10.03.1948
Sameinað þing: 51. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í D-deild Alþingistíðinda. (3923)

174. mál, bein Jóns biskups Arasonar og sona hans

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Fyrsta spurningin er um það, hvenær beinin hafi verið grafin upp og flutt. Ráðuneytinu hefur borizt bréf frá Guðbrandi Jónssyni, sem segir, að hann hafi grafið upp beinin árið 1918, og svo heldur hann áfram:

„Ég undirritaður gerði það með fullu leyfi ráðherrans, sem þá var, Jóns sálugs Magnússonar, og Pálma heitins Pálssonar, sem þá var í þjóðminjavarðar stað, vegna þess að þáverandi þjóðminjavörður, prófessor Matthías Þórðarson, var að ég held, erlendis.“

Hann segir enn fremur: „Við sóknarnefnd Hólakirkju átti ég aftur á móti ekki tal um málið, enda átti hún ekki aðild að því.“

Í bréfinu segir Guðbrandur enn fremur: „En þegar ég rakst á beinin — og orðalagið: „ég rakst á“ bendir til þess, að hann hafi farið til þess að athuga grunn kirkjunnar — „þá átti ég ítrekað tal við ofangreinda tvo menn, sem báðir leyfðu mér að taka þau upp og flytja þau hingað suður. Ég tek það fram, að ég gekk svo frá staðnum, þar sem beinin lágu, að hægt væri að koma þeim aftur fyrir nákvæmlega á sínum fyrri stað, og var það svo vandlega gert, að ég efast ekki um, að allt muni vera þar í jörðinni eins og ég gekk frá því. Þegar til Reykjavíkur kom, var mér sagt af ráðherranum, að ég mætti ráðstafa beinunum eftir vild, og ég kom þeim þá fyrir í geymslu hjá þjóðminjaverði. Hafa þau legið þar æ síðan, unz ég tók þau aftur í mínar hendur fyrir tveimur árum og skilaði þeim þá í Kristskirkju í Landakoti, en þar var gert að þeim sómasamlegt skrín, sem nú er geymt í skrúðhúsi kirkjunnar, enda er það sízt óvirðulegri geymsla en bein annarra fyrri tíðar manna fá í þjóðminjasafninu og læknadeild háskólans.“

Þetta eru þær athugasemdir, sem Guðbrandur Jónsson gefur um beinin og hvernig þeim hafi verið ráðstafað. — Enn fremur segir hann, og er þá komið að 2. og 3. lið spurningarinnar: „Bein þessi hafa aldrei farið út fyrir landsteinana, og aldrei hafa verið gerðar tilraunir til anthropometriskra mælinga á þeim, meðal annars af því, að leifarnar voru of litlar til þess, að hægt væri að gera á þeim slíkar mælingar.“

Ég hef látið athuga, hvað um þetta kynni að finnast í ráðuneytinu, og hafa engar bréfagerðir varðandi leyfi til uppgraftar beinanna fundizt, hvorki samþykkt né synjun. — Viðvíkjandi meðferð beinanna að öðru leyti hefur ráðuneytið fengið skýrslu frá fornminjaverði og bréf frá sóknarpresti Landakotskirkju, svo hljóðandi:

„Að gefnu tilefni leyfum vér oss að tilkynna hinu háa dóms- og kirkjumálaráðuneyti, að bein þau, sem álitin eru vera bein Jóns biskups Arasonar og sona hans og grafin voru upp úr Hólakirkjugarði 1918 af prófessor Guðbrandi Jónssyni, eru í vörzlu Kristskirkju í Landakoti, og voru þau afhent kirkjunni 1945 af prófessor Guðbrandi Jónssyni, með leyfi þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra og herra biskupsins yfir Íslandi og þjóðminjavarðar, eftir því, sem fyrrnefndur prófessor tjáði oss. Beinin eru geymd í loftþéttu skríni undir kór kirkjunnar.“

Varðandi þau leyfi, sem hér er talað um, fannst ekkert í vörzlu ráðuneytisins, og biskupinn kannast ekki við eitt né neitt um þetta, en afstaða þjóðminjavarðar er ljós með bréfi, er ég nú skal lesa frá honum, svo hljóðandi:

„Sem svar við eftirgrennslan yðar, hæstvirtur menntamálaráðherra, um mannabeinaleifar þær, sem sumir hafa talið bein Jóns biskups Arasonar og sona hans tveggja, leyfi ég mér að senda yður afrit af tveimur bréfum fyrrv. þjóðminjavarðar, sem hafa að geyma svör við sams konar fyrirspurnum frá biskupi landsins. Af hálfu þjóðminjavarðar eða þjóðminjasafnsins er í raun og veru ekki annað að segja um mannabein þessi en það, sem felst í þessum tveimur bréfum. Staðgöngumaður þjóðminjavarðar gaf Guðbrandi Jónssyni leyfi til að leita eftir grunnmúrum gamalla kirkjubygginga, en til þess að grafa eftir beinum í Hólakirkjugarði gaf hann ekki leyfi, enda sjálfsagt aldrei um það beðinn, þar sem þjóðminjavörður hefur ekki vald til að leyfa eða banna slíkt. Frá 1918 til 1945 voru bein þessi geymd á safninu fyrir Guðbrand Jónsson, en hafa aldrei verið afhent því til eignar og eru safninu á þann hátt óviðkomandi.

Ég vil að lokum leyfa mér að benda á, að það er með öllu ósannað og að líkindum ósannanlegt, að hér sé um að ræða bein Jóns Arasonar og sona hans, þó að ekki sé loku fyrir skotið, að svo geti verið.“

En um þetta segir í þessum bréfum frá fyrrverandi þjóðminjaverði:

„Varðandi þær mannabeinaleifar, sem Guðbrandur Jónsson tók úr kirkjugarðinum á Hólum í Hjaltadal sumarið 1918, er hann að fengnu leyfi Pálma yfirkennara Pálssonar, er þá gegndi fyrir mig störfum í fjarveru minni erlendis, gjörði „útgrepti norður á Hólum í þeim tilgangi að finna grunnmúrana undan hinum fornu kirkjum þar“, sbr. bls. 217-221 í ritgjörð hans „Dómkirkjan á Hólum“, sem prentuð var í Safni til sögu Íslands, V. bindi, nr. 6. Beinaleifar þessar eru enn geymdar þar, sem þær voru látnar, er hann afhenti mér þær eftir heimkomu mína, nefnilega í kistu einni í þjóðminjasafninu, en hafa ekki verið tölusettar meðal þeirra mannabeinaleifa og hluta, er tilheyra því.“

Enn fremur segir fyrrverandi fornminjavörður síðar frá því, að Guðbrandur hafi tekið beinin aftur og geymi þau í Landakotskirkju.

Þetta er það, sem ég frekast veit samkvæmt gögnum, sem ráðuneytinu hafa borizt. — Viðvíkjandi fjórðu spurningunni er það að segja, að ríkisstj. hefur ekki tekið afstöðu til þess, hvað gera skuli í málinu.