28.11.1947
Sameinað þing: 27. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í D-deild Alþingistíðinda. (3528)

37. mál, hlunnindi einstakra trúnaðarmanna þjóðfélagsins um vörukaup

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Eyf. var að spyrja um það, hvernig mér mundi líka það, ef ég væri einhvern tíma í stöðu, sem þessi hlunnindi fylgdu, að heyra því fleygt, að ég misnotaði þau. Ég býst við, að slíkt mundi ekkert hrína á mér, en vitanlega geta þeir, sem njóta þessara hlunninda, þrátt fyrir það að þeir njóti þeirra hóflega eða kannske alls ekkert, átt von á því, að ýmsu sé til þeirra kastað, meðan þetta viðgengst í þjóðfélaginu.

Hæstv. utanrrh. talaði um það, sem mun vera rétt, að ekki hafi verið talið fært að veita nema takmarkað fé til risnu, þar sem sú skylda hvílir á að halda uppi risnu af hálfu hins opinbera, og þess vegna hafi verið valin sú leið að láta vissa embættismenn fá áfengi, tóbak og bifreiðar við lægra verði en aðra þegna þjóðfélagsins, og hefur verið allmikið um þetta rætt. — Hæstv. utanrrh. og mig greinir á um það, hvort ástæða sé til að hafa vínveitingar í opinberum veizlum eða ekki. Hæstv. ráðh. virðist vera þarna mjög á öðru máli en ég, og var hann að tala um halanegra í sinni ræðu. Skildist mér, að að hans áliti væri okkar þjóð halanegrar, ef ekki væri haft vín um hönd í opinberum veizlum, en fyrir 20 árum höfðum víð forsrh., sem sat í 4–5 ár og veitti aldrei vín í opinberum samkvæmum, og heyrði ég Íslendinga ekki kallaða halanegra á þeim árum frekar en nú. Um þetta geta menn deilt, en ég álít það miklu hreinlegra, ef menn telja nauðsynlegt að hafa vínveitingar í opinberum veizlum og vilja halda uppi risnu, að veita þá fé til þess, eftir því sem þörf krefur, til þess að þessir embættismenn geti þá keypt þessar vörur við gangverði. — Eins og kom fram síðast í ræðu hæstv. utanrrh., er þetta bókfærsluatriði fyrir ríkið.

Ég verð að segja það, að mér finnst á allan hátt hreinlegri og betri aðferð, að breytt verði bókhaldinu viðvíkjandi sölu þessa víns á þann hátt, að áfengisverzlun ríkisins sé greitt jafnt fyrir þetta vín sem annað, og ef menn vilja endilega hafa það svo, að þessir opinberu starfsmenn veiti vín í veizlum sínum og við önnur tækifæri, þá verði þeim heldur hjálpað til að greiða þann kostnað, það væri a. m. k. hreinlegri leið. — Annars vil ég mæla með því, að þessi fríðindi verði afnumin, og ef meiri hluti þings álítur rétt að veita leyfi fyrir vínveitingum í opinberum veizlum, þá verði það vín bókfært með réttu verði.