12.03.1948
Sameinað þing: 53. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (860)

129. mál, fjárlög 1948

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Ég mun ræða nokkuð nál. minni hl. um leið og ég fer í fjárlfrv. almennt, eins og það liggur fyrir.

Mér þykir leitt að sjá ekki neinn af ráðh. Framsfl. hér, því að ég sá þess einmitt getið í einu blaði þess flokks nýlega, að það væri mjög mikill munur milli stjórnmálastefna hér á landi nú sem stæði. Annars vegar væri um að ræða mjög hættulega byltingarstefnu, en hins vegar slæma afturhaldsstefnu, sem Sjálfstfl. og Alþfl. væru fulltrúar fyrir. En það væri síður en svo, að það væri aðeins um þetta tvennt að velja í stjórnmálum á Íslandi; auk þeirra væri þarna á milli umbótastefna, er miðaði að því að gera stórfelldar umbætur á þjóðfélaginu, auka réttindi hinna minni máttar, tryggja almenningi betri kjör með þingræðislegum og lýðræðislegum aðferðum, og að það væri þessi stefna, sem Framsfl. og að einhverju leyti Alþfl. væru fulltrúar fyrir. — En nú erum við hér að ræða fjárl., er marka höfuðstefnu ríkisins í þeim málum, sem mestu varða hag almennings. Þess vegna höfum við einmitt núna tækifæri til að dæma um þessar stefnur í framkvæmd. Það var látið hátt um það af hendi vissra manna úr þessum flokki, þ.e. Framsfl., meðan Sósfl. tók þátt í ríkisstj., þar sem form. Sjálfstfl sat í forsæti, að þetta væri léleg stj. og að ekki væri mikið gert til að bæta hag almennings. En nú hafa þeir, sem þá dæmdu harðast, setzt að völdum og hafa því nú fengið tækifæri til að sýna þessa umbótastefnu sína í framkvæmd, og hún markast einmitt í fjárlfrv., sem liggur hér fyrir framan okkur, þar fáum við að sjá þá umbótastefnu, sem form. Framsfl. og aðalmálgagn hans eru svo sérstaklega að lofa nú. Stefnan, sem við svo sjáum samkv. fjárlfrv., er sú, að allt gengur niður í móti, allt miðar að niðurskurði snertandi framlög til þess nauðsynlegasta, en að sama skapi eykst skriffinnskan. Við 2. umr. sjáum við svo, að enn meir er skorið niður og að fara á að afmá þau beztu 1., sem sett voru í tíð þeirrar ríkisstj., sem Framsfl. réðst hvað harkalegast á. Það voru sett launal. í tíð þeirrar stj., er tryggðu starfsmönnum ríkisins og kennurum réttlátari laun heldur en áður. Framsfl. taldi það ekki neitt sérstaklega stórt spor, sem þá var stigið með þessum l., en nú stendur hann sameinaður um þann verknað að taka af starfsmönnum ríkisins þessi réttindi, sem þeim höfðu hlotnazt eftir langa baráttu. Þetta var gert með dýrtíðarráðstöfunum í vetur, þegar laun opinberra starfsmanna voru bundin við 300 stiga vísitölu. — Þá var í tíð fyrrv. ríkisstj. sett mjög mikilvæg lagasetning til að bæta hag bænda með l. um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum. Nú liggur hins vegar fyrir að skera þessi l. niður, og er nú verið að útbúa bandorminn svokallaða, þar sem frestað er framkvæmd slíkra l. — Í tíð sömu ríkisstj. var sett umbótalöggjöf varðandi skólamál, þar sem gert var ráð fyrir að byggja skólahús úti um land, allt til þess að tryggja hinni uppvaxandi æsku í landinu betri aðbúnað í þessum efnum heldur en hún hefði haft áður. Nú liggur fyrir samkv. fjárlfrv. að draga úr byggingum skólahúsa. — Í tíð fyrrv. stj. voru sett l. um alþýðutryggingar og með þeim stigið stórt skref í framfaraátt fyrir íslenzka alþýðu, þar er nú þegar byrjað að stíga skref aftur á bak, því að samkv. frv., eins og það liggur fyrir, er raunverulega dregið úr fjárframlögum til alþýðutrygginga. — Í tíð sömu stj. voru sett l. til þess að tryggja alþýðu manna ódýrari lán heldur en hún hafði átt kost á áður, til þess m.a. að gera henni frekar kleift að byggja íbúðarhús, þannig að það væri ekki aðeins efnaða fólkið, sem hefði rétt á slíku. Hið sama er að segja um l. um ræktunarsjóð og l. um stofnlánadeildina, — öll þessi lagasetning, sem miðaði að því að skapa mönnum meira efnahagslegt öryggi, er ýmist rýrð með þeim till., sem hæstv. ríkisstj. leggur nú fram við afgreiðslu fjárl., eða með þeim aðferðum, sem nú eiga sér stað af hálfu stjórnarvaldanna varðandi lánveitingar, eyðilögð í framkvæmd.

Því fer þess vegna fjarri, að það, sem hér liggur fyrir framan okkur nú, sé einhver umbótastefna í framkvæmdinni. Það er þvert á móti verið að stíga spor aftur á bak varðandi hvert einasta mál almenningi til heilla. — Og svo ætlar viss flokkur að reyna að gylla það fyrir almenningi, að hann sé boðberi umbótastefnu, sem sé sú eina rétta, sem íslenzk alþýða eigi að kjósa. Ég verð að segja það, að það er sjaldan, sem nokkur flokkur hér á þingi hefur dæmt sjálfan sig eins fljótt og um leið orð sín ómerk eins og sá flokkur, sem undanfarið hefur verið að hampa því, að hann væri sérstakur umbótaflokkur, er mundi sýna, hvernig ætti að stíga skref fram á við, ef hann hefði völdin, en í framkvæmd beitir sér gegn framgangi þeirra mála, sem gengu í framfaraátt og l. voru sett um í tíð fyrrv. ríkisstj. Af þessu sést einmitt, hvað það var, sem fékk því áorkað, að þessi spor voru stigin fram á við. Sjálfstfl. og Alþfl. voru báðir í fyrrv. ríkisstj. og eiga nú sæti í þeirri núverandi, en Sósfl. tók þátt í fyrrv. ríkisstj., en ekki nú, og það er þetta, sem gerir gæfumuninn; það er ekki lengur knúið á fram á við innan núv. ríkisstj., en gefizt upp fyrir þeim öflum, sem vilja stíga aftur á bak. Þetta sýnir bezt, hvernig afturhaldsöflin í öllum núverandi stjórnarflokkum hafa náð tökum til að ráða þeirri stefnu, sem farin er. Þetta vil ég láta koma hér fram vegna þess, hvernig blöð þessa flokks hafa rætt þessi mál undanfarið.

Þá vil ég snúa mér að því, sem hér er verið að ræða í sambandi við 2. umr. fjárlfrv. Það er hér verið að taka upp nýjar aðferðir af hálfu stjórnarvaldanna í meðferð fjárl., sem aldrei hafa þekkzt áður í sögu lands vors. Þetta var fyrst gert í fyrra vor, þegar hæstv. ríkisstj. fékk samþ. lagafrv. um fjárhagsráð, og þar með var sú ákvörðun tekin, að áætlun um íslenzkan þjóðarbúskap fyrir hvert ár skyldi lögð fyrir þingið í sambandi við afgreiðslu fjárl. Þessi ákvörðun var tekin með 1. um fjárhagsráð, en þar segir svo í 3. gr. — með leyfi hæstv. forseta:

Fjárhagsráð semur fyrirfram fyrir ár hvert áætlun um heildarframkvæmdir. Fyrir yfirstandandi ár semur ráðið áætlun þessa svo fljótt sem auðið er og að svo miklu leyti sem við verður komið. — Í áætlun þessari skal gerð grein fyrir kostnaði við allar stærri framkvæmdir, svo og með hverjum hætti fjár skuli aflað, enda skal kveða á um það, í hverri röð framkvæmdir skuli verða, svo að vinnuafl og fjármagn hagnýtist þannig, að sem mest not verði að.“ Síðan segir svo í 6. gr.: „Jafnhliða því, sem fjárhagsráð semur áætlun þá um heildarframkvæmdir, er áður greinir, skal það og gera sérstaka áætlun um framkvæmdir ríkisins, áður en fjárl. eru samin ár hvert, og sé við samningu þeirrar áætlunar, er ríkisstj. og Alþ. geti haft til hliðsjónar, stefnt að því að tryggja landsmönnum öllum næga atvinnu, en koma jafnframt í veg fyrir ofþenslu.“

Það hefur m.ö.o. verið tekin sú ákvörðun, að lögð skuli fyrir Alþ. í sambandi við afgreiðslu fjárl. áætlun fyrir hvert ár um heildarframkvæmdir þjóðarbúsins, hver kostnaður skuli verða við þær og hvernig lánsfjár skuli aflað til þeirra og að allt skuli þetta miðast við þá stefnuskrá ríkisstj., sem tekin er upp í 2. gr. 1., þar sem ákveðið er — og sett undir 1. lið: „að öll framleiðslugeta sé hagnýtt til fulls og öllum verkfærum mönnum tryggð næg og örugg atvinna.“ — Síðan er sett á stofn voldugt ráð til þess að vinna þetta verk og undirbúa og leggja fram þessa áætlun í sambandi við afgreiðslu fjárl. Því fer fjarri, að þessari stofnun hafi verið þröngvað upp á hæstv. ríkisstj., og lítill vafi á því, að hún lætur hér ekki sitja við orðin tóm. Hér er tekinn upp alveg nýr máti við afgreiðslu fjárl., og þess vegna hljótum við að ræða nokkuð um það nú við 2. umr., hvernig fjárhagsráð hefur starfað.

Nú er mönnum kunnugt um, að í l. um fjárhagsráð var svo fyrir mælt, að það skyldi gera áætlun um, hvernig heppilegast mundi að hagnýta vinnuaflið í landinu. Ríkisstj. setti sér það markmið að tryggja öllum landsmönnum atvinnu og fjárhagsráð skyldi gera áætlun um, hvað hægt væri að framkvæma af þeim framkvæmdum, sem fyrir hendi lá að gera. En hvað kemur svo á daginn? Í fjárhagsáætlun fjárl. er ekki eitt orð um hagnýtingu vinnuaflsins og heldur ekki orð um það, að öllum skuli tryggð vinna. Sem sagt, það sem ætti að vera nr. 1 í öllum áætlunum um þjóðarbúskap, finnst ekki í áætlun fjárhagsráðs.

Ég hef hér fyrir framan mig áætlun um þjóðarbúskap Norðmanna árið 1947, og var þessi áætlun fylgiskjal með fjárl. norsku. Það, sem fyrst og fremst er lagt til grundvallar norska þjóðarbúskapnum, er vinnuaflið í hverri atvinnugrein og hvað gera skuli á árinu, og liggja fyrir skýrslur og till., sem allar miða að því að tryggja hagkvæma hagnýtingu á vinnuaflinu.

Ég verð að segja það, að mér finnst „typiskt“, að fjárhagsráð skuli alveg gleyma að gera áætlun um þetta mikilvæga atriði, og ekki veit ég, hvort þetta stafar af því, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki gert sér ljóst, hvað er grundvallaratriði fyrir öllum framkvæmdum, eða hvort hún treystir sér alls ekki til að eiga neitt við skiptingu vinnuaflsins. Eitt er þó víst, en það er það, að þm. eiga heimtingu á að fá að vita, hvers vegna engin áætlun hefur verið gerð varðandi hagkvæma hagnýtingu vinnuaflsins í landinu og það á þeim tíma, þegar útlit er fyrir, að menn kunni að vanta til arðvænlegasta atvinnuvegar þjóðarinnar, sjávarútvegsins. Reyndar liggur nú fyrir till. um að bæta úr þessum skorti. Það er ljóst, að það vantar sjálfan grundvöllinn í áætlun fjárhagsráðs, sem fylgir fjárl., og það verður þess valdandi, að öll áætlunin fyrir árið 1948 svífur í lausu lofti. Hafi áður verið ósamræmi í skiptingu vinnuaflsins, þá heldur það áfram að eiga sér stað með þeirri aðferð, sem fjárhagsráð hefur tekið upp. Það er hægt að skapa svokallað samræmi með því að skera niður í blindni verklegar framkvæmdir bæði hjá ríki og einstaklingum og skapa þannig atvinnuleysi. Það starf, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú tekið sér fyrir hendur, er einskisvert vegna þess, að höfuðgrundvallaratriðin vantar, og það brýtur í bága við I. um fjárhagsráð, sem sett voru á síðasta þingi.

Þá kem ég að hinu aðalatriðinu, en það er festing fjármagnsins og öflun þess. Í 3. gr. l. um fjárhagsráð stendur í 2. málsgr. — með leyfi hæstv. forseta:

„Í áætlun þessari skal gerð grein fyrir kostnaði við allar stærri framkvæmdir og svo, með hverjum hætti fjár skuli aflað, enda skal kveða á um það, í hvaða röð framkvæmdir skuli verða, svo að vinnuafl og fjármagn hagnýtist þannig, að sem mest not verði að.“

Sem sagt, næst á eftir hagnýtingu vinnuaflsins verði lögð áherzla á hagkvæma notkun fjármagnsins og hvernig þess skuli aflað. Í áliti fjárhagsráðs er ekki orð um það. Samt er ráðinu sérstaklega uppálagt í 4. gr. h um fjárhagsráð, að það skuli hafa samvinnu við lánsstofnanir í landinu um samningu og framkvæmd fjárfestingaráætlunar, og beri þeim að skýra fjárhagsráði frá fjármagni því, er þær hafa yfir að ráða. Enn fremur stendur í 4. gr. „Nú telur fjárhagsráð eigi nægilega séð fyrir fjárþörf fyrirtækja, er það telur nauðsyn til að stofnsetja, og skal það þá leita samvinnu við ríkisstjórn, lánsstofnanir og aðra aðila, er hlut gætu átt að máli, um fjársöfnun til þessara fyrirtækja.“ Sem sagt, það á að samræma fjárfestinguna í hinum mörgu fyrirtækjum, sem þjóðin er að leggja í á hinum ýmsu sviðum. Þetta út af fyrir sig er skynsamleg röksemd. Fjárhagsráð var sett m.a. til þess að tryggja, að hin mörgu fyrirtæki hefðu nægilegt fjármagn til að leggja í framkvæmdir og til að ljúka þeim, sem þegar voru hafnar. Af þessu er ljóst, að fjárhagsráði var ætlað að koma með till. um öflun fjármagns og hvernig því skyldi varið. Það kann að vera litið svo á af sumum, að þessi ákvæði séu alls óþörf.

Ég vil skýra hér frá því, að í gær var ég á fundi hjá landsbankanefnd. Þar var lagt fyrir okkur, að sérstakt vandræðaástand ríkti nú um útvegun lánsfjár, en lánsþörfin væri hins vegar mikil. Þetta var staðfest af sjálfum form. bankaráðs. T.d. vantar tilfinnanlega fé til stofnlánadeildar sjávarútvegsins. 7 togarar og 20 mótorbátar þurfa á lánsfé að halda, og verði ekki úr þessu bætt, þá getur svo farið, að þessi skip fái ekki lánsfé til rekstrarins. Þjóðin hafði fé til þess að kaupa þessi skip, en hér er lýst yfir, að lánsfé vanti til þess að reka þau. Form. bankaráðs gat þess sérstaklega, að ríkisstj. hefði verið tjáð þessi vandræði, en þau verði að leysa, áður en þingi er slitið nú. Það mun liggja nærri, að tryggja þyrfti 60–70 millj. kr. lánsfé. Nú áttu að liggja fyrir till. frá fjárhagsráði um útvegun á þessu fé og hvernig bæta eigi úr hinum mikla lánsfjárskorti. Eins og ég sagði áðan, þá er ekki orð um þetta í áliti fjárhagsráðs, ekki stafur. Hins vegar fáum við till. um niðurskurð á lánsfé. Nýbyggingarráð áleit skyldu sína að undirbúa áætlun um útvegun lánsfjár, og ríkisstj. gerði ráðstafanir til, að litlir bæir og þorp fengju með því tækifæri til uppgangs. Það, sem áunnizt hefur með því, er, að sumir staðir, sem aldrei hafa eignazt togara, hafa nú í fyrsta skipti komizt yfir slík atvinnutæki. Nýbyggingarráð lagði einnig fram áætlun um lánsfjárhjálp til landbúnaðarins og sjávarútvegsins. Núv. hæstv. ríkisstj. hafði meiri möguleika til að afla lánsfjár heldur en nokkur önnur stjórn hefur haft, en hún eyðilagði þá möguleika með l. um eignakönnun. Seinna voru reyndar aðrar leiðir til þess að reyna að leysa úr lánsfjárþörfinni, en þær hafa ekki borið árangur, og ríkisstj. virðist ekki hafa haft neinn áhuga á að láta fjárhagsráð gera þetta.

Ég verð að segja það, að mér finnst frágangurinn á fjárl. fyrir árið 1948 vera með endemum, þegar á það er litið, hversu margt þarf að framkvæma. Til þess að hægt verði að ráða bót á þeim vanda, sem fyrir dyrum er, ef ekki verður hægt að útvega lánsfé, verða nú að fara fram umr. hér á Alþ. um, hvernig þess skuli aflað. Rætt hefur verið nokkuð um seðlaútgáfu í þessu sambandi. Alþ. verður þá að gera sér ljóst, hvort það reynist þess umkomið að tryggja það lánsfé, sem það er að vísa á. Það er álit mitt, að það, sem miða beri við, sé, að framleiðslukraftur þjóðarinnar sé til fullnustu hagnýttur. Þá er e.t.v. skoðun sumra, að lánsfjármöguleikar byggist ekki á framleiðslukröftum, heldur á gulli. Þegar lögin um Landsbankann voru sett, ríkti það sjónarmið, að ríkið ætti ekki að skipta sér að framleiðslu þjóðarinnar. Sú trú er nú horfin. Og þótt ákvæðin um gull- og gjaldeyristryggingu Landsbankans séu enn við lýði, þá er viðurkennt, að það sé úrelt.

Hins vegar er það ekki ófróðlegt í þessu sambandi, ef unnt væri að fá yfirlit um það, hve eignir ríkisins og ríkisstofnananna séu raunverulega miklar. Mig minnir, að hv. form. fjvn. hafi í umræðum á Alþ., er barlómurinn var hvað mestur um bága fjárhagsafkomu ríkisins, upplýst það, að skuldlaus eign þess næmi 150 mi11j. kr., og eru þá ótaldar fjölmargar eignir ríkisstofnananna. Á fundi landsbankanefndar í gær var það upplýst, að eignir hans næmu 66 millj. kr., fyrir utan hús, svo að ganga má að því gefnu, að ef allt væri talið, mundu eignir ríkisins og ríkisstofnananna skipta hundruðum millj. Ef einhver vildi því miða seðlaútgáfuna við eignir ríkisins, þá yrði varla sagt, að 122 millj. kr. seðlavelta væri ógætileg. Frá mínu sjónarmiði er það samt ekki þetta, sem ganga ber út frá, en að ýmsu leyti er fróðlegt að hafa það til hliðsjónar. En engar upplýsingar liggja fyrir um þetta af hálfu þeirra, sem áttu að undirbúa þær umræður, sem hljóta að fara fram á Alþ. við afgreiðslu fjárl. Í þessu sambandi fer ég ekki inn á það, hve gífurlegur auður er í höndum einstaklinga, þar sem t.d. 200 einstaklingar og félög í Reykjavík eiga um 500 millj. kr. í skuldlausum eignum. Auðurinn í landinu er því ekki svo lítill, að takmarka þurfi lánsfjárútlát og seðlaveltu vegna fátæktar þjóðarinnar svo mjög sem nú er raunin á.

Ég vil segja það, að mér óar þögnin hér á Alþ. um þá lánsfjárkreppu, sem nú er verið að skapa, og ég ætla, að þar búi annað verra undir. Annars vegar er hin mikla lánsfjárþörf, hins vegar tillögur um að svipta menn fengnum réttindum með niðurskurði lánsheimilda. En barlómurinn vex í sama hlutfalli og seðlaveltan minnkar. Ég er því ákaflega hræddur um, að ef fjárl. verða nú afgr. eins og þau liggja fyrir, þá verði þessi óeðlilega lánsfjárkreppa, sem sköpuð hefur verið, notuð sem átylla til þess að taka erlend lán, algerlega að þarflausu. Sjálfir ráðherrarnir hafa gefið yfirlýsingar um það, að þeir treystu sér ekki til að fá lánsfé hér innanlands til þess að reisa sementsverksmiðju, án þess að þeir hafi fengizt til að ræða um lánsfjármarkað þjóðarinnar hvað þá meira. Það vita allir, að það er enginn frjáls lánsfjármarkaður til nú á Íslandi, hann hefur verið afnuminn með aðgerðum ríkisvaldsins, og því verður ríkið nú að annast það, sem áður var í höndum einstaklinga, ef það á ekki að bregðast því hlutverki, sem það hefur tekið að sér. Þegar l. um fjárhagsráð voru samþykkt, fékk ríkið í hendur stjórn þjóðarbúsins og ræður nú á ýmsum sviðum í stað einstaklingsframtaksins, sem búið er að kippa í burtu. Það var gefið upp með l. um fjárhagsráð, að ætlunin væri að taka hér upp áætlunarbúskap; og samkvæmt þeim lögum er það ríkið, sem á að skipuleggja þessa hluti, tryggja þegnunum næga atvinnu og tryggja öflun fjár til þjóðnýtra framkvæmda. Eftir að hinn frjálsi markaður hefur verið þurrkaður út, er það ríkið, sem ábyrgðina ber; og það er ekki hægt að skella skuldinni á einstaklingana, en taka þó af þeim völdin. Þetta er nauðsynlegt að þeir alþm. athugi, sem samþykktu l. um fjárhagsráð. Þetta er einkum brýnt í sambandi við sjávarútveginn og þau tæki, sem gefa mestan hluta þess gjaldeyris, er þjóðin fær í hendur. Og það væri hjákátlegt, ef þjóðin léti þau stöðvast af lánsfjárleysi, þegar bæði vantar gjaldeyri og vafalaust er hægt að afla þess lánsfjár, sem þarf til rekstrar þeirra.

Ég skal nú fara örfáum orðum um innflutningsáætlun fjárhagsráðs. Grundvöllurinn undir innflutningsáætlun sérhverrar þjóðar er útflutningsáætlun hennar; og fjárhagsráði var falið að semja skýrslur um þetta hvort tveggja. En það kemur nú fram, að skýrslur um útflutninginn eru ekki til, og grundvöllinn vantar þannig undir innflutningsáætlunina. Sömu mennirnir sem réðust mest á fyrrv. stjórn fyrir það, að ekki væri samræmi á milli útflutnings og innflutnings, þeir hafa nú komið með fjárhagsáætlun, þar sem allan grundvöll vantar. Hún er svo gersamlega út í bláinn, að þeir reikna meira að segja með öflun dollara, sem ekki er sýnt, hvaða vonir standi til, að fáist. Þessi undirbúningur undir afgreiðslu fjárl. er fyrir neðan allar hellur. Alveg eins og það vantar áætlun um vinnuaflið til þess að byggja seðlaveituna á eins vantar hér gersamlega útflutningsáætlun, sjálfan grundvöllinn undir innflutningsáætlunina. Hver er svo afleiðingin af þessu? Hún er sú, að öryggið, sem skapa átti með l. um fjárhagsráð og með því að samþykkja áætlun um skipulagðan þjóðarbúskap, er ekki lengur til. Þá tryggingu, sem fást átti með þeim lögum fyrir réttri einbeitingu fjármagnsins og fullri hagnýtingu vinnuaflsins, vantar gersamlega. Þjóðinni er engin trygging veitt fyrir því, er henni var lofað með lögunum, — allt efnahagslegt öryggi skortir. Þetta er nauðsynlegt að gera sér ljóst. Sú stefna, sem tekin var með samþykkt fjárhagsráðslaganna, hefur beðið algert skipbrot, og það bákn, sem byggt var upp til þess að framkvæma þá stefnu, er að sliga athafnalíf þjóðarinnar. Ríkisstj. hefur alls ekki við afgreiðslu þessa frv. lagt það fyrir, sem hún skuldbatt sig til í fyrra með lögum. Og í stað öryggis og skipulags höfum við fengið tóm höft og skriffinnsku. Í sjálfu hugtakinu um áætlunarbúskap felast alltaf höft, en það, að þjóð undirgengst slík höft, er af því sprottið, að hún vill tryggja sér öruggari afkomu en annars væri unnt. Þess vegna — ef áætlunarbúskapur er tekinn upp og veitir ekki þetta öryggi, þá er það enginn áætlunarbúskapur, heldur aðeins höft á einstaklingsframtakið. Því er stórhættulegt að láta slíkt fyrirkomulag viðgangast, sem hvorki er fugl né fiskur og drepur jafnt niður framtak hins opinbera sem einstaklinganna. Hugsunin með áætlunarbúskap er sú, að skipulagt framtak hins opinbera komi í stað svokallaðs framtaks einstaklinganna eða stjórni því. Þegar þetta fæst ekki fram, er verið að eyðileggja hugsjónina um áætlunarbúskap, og við sósíalistar munum að minnsta kosti ekki horfa upp á framkvæmd þessarar haftastefnu án þess að segja orð, haftastefnu, sem kölluð er áætlunarbúskapur, en miðar að því einu að lama allt athafnalíf í landinu. Þar með er ekki verið að lofa hið svokallaða frjálsa framtak einstaklinganna og stjórnleysi það, sem fylgir því kerfi. En þetta vildi ég láta koma fram og vildi ekki láta hjá líða að kveða upp úr með þetta nú, þar sem 2. umr. fjárl. er eina tækifærið til þess, enda er gengið út frá því, að áætlun fjárhagsráðs sé rædd við afgreiðslu fjárl.

Ég hef orðið var við það í umræðum hér á Alþ., að ekki eru allir sem ánægðastir með það, hvernig þessum málum er nú komið. Meðal annars hefur hv. form. fjvn. deilt skarplega á fjárhagsráð og stefnu þess og einnig, að því er mér hefur virzt, á hæstv. fjmrh. En ég vil benda á það, að stjórnarflokkarnir sem heild bera ábyrgð á þeirri stefnu, því að þetta er helzta stefna ríkisstj. — og það kemur úr hörðustu átt, þegar menn úr hæstu stöðum innan þeirra flokka deila harðlega á þá stefnu, en koma samt ekki með neinar till. til breytinga. Í stað þess, sem menn gerðu sér vonir um með l. um fjárhagsráð, höfum við aðeins fengið dýrara skrifstofubákn en nokkru sinni áður, og það ægilega við þetta bákn er ekki það, hve dýrt það er, heldur hitt, hvernig það virðist ætla að sliga þjóðina, bæði atvinnuframkvæmdir hennar og verzlun. En nú, þegar fjárl. eru til umræðu og hin ófullkomna áætlun fjárhagsráðs liggur fyrir, væri tækifærið fyrir þá þm., sem óánægðir eru með þessa stefnu eða stefnuleysi, að segja til um það, koma fram með gagnrýni sína og reyna að knýja annað fram, því að ég álit, að fyrir Alþingi sé sú afgreiðsla mála, sem hér er stofnað til, algerlega óviðunandi. Afleiðingin af því að afgreiða fjárl. með hliðsjón af þeirri áætlun fjárhagsráðs, sem hér liggur fyrir, hlýtur að verða sú, að þingið að meira eða minna leyti svipti sjálft sig völdum og afhendi þau stofnun, sem það ræður ekkert við og virðist ekki hirða um vilja þess og skeyta því meira að fara sinn fram en að standa á grundvelli laga og réttar í landinu. Mér virðist Alþ. vera hér að ofurselja vald sitt og bregðast þeim skuldbindingum, sem það tók á sig með samþykkt laganna um tryggingu fyrir landsmenn um atvinnu og hagnýtingu vinnuaflsins og atvinnutækjanna til sjávar og sveita.

Þessu vildi ég vekja athygli á vegna þess, að við höfum fyrr í sögu okkar fengið að kenna á embættisvaldi, sem ekki lék okkur vel. Og nú, er lýðveldi hefur verið stofnað og Alþ. hefur fengið völdin í hendur og færzt það í fang að stjórna þjóðarbúinu, væri það hart, ef það ofurseldi þau völd í hendur aðilum, sem þannig halda á málum, að fæstir þm. munu telja forsvaranlegt. Ég skil, að hæstv. ríkisstj. muni vilja losna við slíkt þing sem fyrst til þess að geta haldið áfram á þeirri leið, sem hún virðist vera. En ég álít óforsvaranlegt fyrir þingmenn að skiljast svo við þetta mál eins og það liggur fyrir — óforsvaranlegt að samþykki lög eftir lög til þess að tryggja rétt þegnana til atvinnu og öryggis, en gera svo ekki neitt því til tryggingar að þau lög séu framkvæmd. Við sjáum nú, hvernig fjárhagsráð hefur búið í haginn fyrir þingið, og raunverulega hefði verið ástæða til þess við þessar umræður að knýja fram algera endurskoðun þessara mála. Þingið má ekki hlaupa frá þeim erfiðleikum, sem þjóðin á við að stríða, án þess að ræða þá, hvað þá heldur meira. Það er tilgangslitið að barma sér yfir erfiðleikunum, en hliðra sér hjá því að kryfja það til mergjar, hverjar ástæður það séu, sem þeim valda. Því vildi ég nú við þessa umr. fjárl. láta koma greinilega fram mína skoðun á því, hvernig hér sé í pottinn búið.

Hvað snertir annars þá afgreiðslu fjárl., sem hér liggur fyrir, þá er ég hér ásamt þremur öðrum þm. fim. að lítilli brtt. á einhverju þskj., sem ég finn nú ekki í svipinn, en hún fjallar um það, að Alþ. veiti til Félags ísl. stúdenta í Kaupmannahöfn styrk að upphæð 1000 kr. Alþ. hefur undanfarið veitt félaginu styrk til útgáfu tímarits, er það gaf út á stríðsárunum, en hann hefur nú verið felldur burt. En við þessir fjórir þm. álitum rétt, að Alþ. sýndi þessu gamla félagi, sem er alls góðs maklegt, örlítinn vott þess, að störf þess séu metin og þess óskað, að félagið geti haldið starfsemi sinni áfram. Og þessi litli styrkur væri aðeins vottur þeirrar viðurkenningar. Ég vona að hv. alþm. geti orðið okkur sammála um þetta. Hér er aðeins um litinn viðurkenningarvott að ræða, sem ríkið dregur ekki um, en er þó svolítill styrkur litlu félagi.

Ég læt svo máli mínu lokið, en vil þó endurtaka þá ósk mína, að áætlun fjárhagsráðs og stefnan í þjóðarbúskapnum árið 1948 verði tekin til alvarlegrar athugunar við þessar umræður. Ef vel væri, þyrfti fjvn. að geta endurskoðað það, sem fyrir liggur, ef það á að sýna nokkra viðleitni í þá átt að tryggja rétta einbeitingu vinnuafls og fjármagns í landinu og stjórna þjóðarbúinu þannig, að allir kraftar hagnýtist sem bezt. Það var í lög sett á síðasta Alþ., að þetta skyldi gera — en það hefur ekki verið framkvæmt, og þyrfti fjvn. að taka þessi mál sérstaklega til endurskoðunar nú á milli 2. og 3. umr.