16.02.1948
Neðri deild: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

148. mál, meðferð einkamála í héraði

Sigurður Kristjánsson:

Hv. þm. V.-Húnv. (SkG) tók eiginlega fram það atriði, sem ég ætlaði að minnast á. Ég er ekki fyllilega viss um, að 1. gr. þessa frv. verði skilin þannig, að dómari, sem yrði látinn fara frá eftir 65 ára aldur, gæti sótt skaðabótamál á hendur ríkinu, af því að gr. virðist tæmandi um það, hvaða rétt hann hefur. Ég skal ekki fullyrða um þetta efni, en mér skilst, að dómari, sem yrði að fara frá 65 ára, mundi ekki hafa þann rétt.

Hins vegar, út af því, sem hv. 7. þm. Reykv. (JóhH) sagði, að 1. gr. opnaði enga leið til þess að láta dómara fara frá embætti, og af því, sem hæstv. dómsmrh. (BBen) sagði, að ráðh. gæti vikið hvaða embættismanni sem væri úr starfi, vildi ég segja það, að aldurshámark í l. hefur verið skoðað sem lögmál síðan það komst á. Við vitum með hæstaréttardómarana, að þeir hefðu verið látnir fara frá, og að það hefur ekki verið gert, sýnir, hvað ráðh. telja sig fastbundna við að láta embættismenn ekki fara frá fyrr en aldurshámarkinu er náð. Þetta mundi verða til þess að ráðh., sem það vildi viðhafa, gæti látið alla hæstaréttardómarana fara frá í sinni embættistíð. Aftur aðrir mundu láta aldurshámarkið ráða og láta menn sitja meðan embættismaðurinn væri í fullu fjöri. Það er meira að segja svo ríkt hjá ráðh. að ganga ekki lengra en l. heimila með aldurshámark embættismanna, að það hefur komið hér fyrir oftar en einu sinni, að þegar ráðh. hefur viljað koma manni úr embætti, hefur hann fengið embættið lagt niður með l. til þess að losna við manninn. Þetta er vottur um það, að aldurshámark í l. er ríkt aðhald, og ráðh. mundi hika við að láta menn fara og bindur sig því við aldurshámarkið, og það var með hliðsjón af þessu, sem við flm. þessa máls í fyrra komum því í l.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. Menn fá réttan dóm um þetta mál eftir sannfæringu þm., og ég legg það kapplaust undir atkv., hvort menn vilja samþykkja þetta eða ekki.