17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í D-deild Alþingistíðinda. (3940)

181. mál, njósnir Þjóðverja á Íslandi

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég geri nú ráð fyrir því satt að segja, að þessar fyrirspurnir, sem hér eru bornar fram og þingið hefur leyft, að bornar væru fram, séu ekki bornar fram til að fá nýjar upplýsingar, og það er sannast að segja illa farið, ef ákvæði, sem sett eru til þess að gera störf okkar lýðræðislegri hér á Alþ., verða misnotuð eins og gert er með þessum fsp. Þessi ákvæði munu hafa verið sett að tilhlutan hv. núv. forsrh., og því kemur mér það dálítið á óvart, hvernig hann svarar fyrirspurnum. Ég hef satt að segja sjaldan komið í fyrirspurnatíma, af því að ég tel þá vera til lítillar ánægju og uppbyggingar, og svör hæstv. forsrh. ollu mér vonbrigðum, af því að ég hélt ekki, að hann væri orðinn svo gamall maður og kalkaður, að hann myndi ekki eftir þeim upplýsingum, sem gefnar voru hér fyrir ári síðan. Þá voru öll þessi bréf lesin hér upp og standa því prentuð í Alþt., að einu atriði undanskildu, sem þáv. stj. vildi ekki láta gera kunnugt, en það atriði var varðandi eitt erlent stórveldi, sem varað var við í bréfunum. Ég skrifaði þá þáv. forsrh. og bað hann um að birta bréfin þá þegar, svo að þau væru ekki misnotuð af mönnum, sem hafa tilhneigingu til slúðurburðar, en hæstv. forsrh. varð ekki við þeirri ósk, hvernig sem á því stendur, og nú skora ég á núv. hæstv. forsrh. að birta þessi bréf. Niðurstaða þessara bréfa var sem sagt sú, að ekki væri um neina hættu af njósnum að ræða, Þjóðverjar hefðu aðeins haft einn gamlan karl héðan að heiman með höndum, sem þeir hefðu að líkindum verið að reyna að hafa eitthvað upp úr, en sá hinn sami var eiginlega orðinn elliær. Þessi bréf las ég hér upp í fyrra, eins og áður er sagt, fyrir öllum þingheimi, og sami þingheimur leyfir nú fyrirspurn um þetta, þó að hann hafi heyrt bréfin lesin upp og geti lesið þau í þingtíðindunum. Það er vitað mál og öllum ljóst, að þessi fyrirspurn er aðeins borin fram í þeim eina tilgangi að reyna að læða því inn hjá mönnum og láta líta svo út, að eitthvað hafi verið grunsamlegt við mig sem ráðh. í þessu sambandi. Mér dettur ekki í hug að svara þessum dylgjum einu orði og elta ólar við það, sem bak við þær býr. Maður, sem neitaði Þjóðverjum um flugvelli hér, þegar engin þjóð svo að segja neitaði þeim um nokkuð, sá maður, sem tók svo vinsamlega á móti Englendingum hér fyrst, að lengi var talið aðfinnsluvert af ýmsum, þó að það þætti gott seinna, maður, sem beitti sér fyrir herverndarsamningnum við Bandaríkin, er Bretar stóðu sem tæpast, sá maður þarf ekki á neinum vörnum að halda í þessu sambandi. Ég sagði, þegar Bretar stóðu sem tæpast, — það vissu allir, og ég get sagt það nú eftir á, — að sendiherra Breta tjáði mér það þá í einkaviðtali, að Bretum væri það lífsnauðsynlegt, vegna þess hve tæpt þeir stæðu í stríðinu, að Bandaríkjamenn kæmu hingað.

Þessi auðhrakti rógburður, sem felst í þessari fyrirspurn, sýnir aðeins, af hvaða efnum er að taka. Og ég vildi að lokum segja það, að ég held, að ef Alþ. ætlar að hafa gagn af fyrirspurnum, þá ætti það ekki að leyfa fyrirspurnir, sem eru því til minnkunar og valda almennu athlægi meðal þjóðarinnar.