa það, sem nýtilegt er, íslenzkum staðháttum. Læknar, sem hérlendis hafa ekki tækifæri til þess að stunda sjálfstæðar rannsóknir, telja sér bæði ljúft og skylt og sjálfsagða nauðsyn að fylgjast með erlendum rannsóknum og nýjungum í sinni sérgrein. Og ég býst við, að sjúklingarnir kynnu því illa, ef læknarnir fylgdust ekki með og þekktu kannske ekki rétt nöfnin á sjúkdómum og lyfjum og færu svo að káka við sjúkdóma og læknisaðgerðir með tilraunum, sem engin reynsla er fengin fyrir. Auðvitað verður læknirinn að taka tillit til ástands sjúklingsins, og eins verða skömmtunaryfirvöldin að athuga gaumgæfilega alla staðhætti, áður en skömmtuninni er skellt á. Það er heimskulegur sjálfbirgingsháttur að leita ekki til reynslu annarra, og ég treysti því, að nefndin, sem fær þetta mál til athugunar, verði ekki sama sinnis og hæstv. viðskmrh. Ég geng út frá því, að fulltrúar erlendra ríkja hér mundu veita upplýsingar um, hvernig skömmtun er háttað í þeirra löndum, og mætti þar fá þýðingarmiklar upplýsingar til bóta, einkum ef einnig væri leitað ráða hjá reyndri húsmóður, en hæstv. viðskmrh. telur það víst jafnfráleitt. Annars virtist hæstv. viðskmrh. hafa áhuga fyrir skömmtun í einu ríki — og það var í Sovét-Rússlandi. Það hlakkaði í honum út af því, að þar hefði ekki alltaf verið ríflegur skammtur. Satt er það, að fyrstu árin eftir byltinguna, þegar þjóðin var að berjast fyrir tilveru sinni gegn erlendum innrásum, þá var stundum þröngur kostur og einnig í stríðinu, þegar þjóðin var að vinna sigur á fasistunum, og fyrst eftir sigurinn, en það er skoðun mín, að það hafi ekki verið tómar hungurvofur, sem sigruðu herveldi fasistanna. En það er of víða, sem naumur skammtur er, og margar Evrópuþjóðir hafa minna en nóg, en þó að svo sé og þó að íslenzka þjóðin sé enn að heyja frelsisbaráttu sína eftir að sjálfstæði landsins hefur verið lýst yfir og þó að landið hafi verið hersetið og sé hersetið á parti enn og þó að því sé ógnað af erlendum yfirgangsmönnum og þó að í landinu starfi 5. herdeild, þetta óhugnanlega fyrirbrigði, og þó að þjóðin eigi enn í baráttu við innlenda og erlenda fasista, þá tekur hún það ekki sem afsökun fyrir ónothæfum skömmtunarreglum, og langlundargeð þjóðarinnar er þrotið, og því er nú verið að reyna að friða hana með káki, sem er vitagagnslaust. Skömmtunin í höndum þeirra, sem nú stjórna henni, verður aldrei annað en kák, því að þeir skilja ekki eða vilja ekki skilja það, sem þeir eiga að gera. Hæstv. viðskmrh. taldi ekki, að benzínþörf lækna færi eftir sjúklingafjölda þeirra. Líklega heldur hæstv. ráðh., að það sé ekki á færi nema pýramídaspámanna að sjá, hvort læknir, sem hefur 1000 sjúklinga, þurfi meira benzín en læknir, sem hefur 100 sjúklinga. Það þarf heldur engan speking til að sjá, að benzínþörfin er meiri, ef oft þarf að fara út í úthverfin, eins og margir læknar þurfa að gera. Börn veikjast auðvitað eins og fullorðið fólk og ekki síður, þegar þau á viðkvæmasta aldursskeiði lifa í slæmum húsakynnum. En börn hafa ekki enn þá fengið sérstaka miða, heldur eru þau látin fylgja foreldrum sínum, en til þess að vita sjúklingafjölda læknis þarf auðvitað að telja börnin með. Þetta veit tryggingastofnunin og sjúkrasamlagið, og þetta gætu skömmtunarmennirnir vitað líka. En hæstv. viðskmrh. og hans menn segja: Vér einir vitum, — og vita svo ekki neitt. Það er einfalt dæmi, að 10 hestafla mótor þurfi meira benzín en 5 hestafla mótor og vinni þar af leiðandi meira. Eins er auðsætt, að sá, sem vinnur erfiðisvinnu, þarf meiri matarskammt en aðrir, og hefur þetta verið nákvæmlega rannsakað af manneldisfræðingum og gerðar yfir þetta töflur, sem skömmtunarmenn hefðu hæglega getað aflað sér, ef þeir hefðu viljað vinna verk sitt vel. En þeir sögðu, að það mætti ekki gera upp á milli manna. Það væri svo ljótt. Því var haldið fram, að kornvöruskammturinn hefði verið meir en nógur. Var grennslazt eftir því, hverjir leifðu af kornvöruskammtinum. Það er vitað, að verkamenn og bændur voru óánægðir með skammtinn, og hann var þeim ónógur, og veit ég dæmi til þess, að bændur voru hér á snöpum eftir kornvöruseðlum. Svo er fyrirkomulagið þannig, að skammturinn ódrýgist mjög í meðferðinni. Einkum er það bagalegt fyrir smáfjölskyldur, sem ekkert hafa að gera með að kaupa heilt brauð í einu, en vilja gjarnan eins og aðrir borða brauðið nýtt. En kannske verða prentaðir miðar fyrir verzlanir til að gefa til baka, eins og við stofnauka nr. 13, en þar varð ríkisstjórnin að láta í minni pokann vegna óánægju almennings, enda hart t. d. fyrir konu að þurfa að kaupa tvo forlegna heildsalakjóla í einu. En meðan hæstv. viðskmrh. heldur áfram að láta prenta skiptimiða og auka þar með heimilisskjalasafnið, mun hann verða var við vaxandi óánægju manna, sem hafa eytt stofnauka sínum öllum eða eru neyddir til að drekka kaffið úr keramik og kristall, því að ekki fást nú almennileg bollapör nema gegn skömmtunarseðlum, en „keramikið“ selt skömmtunarseðlalaust. Fyrst ég minnist á kaffið, þá er rétt að geta þess, að sú skömmtun er ekki síður fáránleg, þegar nýfædd börn fá sama skammt og fullorðið fólk, þó að börn drekki ekki kaffi, en næstum eina ánægja margra gamalmenna að fá sér kaffisopa. Ekki stafar þetta af því, að ekki væri auðvelt að framkvæma þetta öðruvísi, því að ekki fá menn skömmtunarseðla nema að gefa upp fæðingardaga og ár.

Hæstv. ráðh. upplýsti, að húsmæður væru ánægðar með sápuskammtinn. Þessar vinkonur ráðh. hljóta að vera kommúnistar, því að þær hljóta að hafa hamstrað, en það gerðu bara kommúnistar, eftir því sem ráðh. sagði. Annars geri ég ráð fyrir, að það sé hvort tveggja álíka blekkingar og ósannindi, að húsmæður séu ánægðar með sápuskammtinn og hitt, að það hafi verið eingöngu eða aðallega kommúnistar, sem hömstruðu. Það er sama, hvað ráðh. segir um vini sína, það eru flestir óánægðir með skömmtunina og sérstaklega M- og B-reitina, enda eru þeir vægast sagt mjög óheppilegir til viðskipta. Ráðh. leiddi hjá sér að ræða um mjólkur- og ávaxtaskömmtun, enda var það eðlilegt eftir ástandinu í þeim málum. Eins og allir vita, þá eru það fyrst og fremst ungbörn, sjúklingar og gamalmenni, sem þessa vöru þurfa að nota og sumum sjúklingum alveg óhjákvæmilegar, t. d. þeim, sem eru með magasár, sykursýki o. fl., en til þessa er ekkert tillit tekið.

Ég var sótt til barns, sem hafði kveisu, nú fyrir fáum dögum. Móðir þess sagði, að barnið mundi hafa fengið þetta af „sjoppu“ mjólkinni. Ég fór að spyrja hana nánar um þetta, því að ég skildi ekki vel, hvað hún átti við. Þá kom í ljós, að konan hafði ekki getað fengið mjólk eftir venjulegum leiðum, en náð henni loks fyrir hærra verð á einhverri veitingastofu. Þessu verður að breyta, börnin verða að ganga fyrir, á meðan nokkur mjólk er til.

En ég treysti ekki höfundum skömmtunarkerfisins til þess að bæta úr þessu, og því vil ég benda nefndinni, sem kann að fá þetta til meðferðar, að hafa samráð við lækna um það, hvernig skömmtun á rjóma, mjólk og ávöxtum, að minnsta kosti, skuli fyrir komið. Hæstv. ráðh. taldi það firru að ætlast til þess, að ríkisstjórnin hlutaðist til um, að hinar skömmtuðu nauðsynjar væru til í landinu, en ég skil ekki, hvers vegna það ætti að vera, þegar þess er gætt, að þeir aðilar, sem fjalla um innflutningsmálin, bæði fjárhagsráð og viðskiptanefnd, heyra undir ríkisstjórnina. Það er sannarlega ekki fjarstætt að líkja þessum skömmtunaraðgerðum ríkisstjórnarinnar við gerðir ölóðs manns. Mér finnst það t. d. í góðu samræmi við gerðir mikið drukkins manns að flytja inn bíla í hundraða tali, sem ekkert benzín fæst á, meðan ekki fást nauðsynjar.

Ég legg því til, að þessar skömmtunarreglur verði felldar úr gildi, hæstv. ráðh. má kalla það breytingar, þó að það verði að vera hrein bylting til þess að gagni megi verða. Hins vegar er ég ekki á móti nauðsynlegri skömmtun, ef henni er haganlega og skynsamlega fyrir komið.

Það verður að sjálfsögðu miklu erfiðara að skipa þessum málum eftir það tjón, sem hamstrið hefur skapað, því að það er ekki einungis, að það hafi skapað misrétti og grundvöll fyrir svartan markað, heldur eitt enn, sem verra er, þó að það sé hvort tveggja slæmt, það hefur veikt siðferðisþrek þeirra, sem hamstrað hafa, þeir hafa beðið siðferðislegan hnekki. Ef til vill hefur ríkisstjórnin ekkert á móti því, þó að þjóðin verði siðferðislega lömuð, hún sættir sig þá kannske betur við „úrræði“ stjórnarinnar. jafnvel við dollaralán. En sé svo, þá skjátlast þeim háu herrum, því að íslenzka þjóðin gín aldrei við þeirri flugu, þó að hún hafi gyllta vængi.