09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er ekki nema að vonum, að hv. n., sem nú hefur haft þetta mál til athugunar, kæmist að þeirri niðurstöðu, að ástæða væri til að gera allmargar brtt. við frv. til þess að fá í það það samræmi, að það tylldi saman sem ein heild, eftir þá handahófskenndu niðurstöðu, sem varð við afgreiðslu málsins við 2. umr. um það. Ég ætla þess vegna að ræða örlítið sumar brtt., sem hér liggja fyrir frá hv. sjútvn. og gerðar eru í þeim tilgangi að berja í brestina á frv., eins og það er orðið, og leitast við að samræma það. Samkvæmt 1. brtt., sem er við 4. gr. frv., leggur hv. n. það til, að sú skylda skuli hvíla á útgerðarmönnum að láta innrita veiðiskip sín hjá sjóðstj., og þetta á að gera ekki síðar en degi áður en þau fara á veiðar. Þá á útgerðarmaðurinn einnig að tilkynna, hvar og hvers konar veiðar skipið ætlar að stunda. Að fengnum þessum upplýsingum á sjóðstj. að skipa því í flokk. Þegar skip hættir veiðum á tímabilinu, ber útgerðarmanninum að tilkynna sjóðstj. það, og eins má hann ekki gleyma að tilkynna sjóðstj. það, ef hann breytir um veiðiaðferð; ef skipið fer á dragnótaveiðar í staðinn fyrir herpinótaveiðar eða línu- eða reknetaveiðar í staðinn fyrir snurpinótaveiðar, því að vanræksla þessara tilkynninga varðar réttindamissi til bótagreiðslu úr sjóðnum. Mér þykja þessi ákvæði, eins og þau eru þarna, vera þannig, að lítils háttar aðgæzluleysi geti leitt til þess, að útgerðarmenn verði umvörpum sviptir réttindum til bóta úr sjóðnum. Ég tel því, að athugandi væri, hvort ekki væri réttara að láta skrásetningarskylduna hvíla á skráningarstjóranum, því að ný skráning fer fram, ef um meiri háttar breytingu er að ræða, og alltaf í byrjun veiðitímabils og einnig að því loknu. Ég tel það áhættuminna fyrir útgerðarmenn, að þessi skylda hvíli á skráningarstjóra, en ekki útgerðarmanninum sjálfum. — Ég skal taka það fram, að ég er fyllilega samþykkur 2. brtt., sem er um það, að í staðinn fyrir „laun“ komi „þóknun“, og hefur alltaf verið til þess ætlazt, að þessi laun yrðu ekki fyrir aðalstarf, heldur einmitt þóknun. Þá er annað atriði, sem ég vil benda á, sem er um það, að samkvæmt 4. gr. er n. ætlað að ákveða meðalaflamagn, sem styrkveitingar úr sjóðnum eiga að miðast við. Nú er í 9. gr., þar sem kemur að reglunum um það, hvernig eigi að úthluta styrkjum úr sjóðnum, eingöngu talað um meðalaflamagn. Í upphaflega frv. var af ráðnum hug talað um meðalaflaverðmæti, af því að þá á að fara að úthluta fjárupphæðum miðað við verðmæti aflans hjá skipinu. Ég held, að það geti ekki vakað fyrir hv. n., að bátur, sem hefur aflað 20 tonn af flatfiski, sem er ákaflega verðmætur aflafengur, eigi að fá sams konar styrkveitingu úr sjóðnum eins og annar bátur af sömu stærð, sem eingöngu hefur aflað 20 tonn af þorski á sama veiðitímabili. Aflaverðmætið verður margfalt meira hjá hinum fyrrnefnda bát. En þegar hér á að miða við afla, en ekki verðmæti, þá sýnist svo sem þessir bátar eigi að hafa sams konar aðstöðu. Hér er annað dæmi. Segjum, að um tvo síldarbáta sé að ræða, sem báðir hafa aflað jafnmikið af síld. Annar hefði lagt upp afla sinn á söltunarstöð og fengið þannig mjög mikið verðmæti fyrir hann, en hinn hefði sett allt sitt aflamagn í bræðslu. Eftir því sem greinin er nú orðuð, virðist mér, að báðir þessir bátar hafi sömu aðstöðu til bótagreiðslu. Þess vegna sér hv. þm. Barð. hilla undir það, að það þurfi að klúðra greinina svolítið betur, og kemur með brtt. við hana. En þó hefur hv. flm. till. ekki fengið hv. n. til að fallast á það, að nú væri greinin orðin svo afbökuð, að setja þyrfti í hana nýja málsgr. til þess að berja í brestina. — Ég vil taka það fram, að 5. brtt. er til bóta. Það er einn þáttur úr till. hv. 6. landsk. þm., og get ég mjög vel fellt mig við hana, en hún er um það, að það gefist strax tækifæri fyrir sjóðstj. að fyrirbyggja styrkveitingar til þeirra, sem lítið fiska vegna vítaverðrar vanrækslu eða óstjórnar á útgerðinni. — Þá er það eitt, sem sýnir glögglega, hve bæklað frv. var eftir afgreiðslu þess við 2. umr. hér í hv. d. Nú er gert ráð fyrir, að mér skilst, tveimur reglugerðum, reglugerðinni samkvæmt 4. gr., þar sem verkefnin eru sérstaklega upp talin, og enn fremur almennri reglugerð samkvæmt 14. gr. Það er mjög vafasamt, að þetta geti verið ein og sama reglugerðin, og hefði þá átt að rýmka upptalninguna í 4. gr. viðvíkjandi reglugerðarákvæðunum, svo að ekki þyrfti sérstaka gr. í frv. aftur með reglugerðarsetningum. Þetta sést gleggst á því, að tvenns konar ákvæði eru um jafneinfalt atriði og það, að setja megi eða skuli reglugerð um framkvæmd þessara l., og sýnir það, hve ósamstætt þetta er orðið, hvernig árekstrarnir koma strax upp f fangið á manni, áður en gengið er frá l., en þetta á því miður eftir að koma betur fram víð framkvæmd l.

Ég er sannfærður um það, að alls konar ný tilvik, sem engan hefur órað fyrir, eiga eftir að koma fram í sambandi við þessa lagasetningu, hvernig sem frá henni er gengið. Menn eru ekki svo forsjálir, þó að þeir þekki vel íslenzkan sjávarútveg, að þeir geti séð fyrir allt, sem koma kann. Og svona l., sem eru algert nýmæli, verða sjálfsagt strax og einhver reynsla kemur um þau, fyrir meiri eða minni gagngerðum breytingum. Þar sem ákvæði eru f frv. um það, að l. komi ekki til framkvæmda árlangt, þá sé ég ekki ástæðu til að vera mjög flaumósa um það að bera fram brtt., eins og málið liggur nú fyrir, enda gæti það orðið til að torvelda afgreiðslu málsins. Ég mun því sjá hvað setur og nota tækifærið til að bera fram brtt. á því ári, sem það á fram undan, áður en það kemur til framkvæmda. Ég tel það mestu máli skipta, að sjóðsstofnunin komist á og að sú hlið málsins verði leyst nú þegar.