16.02.1948
Neðri deild: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

148. mál, meðferð einkamála í héraði

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls lét ég þess getið, að ég mundi gera aths. við þessa umr. Málið er nýkomið fram og er mér viðkomandi sérstaklega, þar sem það hnígur að breyt. á l., sem ég ásamt fleiri þm. stóð að að samþykkja á Alþingi.

Hv. þm. er það kunnugt, að fyrir 12–13 árum voru sett lög um aldurshámark embættismanna, og mátti samkv. þeim veita mönnum lausn frá embætti, er náð höfðu 65 ára aldri. Var þetta rökstutt með því, að menn væru þá orðnir of lasburða til að sitja í opinberum stöðum. Síðan hefur komið í ljós í fyrsta lagi, að með batnandi lífskjörum almennt hefur orðið talsverð breyting á því, hve lengi menn endast til að starfa. Menn eru nú minna slitnir og halda betur andlegri og líkamlegri hreysti. Enn fremur sýndi reynslan, að margir þeir, sem á þessum aldri urðu að láta af embættum, voru enn við beztu heilsu og skarð þeirra vandfyllt, þar sem þeir voru æfðir við störf þau, er þeir höfðu gegnt.

Því er ekki að neita, að talsverðri skriðu lausnarveitinga var hleypt af stað fyrst eftir að lögin voru sett og vitanlega bar talsvert á því, að þeim væri beitt eftir því, hvaða landsmálaflokka menn fylltu. Er fram liðu stundir og ráðh. varð ljóst, að menn entust yfirleitt betur en lögin gerðu ráð fyrir, en þau sköpuðu glundroða og bundu ríkissjóði þunga eftirlaunabagga, var horfið að því að láta menn sitja lengur í embættum yfirleitt og þó misjafnlega lengi; sumir miðuðu við aldur, aðrir aftur á móti við hæfni.

Þetta leiddi til þess, að í fyrra var aldurshámark hækkað upp í 70 ár með lögum, og stóð ég að þeim ásamt öðrum. Mætti það frv. ekki mikilli mótspyrnu. Sumir voru þó fyrst í vafa um, hvort gera ætti embættismönnum að skyldu að sitja til 70 ára aldurs, og var ákveðið, að jafnframt því, að þeir fengju rétt til að gegna embættum til 70 ára aldurs skyldu þeir og hafa rétt til að fá lausn, ef þeir bæðust hennar, frá 65 ára aldri og þá með fullum eftirlaunum. Var frv. þetta afgr. héðan úr d. ágreiningslítið, við 2. umr. með 16:4 atkv. og við 3. umr. með 17:5 atkv.

Nú er komið hér fram frv., sem breytir þessu þannig, að víkja megi héraðsdómurum úr embætti, er þeir hafa náð 65 ára aldri. Í grg. segir, að þetta sé gert til samræmingar við embættisaldur hæstaréttardómara. Ég sé nú satt að segja ekki, að mikið samband sé á milli héraðsdómara og hæstaréttardómara. Þeir vinna ekki sambærileg dómarastörf, og hæstaréttardómarar fara frá með fullum launum, en hinir með lögskyldum eftirlaunum aðeins. Flestir héraðsdómarar hafa dómarastarf aðeins sem aukastarf, og sumir þeirra kveða jafnvel ekki upp dóm svo árum skiptir. Má minna á það, að í héraði einu voru dámar svo fágætir, að menn töluðu um það í gamni að breyta tímatalinu og miða við það, hvenær síðast hefði verið kveðinn þar upp dómur. Því fer sem sagt mjög fjarri, að dómarastörf séu aðalstörf héraðsdómara.

Mér finnst þess vegna, að ekki liggi nein rök til þess að breyta þessum l. til samræmingar á kjörum hæstaréttardómara og héraðsdómara. Ég er þeirrar skoðunar, að aldurstakmark hæstaréttardómara ætti heldur að vera hærra. Það hefur farið svo, að þeir hafa orðið að fara frá samdægurs og þeir urðu 65 ára, þótt starfshæfir væru; og þar sem laun þeirra eru upp undir 50 þús. kr. á ári, er það ekki heldur hagkvæmt af þeim sökum.

Ég vil sérstaklega leggja áherzlu á það, hversu ráðh. hafa farið misjafnlega að í þessu efni. Sumir hafa sópað úr embættunum til þess að geta fyllt þau nýjum mönnum og látið þar ráða pólitísk sjónarmið, að því er virðist. Aðrir hafa litið á þetta frá þjóðhagslegu sjónarmiði og látið menn sitja til 70 ára aldurs, ef starfhæfir voru.

Ég tel ákaflega hæpið, að farið sé að opna þarna smugu á nýjan leik. Þetta mundi þá alveg eins þurfa að ná til allra opinberra starfsmanna, sem lögin frá 24. jan. 1947 fjalla um, en það er mikill fjöldi, sýslumenn, læknar, kennarar, prestar o.s.frv. Samræmi fæst ekki nema allir lúti sömu lögum.

Mér þykir undarlegt, ef hv. dm., sem með yfirgnæfandi meiri hluta samþykktu í fyrra l. um aldurshámark embættismanna, hafa nú skipt um skoðun og vilja nú fara að breyta þessu aftur, því að eitt skref leiðir af sér annað skref til samræmingar. Ég tel, að ekki sé heldur rétt að komast svo að orði eins og gert er í frv., að héraðsdómarar njóti meiri réttar. Væri það t.d. nokkur þvingun líka, ef dómurum bæri skylda til að sitja í embætti til 70 ára aldurs, og var því samþykkt í fyrra að lögþvinga það ekki. Hygg ég, að með þessu mundi sækja í sama horfið og áður, að sumir ráðh. beittu þess um l. eftir geðþótta sínum og rýmdu embættin til þess að koma í þau sínum mönnum, en aðrir leyfa lengri setu með þjóðhagsleg sjónarmið í huga.

Ég mun þess vegna greiða atkvæði á móti þessu frv., og þykir mér einkennilegt, ef aðrir hafa nú skipt um skoðun í málinu.