18.02.1948
Sameinað þing: 45. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í D-deild Alþingistíðinda. (3886)

908. mál, áhættuiðgjöld til Tryggingastofnunar ríkisins 1947

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson) :

Samkvæmt 113. gr. l. um almannatryggingar eiga allir þeir, sem gjaldskyldir eru samkv. 112. gr. sömu l., einnig að greiða sérstakt áhættuiðgjald í tryggingastofnunina. Í þessari gr. segir einnig, að upphæð áhættuiðgjalda beri að miða við slysahættuna, svo að þau hrökkvi fyrir bótum og þeim kostnaði, sem tryggingastofnuninni ber að greiða vegna slysa. Á sínum tíma var gefin út reglugerð um innheimtu þessara iðgjalda, og vil ég nú bera fram fsp. til hæstv. félmrh. um það, hve miklu nemi þau áhættuiðgjöld, sem tryggingastofnunin hefur innheimt samkvæmt þessum lagaákvæðum 1947, og hvað tryggingastofnunin hefur borgað miklar bætur vegna slysa á því ári. Mér þætti vænt um að fá um þetta upplýsingar frá hæstv. ráðh.