09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég vildi mega svara í fáum orðum hv. þm. Barð., en hann kemur nú fram í nýrri rullu; undanfarið hefur hann verið í gervi siðameistarans, nú er eins og hann eigi mig og hv. þm. N–Þ. með húð og hári, og við megum ekki einu sinni koma fram með brtt. án þess að spyrja hann leyfis. En við munum nú ekki draga hana til baka, þótt hann kalli, að hún spilli málinu. Hann hefði þá sjálfur aldrei átt að koma með sína fráleitu till., sem við fundum okkur til knúða að reyna að bæta úr. Ég skal ekki fara inn á að svara fyrir þá stétt, sem hann telur, að megi þakka fyrir að fá að borga þetta, þar sem hún fleyti rjómann ofan af framleiðslutroginu. Það er gott að vita. að hv. þm. hefur þennan skilning. En það mætti þá alveg eins taka undir með till. hv. 6. landsk. um að leggja skatt á bankana fyrir að selja gjaldeyrinn.

Út af brtt. sjútvn. við 8. gr. í 3. lið á þskj. 670 vil ég segja, að henni get ég ekki fylgt. Gerum ráð fyrir, að brtt. sé sett fram með það fyrir augum, að frvgr. nái fram að ganga, en ef ekki, þá lítur dæmið svo út, að ríkissjóður leggur jafnt á móti útveginum og þar að auki það, sem vantar á 4 millj. í sjóðinn. Hér er því um 1 millj. kr. hækkun á framlagi ríkissjóðs að ræða frá því, sem ráð var fyrir gert. En hv. form. fjvn. er kannske reiðubúinn til að bæta því lítilræði inn í fjárlög.

Till. hv. 6. landsk. á þskj. 678 tel ég alveg jafnfráleita og till. hv. þm. Barð., en hún er um það, að skylda bankana til að greiða 10% af árlegum nettó-hagnaði sínum til sjóðsins. Ef farið verður inn á þessa braut, verður ekki langt þangað til allur rekstrarhagnaður bankanna verður kominn í slíkar sporzlur sem hér um ræðir.

Ég vænti þess, að hv. d. samþykki brtt. á þskj. 672 og felli þar með þá till., sem hv. þm. Barð. kom með, og ég verð að segja, að ég teldi þjóðinni lítinn sóma að þeim molbúahugsunarhætti, sem slík skattheimta bæri vott um.