28.11.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í D-deild Alþingistíðinda. (3516)

37. mál, hlunnindi einstakra trúnaðarmanna þjóðfélagsins um vörukaup

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil í sambandi við þessa þáltill., sem hér liggur fyrir, minna á, að fyrir nokkru síðan var lögð hér fram í Sþ. af sex þm. till. um afnám sérréttinda í áfengiskaupum. Sú till. fjallar að nokkru leyti um sama efni og þessi þáltill., sem hér liggur fyrir. Þessi þáltill., sem ég nefndi, er fyrir nokkru komin til hv. allshn. Sþ., og mér þykir líklegt, að þessari till., sem hér liggur fyrir, verði einnig vísað þangað. Nú vildi ég vænta þess, að áður en mjög langt líður, þá yrði þessi fyrri till., sem ég gat um, um afnám sérréttinda í áfengiskaupum, afgr. frá hv. allshn. Og fallist nú hæstv. Alþ. á að samþykkja þá till., þá tel ég, að vel geti komið til mála að samþykkja einnig aðra liði þessarar till., sem hér liggur fyrir, snertandi tóbak og bifreiðar. Það hefur nú raunar ekki heyrzt um það fyrr, að einstakir menn hafi átt þess kost að fá bifreiðar innfluttar með öðrum kjörum en almennt gerist, en að því er vikið í þessari þáltill. Þetta getur verið, þó að mér sé ekki um það kunnugt, hvort það á sér stað, eða þá með hverjum hætti. (Dómsmrh.: Það var í Tímanum fyrir mörgum árum, að þetta væri gamall siður.)

Í grg., sem þessari till. fylgir, er atriði, sem ég vildi minnast á. Þar er sagt, að það hafi komið til mála að setja upp bar eða staupaútsölu hér í þinghúsinu og að vel hefði mátt svo fara, að sú hugsun hefði orðið að veruleika, ef forseti Sþ. hefði ekki beitt sér á móti þessari nýjung. — Nú vil ég spyrja hæstv. forseta Sþ., hvort nokkuð sé hæft í þessari sögu. Það getur ekki verið rétt, að hæstv. forseti Sþ. hafi beitt sér á móti þessari nýjung, nema einhverjir, innan þingsins eða utan, hafi verið með ráðagerðir og tilraunir til þess að koma þessu á, þessari staupasölu hér. Sé það ekki fyrir hendi, að neinir hafi haft það á prjónunum, þá getur ekki verið rétt, að hæstv. forseti hafi beitt sér gegn þessu, því að þá var gegn engu að beita sér í þessu efni. — Ég vil því leyfa mér að óska þess, að hæstv. forseti gefi upplýsingar um það, hvort þetta sé rétt, að honum hafi verið kunnugt um, að einhverjir menn hafi haft ráðagerðir og fyrirætlanir um þetta á prjónunum og hann hafi kveðið þetta niður með því að beita sér gegn þessari nýjung, eins og stendur hér í grg.