19.03.1948
Sameinað þing: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

129. mál, fjárlög 1948

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég hef ekki flutt nema eina litla brtt. við þessa umr., og það er ekki kjördæmatill., heldur hefur hún almenna. þýðingu. — Það er kunnugt, að eftir 3 ár er 400 ára dánarafmæli Jóns biskups Arasonar, oft hefur hans nú verið mikið minnzt í sögunni, en ekki á annan hátt. Þó hafa Skagfirðingar haft um það undirbúning um nokkur ár að reisa á Hólum minnismerki við hliðina á dómkirkjunni þar um þennan merkilega biskup, oft hafa verið uppi samskot í þessu skyni. Og hygg ég, að það mál sé leyst á þann hátt, að vel megi við una og vel hæfi. En þótt það sé gott og sjálfsagt mál, þá ber Jóns Arasonar að minnast víðar en á Hólum. Hann lét lífið í Skálholti, og það vill þannig til. að Einar Jónsson myndhöggvari hefur fyrir alllöngu síðan gert uppdrátt af minnismerki um hann og dauða hans, og er þetta minnismerki þannig, að það á hvergi við að reisa honum það nema þar, sem hann dó, í Skálholti.

Ég get að vísu ekki sagt um það fyrir víst, hvað það muni kosta, en það mætti gera ráð fyrir því, að það mundi kosta svipað og Ingólfsminnismerkið á sinni tíð. Þetta er á hálfgerðu frumstigi, en listamaðurinn hefur nú búið þetta til fyrir nokkrum árum, og Einar hefur aldrei verið með áróður um sínar myndir, en ég hef talað um þetta við hann, og tók hann því vel. Hann vinnur alla sína vinnu fyrir landið hvort sem er, og mundi sennilega taka vel í það, ef þess væri beðið.

Fyrir utan það, að við séum að heiðra minningu Jóns Arasonar á þennan hátt, þá er það og vegna Skálholts og vegna þjóðarinnar í sambandi við Skálholt, sem ég flyt þessa brtt. Skálholt hefur verið annar andlegi höfuðstaður landsins í nær 7 aldir. og við þá jörð eru bundnar svo miklar minningar, að hún grípur mjög inn í sögu landsins. En það má segja, að staðurinn sé í fullkominni niðurníðslu, eins og kunnugt er. Það er ekkert heima á staðnum nema illa hirtur kirkjugarður, sem minnir á forna frægð. Á aftökustað Jóns Arasonar hefur verið reistur mjög ófullkominn minnisvarði, sem útlend kona lét gera af áhuga fyrir íslenzkri sögu. En það er ekki svo vandað, sem ekki er von, að það sé nein sálubót fyrir Íslendinga. Mér finnst hins vegar fyrir utan það að heiðra Jón Arason, að þá sé ástæða til þess að hindra ekki nokkurn þann hlut, sem gagni í þá átt að reisa Skálholt við sem höfuðstað. Það verður ekki gert með öðru en nútíma mannvirkjum á einhvern hátt, og þetta yrði kannske eitt af því einfaldasta og listhreinasta, sem hægt er að gera.

Fyrir þá, sem ekki hafa séð myndir af þessu verki Einars Jónssonar, vil ég geta um, að það er þannig byggt, að það er altari og framan við það er höggstokkur áfastur því, ekki ákaflega áberandi. Uppi við höggstokkinn er lítil öxi, en upp af altarinu kemur fagurt sverð, þannig umbúið, að það í raun og veru táknar útgeislun frá sverðinu. Með þessu móti hefur Einar Jónsson viljað tákna þýðingu Jóns Arasonar bæði sem kirkjuhöfðingja og veraldlegs höfðingja. Sverðið og altarið voru hans valdatákn, og höggstokkurinn er svo aftur tákn um burtför hans héðan frá okkur

Ég álít, að ef þessi fjárveiting er veitt, mundi hún verða til þess að slá því föstu að gera þetta, og að ríkisstj. mundi þá semja við Einar Jónsson að öðru leyti, og hvort hægt væri að fullgera þetta 1949 eða 1950. Ef hins vegar þessi till. um fjárveitingu verður felld, þá er það tákn þess, að ástæða er til þess að segja, að þingið ætli ekki að sinna því að heiðra Skálholt og minningu Jóns Arasonar.