22.03.1948
Sameinað þing: 59. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

129. mál, fjárlög 1948

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Áður en ég vík að gagnrýni stjórnarandstæðinga, ef gagnrýni mætti kalla, vil ég drepa nokkuð á, hvernig ástatt er um ýmis þýðingarmikil málefni.

Gjaldeyriserfiðleikarnir setja mjög svip sinn á meðferð mála um þessar mundir og hafa gert nú um alllangt skeið. Það er mín skoðun, að gjaldeyriserfiðleikar hafi aldrei verið meiri en nú á síðustu áratugum a.m.k., og það er þó alvarlegast, að þessu er þannig háttað, þótt fjárhagsráð og viðskiptanefnd hafi allan tímann frá því að þessir aðilar tóku til starfa, aðeins gefið út leyfi fyrir vörum, sem teljast til allra brýnustu lífsnauðsynja þjóðarinnar, og vélum og öðrum efnum til nýrra atvinnufyrirtækja. Það, sem flutt hefur verið inn af öðru síðan þessar stofnanir tóku við, er út á gömul leyfi. Samtímis hefur verðlag á íslenzkum útflutningsvörum verið mjög hátt. Hvað veldur þá þessum ósköpum? Hér kemur margt til, og þá meðal annars, hversu stórfelldar ráðstafanir búið var að gera fram í tímann til ráðstöfunar á gjaldeyri, áður en stefnubreyting komst á í þeim málum. Framlengd innflutningsleyfi og gjaldeyrisleyfi hafa numið hundruðum milljóna, og nú eftir áramótin nema framlengd gjaldeyrisleyfi gífurlegum fjárhæðum, og þar á meðal eru framlengd leyfi tveggja ára gömul fyrir ýmiss konar vörum, sem búið var að gera bindandi ráðstafanir um. Enn fremur sýndi það sig svart á hvítu, þegar þjóðin átti að fara að lifa af atvinnutekjum sínum, að eyðsla hennar var orðin miklu meiri, að meðtöldum framkvæmdum, sem í var búið að ráðast, en þjóðartekjurnar gátu með nokkru móti hrokkið fyrir.

Fróðlegast er að athuga nokkuð innflutningsáætlunina fyrir árið 1948, sem nú liggur fyrir. Þessi innflutningsáætlun er upp á 310 millj. kr., en það þýðir um 390 millj. kr. útlát í erlendum gjaldeyri, þegar búið er að taka með óhjákvæmileg skipagjöld, vátryggingargjöld og aðrar duldar greiðslur, skornar við nögl, að því er talið er. Þetta er engin smáræðis fúlga, rétt um fjögur hundruð millj. kr. Mundi nú margur halda, miðað við það, þegar landsmenn fluttu inn fyrir stríð fyrir 40–50 millj. kr., að ekki þyrfti að skera við nögl í svona innflutningsáætlun. En þessu er ekki þannig farið, og geta menn þegar rennt grun í það af því, að þetta er rúmlega 200 millj. kr. lægri fjárhæð en flutt var inn fyrir árið 1947 og 140 millj. kr. lægri en flutt var inn árið 1946. En lítum á þetta ofurlítið nánar. Vörur til rekstrar sjávarútvegsins nema í áætluninni um 53.9 millj. kr. og til rekstrar landbúnaðar 21.3 millj. kr., samtals 75.2 millj. kr. Vélar og vélahlutar og bifreiðahlutar eru 42.2 millj., og er þá ekki gert ráð fyrir neinum nýjum bifreiðum, nema örfáum almennings- og „rútu“-vögnum. Rafmagnsvörur nema 20.54 millj. kr. og iðnaðarhráefni 16.55 millj. kr. Eru nú taldar 153 millj. kr. Síðan koma byggingarvörur 37.58 millj. kr., skip fyrir 22 millj. kr. og sérstakar framkvæmdavörur ýmiss konar 8 millj., eða samtals þessir þrír liðir 67.58 millj. kr. Hef ég þá alls talið liði, sem nema 22b millj. kr. Eru það rekstrarvörur til sjávarútvegs og landbúnaðar, rafmagnsvörur, vörur til véla og bifreiða og ýmsar „kapítal“-vörur. Allar aðrar vörur nema þá minna en 1/3 af áætlunarupphæðinni, eða um 90 millj. kr. Þar í eru kornvörur, nýlenduvörur, vefnaðarvörur, búsáhöld og yfirleitt allar nauðsynjavörur til beinnar neyzlu, sem fluttar eru inn frá útlöndum. Af þessu sjá menn, hve gífurleg gjaldeyrisútlát eru vegna framleiðslunnar sjálfrar og vegna nýrra framkvæmda og vegna vélanna, og er þó allt niður skorið frá því, sem verið hefur. Það er talið, að það mundi kosta 30–40 millj. kr. í erlendum gjaldeyri að halda úti öllum bilakosti landsmanna, eins og hann er nú orðinn, og sjá allir, að slíkt er tómt mál um að tala. Það er bara dæmi um það, hvernig ástatt er.

Hvað er þá að segja um þessar 90 millj. í neyzluvarninginn? Það hefði nú einhvern tíma þótt klekkileg fjárhæð til slíks. Um það er það að segja, að hún hrekkur ekki neitt nándar nærri til þess, að þjóðin geti lifað svo sem gert hefur verið, eða til þess að fullnægja eftirspurninni. Það þarf allt að takmarka frá því, sem verið hefur, og útiloka óþarfann, ef hún á að hrökkva.

Til þess nú að gera þau innkaup, sem nefnd hafa verið, þarf að framleiða og selja út úr landinu fyrir 400 millj. kr. Er þá ekki gert ráð fyrir neinum afgangi til þess að greiða upp í verzlunarskuldahalann, sem landsmenn nú draga á eftir sér. Til þess að slíkur útflutningur fáist, þarf allt að leika í lyndi bæði um aflabrögð og sölur, og getur vel farið svo, að því marki verði ekki náð og að á miðju ári þurfi enn að draga saman innflutninginn. að því leyti sem það er þá hægt. Þetta sést meðal annars á því, að allar gjaldeyristekjur Íslendinga á undanförnum árum hafa verið að meðaltali á milli 310 og 320 millj. kr. Útflutningurinn þarf því að aukast um 100 millj. og innflutningurinn að minnka um 140-200 millj. kr. á ári frá því, sem verið hefur undanfarið, ef Íslendingar eiga ekki að komast í algert þrot gjaldeyrislega — og þetta miðað við háa verðlagið og engin óhöpp. Það þarf heljarátak til þess að koma þessu í framkvæmd, eins og allir heilskyggnir menn sjá nú, þegar menn standa frammi fyrir þessu, þótt margir vildu ekki sjá eða sæju það ekki fyrr, hverjar afleiðingar af því eru orðnar fyrir þjóðarbúskapinn, að öllum gjaldeyrisinnstæðum landsmanna, um 600 millj. kr., og öllum innkomnum gjaldeyri var ráðstafað á rúmum tveimum árum. Annað eins er ekki hægt að gera án þess að afleiðingarnar verði örlagaríkar, og þeirra mun ekki aðeins gæta nú næstu mánuði og næstu misseri, heldur verða þær lengi þungar í skauti. Til viðbótar því, sem nú hefur verið sagt um innflutningsáætlunina, er nauðsynlegt að taka það fram, að á henni rúmast ekki vélar og efni til nýs síldariðnaðar eða til nýrra stórrafveitna eða annarra slíkra fyrirtækja. og eins og komið er, er tómt mál að tala um slíkar framkvæmdir nú þegar, nema erlent lánsfé komi til. Ískyggilegastur af öllu er þó skorturinn á frjálsum gjaldeyri, dollurum. Fjöldamargar þýðingarmestu vörutegundir til sjálfrar framleiðslunnar er ómögulegt að fá nema frá dollaralöndunum, en mjög fáar vörur okkar er hægt að selja nú fyrir það verð, sem við þurfum að fá fyrir þær, gegn greiðslu í frjálsum gjaldeyri, dollurum. Kveður svo rammt að þessu, að ekki er enn þá fram úr því séð, hversu hægt verður að innleysa allra brýnustu nauðsynjar á næstu mánuðum. Ég tel alveg hiklaust, að frá þeim tíma að fjárhagsráð tók við þessum málum á s.l. sumri, hafi verið unnið stórfellt þjóðnytja- og björgunarstarf, þótt ekki hafi verið hægt né verði hægt að umflýja afleiðingar þess, hvernig komið var. Vegna hinna nýju ráðstafana hefur verið hægt fram að þessu að verja miklum gjaldeyri til uppbyggingar atvinnulífsins og annarra framkvæmda og koma að mestu í veg fyrir skort allra brýnustu vara til framleiðslu og til þess að fæða þjóðina. En ef ekki hefði verið gripið í taumana, hlaut að verða algert öngþveiti og framleiðslustöðvun vegna gjaldeyrisástandsins.

Það er einnig nauðsynlegt að horfast í augu við það, hvernig ástatt er um framleiðsluna. Það er tap á því að framleiða frystan fisk, nema mjög takmarkað magn, sem sett er í „clearing“ gegn iðnaðarvörum með uppsprengdu verði. Það er tap á því að framleiða saltfisk. Það er tap á því að framleiða fisk á bátum og senda hann til sölu í ís á brezkan markað. Það er tap á togurunum, ef nokkuð ber út af, og það jafnvel á nýju togurunum. Það verður stórkostlegt tap fyrir síldarverksmiðjur ríkisins á því að kaupa og taka við Faxaflóasíld. Þessum töpum er til bráðabirgða velt yfir á ríkið. En samt sem áður hrekkur verðið, sem sjávarútgerðin fær fyrir afurðir sínar, ekki betur en svo fyrir kostnaði eða til jafns við launatekjurnar, að það er stórfellt vandamál að fá nægilega marga fiskimenn á bátaflotann og verulegur hluti hans hefur legið aðgerðalaus í vetur, á sama tíma og gjaldeyrisskorturinn er eitt erfiðasta viðfangsefnið. Þetta ástand sjávarútvegsins knýr menn til að selja meira og meira af útflutningsvörum landsmanna fyrir hátt sýndarverð á „clearing“, sem borgast aftur að mestu með fullunnum iðnaðarvörum á uppsprengdu verði. Þannig verður íslenzkur iðnaður, ef þessu heldur áfram, hreinlega sveltur í hel, þar sem fullunnar iðnaðarvörur eru teknar í skiptum við afurðir, en skortur er um leið á gjaldeyri fyrir hráefni til iðnaðarins, því að ekki er hægt að gera hvort tveggja við sömu vörurnar: selja þær á háa verðinu í „clearing“ og selja þær fyrir frjálsan gjaldeyri, sem varið geti orðið m.a. fyrir iðnaðarhráefni.

Þetta ástand er bein afleiðing verðbólgunnar og höfuðvandræðin, sem við er að fást og áfram verður að glíma við þrotlaust, og hefur þar verið fyrsta framkvæmd gerð, er ég kem að síðar. Í beinu sambandi við þetta koma svo fjárlögin og afkoma ríkissjóðs. Ríkissjóður er sokkinn í lausaskuldir og fjárlögin verða um 220 millj. kr. Það úir og grúir af alls konar löggjöf frá síðustu árum með fyrirheitum, sem allir sjá, að gersamlega er útilokað, að geti orðið staðið við. Fjárskorturinn er orðinn mjög tilfinnanlegur, og er það ekki furða, þegar litið er á eyðsluna og fjárfestinguna undanfarið. Sem dæmi um þetta vandamál má benda á það, að talið er, að stofnlánadeild sjávarútvegsins vanti um 63 millj. kr. til þess að geta mætt þeim fyrirheitum eða meðmælum, sem nýbyggingarráð á sínum tíma gaf um lán í deildinni, og hefur deildin þó fengið allt það fé, sem hún átti kröfu til að lögum. Á sama tíma vantar milljónatugi til þess að hægt sé að lána til byggingarframkvæmda í sveitum eins og lög gera ráð fyrir.

Á því ári, sem núv. ríkisstj. hefur starfað, hefur að mínum dómi verið lögð fram feikna mikil vinna af ríkisstj., fjárhagsráði og deildum þess og ýmsum öðrum stofnunum til þess að leitast við að koma skipan á þann óskapnað, sem við hefur verið að glíma, og ég tel árangur furðu góðan í ýmsu tilliti, þótt ég hafi fyrirvara um ýmsa einstaka þætti, og ég held, að það hafi ekki mátt seinna vera, að núv. stjórn tók við.

Kommúnistar æpa að ríkisstj. og segja, að hún eigi sökina á fjárskorti, gjaldeyriserfiðleikum og yfirleitt sökina á því. að ekki sé hægt að uppfylla allt. sem lofað var á sínum tíma. Ástæðan til þess, að nú er fjárskortur, sem kemur bæði fram í gjaldeyrisvandræðum og erfiðleikum á því að útvega lán, er ósköp einföld og blátt áfram, og hún er sú, að allt fjármagn þjóðarinnar, allir gjaldeyrissjóðir, voru teknir og þeim ráðstafað á árunum eftir styrjöldina, — bróðurpartinum af þeim beinlínis eytt, en nokkrum hluta varið til skynsamlegra framkvæmda, — þó ótrúlega litlum hluta. Og svo ósleitilega var að gengið, að nú, eftir að þjóðin hefur engu úr að spila nema því, sem hún vinnur sér inn og flytur út frá degi til dags, þarf að greiða stórar fúlgur af útflutningstekjum til þess að innleysa gömul loforð. Kommúnistum er allra manna bezt kunnugt um, af hverju fjárskorturinn stafar. Hér hefði ekki þurft að verða skortur á fé til þess að standa undir 310 millj. kr. innflutningsáætlun á þriðja ári eftir styrjöldina, ef menn hefðu ekki sleppt sér svo gersamlega sem raun var á.

Ég hef dregið hér fram nokkur höfuðatriði. sem ég tel mestu varða, að menn festi sér í minni, — ekki til þess að hræða menn, því að það er engin ástæða til þess að örvænta, þótt í álinn syrti, heldur til þess að stuðla að því, að menn verði sem raunsæjastir og til þess að greiða fyrir auknum skilningi á viðfangsefnunum. Mun ég síðar víkja að úrræðum. En þessu næst vil ég minnast nokkrum orðum á stjórnarandstöðuna.

Kæmi hingað hlutlaus, glöggur maður, sem kynnti sér aðstæður og fylgdist með því, sem hér er sagt á þingi nú og utan þings um þjóðmálin, ráðstafanir stj. og gagnrýni á þeim, þá mundi hann verða að álíta, að talsmenn stjórnarandstöðunnar væru annaðhvort ölóðir eða nýkomnir úr langri útlegð. Það mætti miklu fremur halda, að það væru „mennirnir frá Marz“, sem töluðu, en íslenzkir alþm., þegar þessir menn láta til sín heyra. Aðalatriðin virðast þessi, að svo miklu leyti sem botnað verður nokkuð í fúkyrðaþvælunni: Það er nógur gjaldeyrir til, ef menn vilja selja réttum mönnum fyrir rétt verð. Það eru nógir peningar til, ef Landsbankinn er látinn prenta fleiri seðla. Stjórnin vinnur að því að búa til kreppu. — Við skulum í þessu sambandi sleppa því að tala um peningaseðla núna, en slá því hins vegar föstu, sem viðurkennt er, að möguleikar þjóðarinnar til neyzlu og til framkvæmda takmarkist annars vegar af vinnuaflinn, þ.e.a.s. því, hverju hægt er að koma í verk, þar á meðal framleiða vörur til eigin nota og hins vegar af því, hvað hægt er að afla mikils erlends gjaldeyris til kaupa á vörum erlendis frá. Þá vaknar fyrst sú spurning: Er vinnuaflið ekki notað? Þeirri spurningu er að minnsta kosti hægt að svara þannig, að atvinnuleysi er ekki til í landinu. Hitt er svo annað mál, að brýna nauðsyn bæri til að flytja á milli atvinnugreinanna. Það er því ekki hægt að ásaka ríkisstj. um það, að hún láti vinnuaflið, sem býður sig fram, ónotað. Þá kemur spurningin: Er hægt að ásaka stjórnina fyrir það, að hún láti ónotaðan erlendan gjaldeyri, leggist á hann eins og ormur á gull, varni mönnum að ástæðulausu að kaupa sér ýmsar lífsnauðsynjar til þess að fegra og bæta lífið eða vörur til nýrra framkvæmda? Enginn óvitlaus maður mundi saka ríkisstj. um það, að hún láti gjaldeyri liggja ónotaðan. Og gjaldeyririnn er nú áreiðanlega betur og skynsamlegar notaður en nokkurn tíma hefur verið gert síðan fyrir styrjöldina. Þegar hér er komið sögu, verður það bert, að öll svo kölluð gagnrýni stjórnarandstæðinga, sem byggist á því að stjórnin sé að skapa fjárhagskreppu, er rógur út í hött. Vinnuaflið er allt notað, sem býðst, og allur gjaldeyrir, sem til fellur, og hrekkur ekki til. Sá eini möguleiki væri þá eftir til að finna í þessu fáráða tali nokkra glóru, að ríkisstj. hefði fé af þjóðinni í utanríkisviðskipfum. Í örvæntingu sinni og rökþroti reyna kommúnistar þá einnig að halda þessu fram, og svo aumlega eru þeir settir, að einmitt það atriði er orðið að aðalatriði í kenningu þeirra. En ekki bætir það þeirra hlut. Í fyrsta lagi er þar of ólíklega logið, til þess að nokkrir nema fáráðlingar leggi trúnað á. Í öðru lagi tekst þeim ekki í einu né neinu að finna orðum sínum stað, hversu sem þeir eru særðir til þess. Viðskipta er leitað af atorku alls staðar, þar sem slíkra er von. Að sjálfsögðu er í þessu tilliti enginn munur gerður á austri og vestri, en við samingagerðir í austri hefur það komið í ljós, að skraf kommúnista um, að betri viðskiptakjara væri að vænta þar en annars staðar, er algerlega úr lausu lofti gripið, og hefur sá áróður afhjúpazt berlega af reynslunni, en hún er ólygnust. Blekkingaskraf kommúnista um. að allt megi leysa með clearingviðskiptum í Austurvegi hefur einnig verið afhjúpað rækilega. Það er nú þegar svo langt gengið í þeim efnum, að stórlega lamar iðnað landsmanna, og væri farið eftir tillögum kommúnista, mundi það ríða iðnaðinum að fullu og stöðva sjálfa framleiðsluna, því að þá skorti fé til þess að kaupa hráefni og rekstrarvörur.

Það er sama, hvar gripið er í blekkingavef kommúnista, allt er þar rotið og óraunhæft, eins og talað væri upp úr svefni. Þegar skraf þeirra hefur verið krufið til mergjar, er ekkert eftir nema hávaðinn og það, sem á bak við liggur, en það er líka nokkuð þýðingarmikið og á því veitur, að menn geri sér grein fyrir því, hvað það er. Þeir, sem allsgáðir eru í landsmálum, fallast á, að þessar ásakanir um, að stj. sé að búa til kreppu, stöðva framkvæmdir og skapa gjaldeyrisskort, séu bara eins og hvert annað ómerkt hjal. — En þá kemur spurningin: Hvernig stendur á því, að menn halda svona augljósum fjarstæðum fram?

Öllu þessu moldviðri er þyrlað upp til þess eins að koma því að, sem kommúnistum er skipað að halda fram: Að öllum erfiðleikum megi afstýra með því að hnýta þjóðina viðskiptalega og pólitískt við Austur-Evrópu, þ.e. Sovét-Rússland. Hér í kvöld hafa menn heyrt hv. 2. þm. Reykv. (EOl) halda því blákalt fram, að Íslendinga biði eymd og volæði, ef atvinnuvegir okkar verði ekki blátt áfram gerðir að einum lið í fjárhags- og viðskiptakerfi Austur-Evrópu. Þetta er upphaf og endir alls þess, sem kommúnistar hafa að segja um viðskiptamál og pólitík. og þeir skeyta engu um staðreyndir og taka afstöðu til allra mála út frá þessu eina sjónarmiði: Hvað er líklegast til þess að færa okkur nær móðurlandinn og degi frelsisins? En dagur frelsisins væri sá dagur, þegar allir flokkar væru bannaðir á Íslandi nema Sósíalistaflokkur Íslands — sameiningarflokkur alþýðu —, öll blöð bönnuð nema Þjóðviljinn og Nýi tíminn og annað frelsi eftir því. Kommúnistar eru haldnir trúarofstæki og þeim er ekki sjálfrátt að því leyti, að flokkur þeirra er aðeins lítið tannhjól í stórri vél, og tannhjólið ræður ekki gangi vélarinnar. Þeir standa í sambandi við kommúnistaflokka í hinum löndunum og lúta sameiginlegri stjórn ásamt þeim. Að forminu til er forustan austur á Balkanskaga hjá Kominform í Belgrad í Serbíu, og þar er einnig búið að setja á fót eins konar yfirstjórn allra kommúnistahlaða í veröldinni. En sú raunverulega forusta er hjá Kommúnistaflokki Rússlands. Hlutverk kommúnistaflokksins hér, sem kallar sig Sameiningarflokk alþýðu, Sósfl., er nákvæmlega sama og kommúnistaflokka annars staðar. Þeirra hlutverk er nú hið sama og nazistaflokkanna í lýðræðislöndunum fyrir styrjöldina. Þeirra hlutverk er m.a. að hindra endurreisn í löndunum fyrir vestan járntjaldið. Þeir eiga að draga úr framleiðslunni og helzt að sýna það, ef þeir geta, og til þess nota þeir öll meðul, að þessum löndum sé ekki hægt að stýra, undirbúa þannig jarðveginn fyrir valdatöku kommúnista með aðstoð utan að frá, ef slíku verður við komið, en vinna að því að veikja stjórnarfar og atvinnukerfi landanna til undirbúnings höfuðátökunum, ef beinni valdatöku verður ekki við komið að sinni. Í þessu skyni er fyrirskipað m.a. að vinna að verkföllum og framleiðslutruflunum. Og hver er sá, sem ekki kannast við það, hversu dyggilega kommúnistar hér hafa farið eftir þessu boði, þar sem þeir hafa getað komið því við. Stefna þeirra í verkalýðsmálum og öllum málefnum alls staðar mótast af þessu. en ekki launþegasjónarmiði. Eða hvað segja dæmin hér úr sögu verkalýðsfélaganna á undanförnum árum? Þeir líta á verkalýðsfélög og öll önnur samtök aðeins sem tæki, sem þeir þurfa að geta notað pólitískt í valdabaráttu sinni, en sú barátta er mótuð og henni stjórnað af alþjóðasamtökum kommúnista.

Undanfarin ár hefur það verið aðaliðja íslenzkra kommúnista að svíkjast að mönnum. Flokkurinn skipti um nafn og setti upp falskt flagg og fékk í sína þjónustu falsspámenn, sem notaðir hafa verið við hátíðleg tækifæri, til þess jafnvel að afneita kommúnismanum í hálfkveðnum vísum, en á sama tíma hafa höfuðpaurarnir styrkt sambandið við höfuðstöðvar kommúnista. Svo stórkostleg er þessi svikastarfsemi, að mikill vafi leikur á því, að jafnvel sumir undirforingjar í liði þessu viti full skil á því, hvað verið er að fara. Furðar marga á því, hvernig mylla þessi hefur haldizt gangandi fram að þessu, en hér kemur ýmislegt. til, m.a. það, hve mörgum er sárt um að viðurkenna, að þeim hafi verið gerðar sjónhverfingar eða þeir sviknir. En þetta er háskalegur misskilningur og þjóðarvoði, ef menn láta slíkar tilfinningar ná nokkrum tökum á sér. Það er enginn manndómur eða drengskapur í því að láta hættulegan málstað hagnast á slíku. Það er drengskapur og manndómur í því að snúast gegn þeim, sem blekkt hafa og prettað.

Þá hefur verið skákað í því skjóli verulega, hve ýmsum Íslendingum hefur gengið seint að skilja eðli og vinnubrögð hreyfinga eins og nazismans og kommúnismans. Hafa menn þó ekki séð nú, hvernig nazistar í öllum löndum höguðu sér fyrir styrjöldina og í styrjöldinni? Hafa menn ekki einnig séð, hvernig kommúnistarnir hafa komið fram nú í mörgum löndum og hvernig þeir höguðu sér á styrjaldarárunum? Eru menn búnir að gleyma því, að íslenzku kommúnistarnir kröfðust þess að Bretum yrði ekki sendur matur frá Íslandi, þegar þeir stóðu einir gegn nazismanum? Eru menn búnir að gleyma því, að Bretavinnan var kölluð glæpsamleg hagnýting vinnuaflsins um sama leyti, en landvarnarvinna eftir að Þjóðverjar réðust á Rússa? Eru menn búnir að gleyma því, að kommúnistarnir hérna kröfðust þess, að samningar væru teknir upp við þýzku nazistana fyrstu mánuði styrjaldarinnar til þess að láta þá fá nauðsynjar? Halda menn kannske, að þessi afstaða og fjöldamargar fleiri séu teknar frá íslenzku sjónarmiði? Nei, þetta er snúningur tannhjólsins, litla hjólsins í stóru vélinni. Og á þessu byggist allt, og það sýnir sig alltaf. Hvað var um Finnland um árið og aftur nú, og hvað sýnir það, sem nú er að gerast? Hverjir hafa mælt hót ofbeldisverkum í hverju landinu eftir annað, snúið sannleikanum við og kallað ánauð frelsi, einræði lýðræði? Hverjir mæltu bót morði Petkovs? Hvaða vitnisburð fá kommúnistaflokkarnir í nálægum löndum frá frjálshuga mönnum, viðurkenndum baráttumönnum fyrir pólitísku frelsi. róttækum þjóðfélagsumbótum og lýðræðissósíalisma? Alls staðar sami vitnisburðurinn, og þið vitið, hver hann er — þið heyrið hann daglega. — Á það svo að vera nóg fyrir Íslendinga, að sett sé á sameiningarnafn og sendir út tungumjúkir falsspámenn, sem ekki ern annað en ein lítil tönn í litlu tannhjóli í hinni stóru vél kommúnismans? Geta Íslendingar leyft sér að gleyma því, sem gerðist á styrjaldarárunum? Hvernig hefði þjóðin staðið, ef kommúnistar hefðu fengið að ráða þá? Geta Íslendingar leyft sér að loka augunum fyrir því, sem er að gerast umhverfis þá og hér í landinu sjálfu?

Hvað sýna atburðirnir í Tékkóslóvakíu og undirtektir kommúnista hér? Kommúnistar í Tékkóslóvakíu hóta vopnuðu ofbeldi, ef þeim eru ekki fengin völdin í hendur án kosninga. Þeim eru fengin völdin án borgarastyrjaldar til þess að forðast blóðsúthellingar, og þeir nota þau til þess að koma á í landinu lögreglueinræði í stað lýðræðis. Prentfrelsi er afnumið, þm. sviptir umboðum, skoðanafrelsi er úr sögunni, fangelsanir hefjast og ofbeldissagan endurtekur sig eins og hún gerðist fyrir stríðið í hverju landinu eftir annað og eftir stríðið nú í hverju landinu eftir annað í Austur-Evrópu. Hér á Íslandi gleðjast kommúnistar yfir þessum atburðum. 2. marz segir Þjóðviljinn, blað íslenzkra kommúnista, sameiningarflokksins: „Tékkóslóvakía varð sósíalistískt alþýðulýðveldi á lýðræðislegan hátt.“ Og nú höfum við enn einu sinni fengið að vita, hvernig þeir hugsa sér, að það geti orðið framkvæmt.

Öllum er vorkunnarlaust að sjá og skilja aðfarir kommúnista í hverju landinn eftir annað og í Tékkóslóvakíu nú síðast, og öllum má vera ljóst enn einn sinni, hvert íslenzki „sameiningarflokkurinn“ stefnir og hvers eðlis hann er. Nú er spurningin: Ætla menn að halda áfram að leika sér að eldinum, eins og sumir hafa gert með því að kjósa sameiningarflokkinn, þótt þeir vilji ekki styðja ofbeldi og kommúnisma? Ætla menn að láta svæfa samvizku sína með lævíslegum lygaáróðri eins og þeim, að ofbeldið í Tékkóslóvakíu réttlætist með því, að von hafi verið einræðisbyltingar frá óvinum kommúnista og Rússa? það er þá líka svo sennilegt í landa Benesar og Mazaryks og undir handarjaðri Rauða hersins. Ætla menn að láta bjóða sér slíkan áróður, eða ætla menn að vera sjálfum sér trúir og viðurkenna staðreyndir og segja hingað og ekki lengra, eins og fjöldi heiðarlegra manna í öllum löndum gerir um þessar mundir?

Ég hef nú farið nokkrum orðum um ástandið almennt og mætt nokkuð ásökunum stjórnarandstæðinga. Ég mun þá þessu næst minnast á afstöðu Framsfl. til ríkisstj. og verkefni þau, sem framundan bíða óleyst.

Framsfl. ákvað á síðastliðnum vetri að taka þátt í ríkisstj. þriggja flokka og vildi með því gera það, sem í hans valdi stæði, til þess að fá fram stefnubreytingu í landsmálum, fá tekið upp viðnám gegn verðbólgu, ofþenslu og gjaldeyriseyðslu og ráðstafanir gerðar til viðreisnar. Flokknum var það ljóst, að það var ekki auðvelt verk, sem beið hinnar nýju stjórnar, en mönnum fannst. að slíkt mætti ekki setja fyrir sig, þar sem málefnastefnan var ákveðin þannig, að í rétta átt horfði í flestum efnum, og það átti að mega vænta þess, að væri trúlega framfylgt stefnunni, þá yrði verulegur ávinningur að starfi stj. og þess þingmeirihluta, sem skipaði sér um hana. Nú er rúmt ár síðan stjórnin tók við störfum og sá þingmeirihluti, sem henni fylgir. Á þessu eina ári hafa mjög þýðingarmikil spor verið stigin í rétta átt, þó því fari að sjálfsögðu fjarri, að í höfn sé náð frá þeim vanda, sem þjóðin er stödd í. Dýrtíðarlöggjöfin frá þessu hausti er mjög þýðingarmikil, ef framkvæmd hennar tekst, og gæti orðið grundvöllur að viðreisn, ef menn bera gæfu til þess að halda rétt fram stefnunni. Hins vegar er mest undir framkvæmd löggjafarinnar komið. Hið hörmulega gjaldeyrisástand og því ekki síður ástand atvinnuveganna og fjárlög ríkisins sýna það þó svo greinilega, að ekki verður um deilt, að það skref, sem nú hefur verið stigið, er aðeins áfangi á langri leið. Allt ástand þessara mála vottar, að með engu móti getur staðið til frambúðar svo sem nú er um atvinnu- og fjármál landsins. Það væri ófyrirgefanleg léttúð, ef menn vildu ekki horfast í augu við þetta, og það dregur á engan hátt úr viðurkenningu á því þýðingarmikla starfi, sem núv. stj. og stjórnarflokkar hafa innt af hendi í rétta átt, þótt það sé rækilega undirstrikað, að það starf notast því aðeins, svo sem efni standa til, að það verði aðdragandi frekari framkvæmda til viðreisnar. Með því, sem þegar hefur verið gert í dýrtíðarmálum, hefur verið unnið björgunarstarf fyrir þjóðina og fyrir sjávarútveginn alveg sérstaklega, þar sem hlutur hans hefur verið nokkuð réttur frá því, sem var, þótt langt sé frá því að vera fullnægjandi, eins og ég hef áður undirstrikað. Mjög þýðingarmikill árangur hefur náðst í landbúnaðarmálum, einkum með setningu hinna nýju afurðasölulaga og með því að tryggja bændastéttinni jafnréttisaðstöðu á ný í sambandi við lausn dýrtíðarmálanna.

Jafnframt því, sem þannig er dregið fram það, sem áunnizt hefur, er rétt áð undirstrika, að margt mætti betur fara að dómi Framsfl., og þá sérstaklega, að ástandið í verzlunar- og viðskiptamálum er þannig, að bráðra breytinga er þörf. Framkvæmd þessara mála er mjög á reiki og ágreiningur um það, hversu henni skuli fyrir komið, en eins og kunnugt er, heyra mál þessi undir fjárhagsráð og deildir þess og þar með undir ríkisstj. í heild. Hefur ekki fengizt framgengt þeirri stefnubreytingu í þessum málum, sem Framsfl. telur nauðsynlega til þess að tryggja réttláta vörudreifingu og samkeppni.

Fjárlögin verða nú afgr. með um 220 millj. kr. útgjöldum á rekstrarreikningi, eins og áður er að víkið, og er það hærra en nokkru sinni fyrr. Er þar verðbólgan enn að verki og hefur í för með sér sívaxandi útgjöld ríkisins, eins og fyrirsjáanlegt var. Þessum gífurlegu útgjöldum ríkisins valda jöfnum höndum bein útgjöld vegna dýrtíðarráðstafana, útþanin ríkisstarfræksla frá hinum svo kölluðu góðu árum og útgjaldafrek löggjöf. Þessi afgreiðsla fjárlaganna mótast að verulegu leyti af því, að ekki var lengra gengið en raun var á í dýrtíðarmálunum, en sumpart á þessi afgreiðsla rót að rekja til þess, að allsherjar endurskoðun allrar útgjaldalöggjafar síðustu ára og ríkisrekstrarins í heild með sparnað fyrir augum hefur enn ekki farið fram til þeirrar hlítar, að upp úr henni hafi komið samtök um verulegan sparnað. Það sýnir sig, að um verulegar lækkanir á útgjöldum ríkisins getur vart orðið að ræða, nema í sambandi við slíka heildarathugun og heildarsamninga um fjárlögin öll. Menn vilja t.d. ekki fallast á lækkanir á framlögum til nauðsynlegra mála, nema önnur átök til sparnaðar séu gerð um leið, og forráðamenn starfsgreina kinoka sér vafalítið við að gera miður vinsælar ráðstafanir til sparnaðar, nema annars staðar eigi sér stað svipaðar framkvæmdir. Þannig bindur hvað annað, og þarf að beita mikilli atorku og skörungsskap, ef árangurs á að vænta, en slíkt er höfuðnauðsyn.

Af því, sem skeð hefur á þessu eina ári, sem ríkisstj. hefur setið að völdum, er þó einna þýðingarmest sú stefnubreyting, sem orðið hefur um meðferð gjaldeyrismála og fjárfestingarmála með stofnun fjárhagsráðs. Hef ég áður farið um þetta nokkrum orðum, en það er óhætt að fullyrða, að frá því að fjárhagsráð tók við, hefur óþarfainnflutningur gersamlega verið útilokaður, sem ekki var beint búið að gera bindandi ráðstafanir um, og allt gert, sem unnt hefur verið, til þess að fara vel með gjaldeyri landsmanna. Jafnframt hafa ráðstafanir fjárhagsráðs í fjárfestingarmálum forðað fullkomnu öngþveiti. Hitt er svo annað mál, að það tekur talsvert langan tíma að koma hagfelldri skipan á jafnmikil afskipti og fjárhagsráð neyðist til þess að hafa, og ýmsir byrjunarörðugleikar hafa gert vart við sig og þá sérstaklega í sambandi við það, að hin nýju vinnubrögð voru ekki tekin upp fyrr en í óefni var komið. Það hefði verið ólík aðstaða fyrir fjárhagsráð og ríkisstjórn og landsmenn alla, ef hinn nýi háttur hefði verið tekinn upp meðan verulegur hluti innstæðnanna var óeyddur í bakhöndinni. — Framundan bíða nú verkefni mörg og stór. Fyrsta verkefnið er að tryggja framkvæmd dýrtíðarlöggjafarinnar nýju, en hana munn kommúnistar reyna að rifa niður í framkvæmd, því að þeim er það ljóst, að takist framkvæmd hennar, er viðreisnarvon, en sé hægt að eyðileggja hana, þá verður léttari leikurinn fyrir þá, sem eiga að koma hér öllu í uppnám. Það verður því að mynda öflug samtök til þess að einangra kommúnista alls staðar í öllum félagsskap, þar sem þeir gera nokkra tilraun til þess að eyðileggja löggjöfina og koma af stað nýrri verðbólguöldu. Jafnframt verður nú þegar að hefja öflugan undirbúning undir frekari ráðstafanir í dýrtíðar- og atvinnumálum. Verða þær að vera margþættar og réttlátar, ef takast á að komast yfir þá erfiðleika, sem sýnilega eru framundan. Verður þá að útiloka skemmdaráhrif kommúnista. Þá er nauðsynlegt að koma á samtökum gegn óeðlilegum sérréttindum og gróðastarfsemi á kostnað almennings. Næstu framkvæmdirnar verða að miðast við það að bæta aðstöðu framleiðslunnar stórlega frá því, sem nú er, og beina vinnuaflinu til framleiðslunnar meira en nú á sér stað, þannig að öll atvinnutæki landsmanna séu notuð til slíkra starfa og allir möguleikar til gjaldeyrisöflunar. Í þessu sambandi þarf að gera ráðstafanir til þess að breyta skipan verzlunarmálanna í það horf að færa valdið í verzlunarmálunum meira yfir til neytenda en verið hefur og tryggja þannig réttláta vörudreifingu, aðhald og samkeppni um vöruverðið. Þá er augljóst af þeim upplýsingum, sem liggja fyrir, að mikil verkefni bíða óleyst í sambandi við innlenda iðnaðinn, og sýnist þar vera aðalatriðið að skipuleggja iðnaðinn á ný, þannig að framleiðslugeta þeirra fyrirtækja, sem þörf er á að reka til þess að framleiða nauðsynjar, sé notuð til fulls og með því skapaður grundvöllur til þess að lækka verðlag iðnaðarvarnings í landinu. Bendir margt til þess, að slíkar framkvæmdir gætu orðið þýðingarmikill liður í baráttunni gegn verðbólgunni. Framkvæma verður gagngera endurskoðun á öllum ríkisrekstrinum, með sparnað fyrir augum, og endurskoðun á útgjaldalöggjöf síðustu þinga með það sama fyrir augum. Framsfl. hefur lagt til, að þremur alþm. yrði bætt í sparnaðarnefndina, sem þegar starfar og skipuð er embættismönnum. Það telur flokkurinn heppilegt, ekki vegna þess að hann vantreysti embættismönnunum, heldur telur flokkurinn, að ef full not eigi að verða af starfi nefndarinnar, þá verði að koma þar til greina jöfnum höndum sjónarmið þeirra, sem starfa að lagasetningu, og hinna, sem þekkja til lagaframkvæmdar. Þá hefur flokkurinn stutt, að það ákvæði yrði lögfest, að ekki mætti stofna nýtt starf á vegum ríkisins, nema með samþykki fjmrh. Telur flokkurinn heppilegt, að slíkt ákvæði sé sett á meðan endurskoðun fer fram, og mætti þá setja frekari skorður í því efni eftir endurskoðunina, ef menn feldu það heppilegt.

Þá ber brýna nauðsyn til að ná betri tökum á lausu fjármagni í landinn en nú er, til þess að því geti orðið beint í nauðsynleg stofnlán handa atvinnurekstrinum og til annarra brýnustu nauðsynja. Þetta er alveg sérstaklega aðkallandi vegna þess, hvernig ástatt er um stofnlánadeild sjávarútvegsins, stofnlán til landbúnaðarins og stofnlán til margra þjóðþrifafyrirtækja. Það er nú sýnt, að niðurstaða um þetta mál næst ekki á þessu þingi, og verður því að viðhafa þá aðferð að leysa til bráðabirgða úr brýnustu þörfum einstaklinga og fyrirtækja í þessum efnum, en frekari ráðstafana er brýn þörf og verður að undirbúa þær í sambandi við önnur atriði fjárhagsmálanna, sem framkvæmdar bíða óleyst.

Þá er aðkallandi nauðsyn að finna nýjan grundvöll undir tekjuskiptinguna í landinu, sem sérstaklega sé miðaður við það, að tekjur manna séu í sem réttustum hlutföllum við þjóðartekjurnar og að hlutur þeirra, sem vinna að framleiðslunni, sé betur tryggður en nú er. Í þessu sambandi þarf að leggja vinnu í að gera nýja vísitölu, sem fyrst og fremst sé miðuð við framleiðsluverðmæti. Í nýju dýrtíðarlöggjöfinni frá í haust eru ákvæði um, að slík vísitala skuli gerð, og er þýðingarmikið, að ekki verði látið dragast að vinna það verk. Það verk verður að vera unnið svo tímanlega, að niðurstöðurnar liggi fyrir, þegar valdar eru leiðirnar og úrræðin næsta áfangann á viðreisnarbrautinni.

Í stjórnarsamningi þeim, sem gerður var þegar núv. stj. var mynduð, er tekið fram, að stjórnin vilji beita sér fyrir setningu nýrrar stjórnarskrár. Ég tel, að hraða eigi sem mest undirbúningi þessa máls. Mjög margir hafa þungar áhyggjur af því, hvernig stjórnarkerfi landsins reynist í framkvæmd á síðari árum. Það hefur gengið stirt og erfiðlega að mynda í landinu ábyrgan meiri hluta um stjórnarathafnir og löggjafarstarf. Samsteypustjórnir margra flokka eru yfirleitt svifaseinni en vera þyrfti, þótt mikið starf og erfiði sé af mörkum látið oft og tíðum. Togstreita er oft mikil og samningavinna gífurleg við allar meiri háttar ákvarðanir og málamiðlanir óhjákvæmilegar. Þetta tefur framkvæmdir, gerir línur óskýrar og hefur marga galla, þótt við þetta fyrirkomulag verði að una, meðan ekki myndast stærri samstæðir hópar. — Framsfl. telur, að megináherzlu eigi að leggja á það, að ákvæði hinnar nýju stjskr. um skipan æðsta valdsins og um Alþingi og kjör til þess stuðli sem mest að því, að í landinu sé jafnan til staðar sem samstæðastur pólitískur meiri hluti um landsstjórn og lagasetningu. Og enn fremur telur flokkurinn, að í hinni nýju stjskr. eigi að tryggja aukið vald héraðanna frá því. sem nú er.

Ég hef nú talað um nokkur þýðingarmikil málefni, sem framundan eru, og mætti þó mörg fleiri nefna. Fyrir þessum málum og ýmsum fleirum, sem hér verða ekki. talin nú, mun Framsfl. beita sér og berjast á Alþingi og í ríkisstj. og hvar sem hann fær því við komið.

Framsfl. er það ljóst, að eins og flokkaskipan er í landinn nú, þá getur hann ekki búizt við að ráða einn úrslitum mála, og honum er það einnig ljóst, að ef og meðan hann er í samsteypustjórn með fleiri flokkum, þá getur hann ekki heldur búizt við að ráða einn stjórnarathöfnum. En þótt flokknum sé þetta ljóst, og þó öllu heldur einmitt af því, að honum er þetta vel ljóst, þá telur hann sér skylt, þegar hann á í samstarfi við aðra flokka, að gera alþjóð sem gleggsta grein fyrir því, hvað hann hefur til málanna að leggja. hvað hann hefur lagt til og leggur til um aðalstefnuna, ekki aðeins á Alþingi, heldur einnig í ríkisstj., þannig að afstaða flokksins sé kunn til samanburðar við þær framkvæmdir, sem gerðar eru. Framsfl. telur það einnig eðlilegt, að hinir samstarfsflokkarnir fari eins að, ef þeim býður svo við að horfa. Það væri fáránlegt að ímynda sér, að menn með ólíkar lífsskoðanir og flokkar með ólíkar stefnur verði sammála um allt, þótt þeir gangi til samninga um stjórn landsins og reyni að komast að sameiginlegri niðurstöðu um heildarstefnu einstaka áfanga á hinni löngu göngu þjóðarinnar. Auðvitað er stundum ágreiningur milli samstarfsflokka um ríkisstj. og milli ráðh. í samsteypustjórn. Einn leggur þetta til, en annar hitt og síðan er samið, og að lokum verður málamiðlun og enginn telur það sina lausn, sem ofan á verður. Landsmenn eiga að vita hverju sinni sem gleggst um það, hvað fulltrúar flokkanna Leggja til um höfuðmálin í stjórnarsamstarfinu engu síður en í samstarfi á þingi. Og sé þetta gert, þá eru samsteypustjórnir margra flokka ekki eins varhugaverðar fyrir pólitískt uppeldi þjóðarinnar, ef svo mætti að orði komast, eins og þær hlytu að verða, ef annar háttur væri á þessu hafður. Á þessu byggir Framsfl. málflutning sinn og afstöðu og mun gera svo áfram, af því að hann telur þetta þjóðinni nauðsynlegt og til þess fallið að styrkja lýðræðið með málefnalegum umræðum um vandamálin og ágreining þann, sem um þau hlýtur að vera.

Menn verða að horfast í augu við það, að mikill vandi er á höndum á næstunni. Þjóðin fær ekki staðizt þá nema henni skiljist, að menn verða að leggja verulega að sér á næstunni og neita sér um margt. Það verður óspart reynt að koma í veg fyrir viðreisn með blekkingum um það, að þjóðin geti leyft sér alla sömu eyðslu og á meðan verið var að koma í lóg afganginum frá stríðsárunum. Það er einn liðurinn í starfsemi kommúnista eftir þar um lögðum áætlunum. Það er einn þátturinn í þeirri skemmdarstarfsemi, sem hér verður reynt að vinna á næstunni. — Framleiðslumöguleikarnir eru miklir. Aðalmeinið er, að eyðslan er samt um efni fram. Það er hægt að sigrast á erfiðleikunum. Nokkrum árum fyrir styrjöldina urðu Íslendingar fyrir því áfalli, að aðalmarkaðurinn fyrir aðalmarkaðsvöruna féll saman á einn ári. Þjóðin brást mannlega við. Hún sparaði og sparaði og notaði hvern eyri, sem til varð tindur, til þess að koma upp nýjum atvinnurekstri og nýjum tækjum til þess að vinna upp það, sem tapazt hafði, og á fáum árum var mikið unnið upp. Sú þjóð, sem þetta gat, þarf ekki að örvænta. Þótt margt hafi breytzt síðan þetta skeði, þá er kjarninn enn hinn sami, þegar á reynir, og þrátt fyrir allt stendur þjóðin betur að vígi en fyrr. Það er undir mönnum sjálfum komið, hvernig framtíðin reynist. — Góða nótt.