13.05.1949
Efri deild: 106. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

23. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Efnislega þarf ég ekki að ræða málið frekar, þar sem ég gerði það í fyrri ræðu minni, en ég vildi svara þeim, sem rætt hafa málið, m.a. hæstv. dómsmrh. og hæstv. menntmrh., áður en umr. lýkur. — Hæstv. dómsmrh. sagðist vera mjög undrandi yfir ummælum mínum um dr. Helga Tómasson og sagði, að ég hefði borið honum á brýn vammir og skammir, en ég veit ekki, hvaðan hæstv. ráðh. hefur það, en ég vil benda á það, að ég hef ekki sagt annað um hann en ég sagði við hann á fundum nefndarinnar. Ég hef aðeins fordæmt þann þátt, sem hann átti í að leggja niður hælið í Kaldaðarnesi. Ég hef ekki borið á hann, að hann hafi gefið hælið, en hann á drjúgan þátt í því að hælið var lagt niður, og fyrir það ásaka ég hann. Mér er vel ljóst, að þetta styggir hæstv. dómsmrh., því að hann er svo gerður, ef honum er vel við einhvern, þá má hann ekki heyra sannleikann um hann, en ef honum er illa við einhvern, þá viðurkennir hann ekkert gott hjá honum, og hvers vegna reif hann sig ekki upp til að verja landlækni. Ég held, að ummæli hæstv. ráðh. markist af því, að hann hafi ekki tekið eftir, hvað ég sagði, og þoli ekki að heyra sannleikann um þá menn, sem honum er vel við. Ég þekki ekki afskipti dr. Helga af öðrum málum önnur en góð og veit, að hann rækir starf sitt á Kleppi vel. Ég hef því aðeins gagnrýnt hann í þessu máli og það með fullum rétti, en ekki afskipti hans af Kleppi. Ég hef ekki farið dult með það, hvaða þátt ég telji hann hafa átt í þessum málum og að ég trúi honum ekki fyrir að byggja málið upp að nýju. Það er því ástæðulaust fyrir hæstv. dómsmrh. að hreyta í mig ónotum út af þessu, en ég get vel verið honum samþykkur í því, að dr. Helgi sé færasti maður í sinni grein hér á landi. Þessar lækningar eru ekki sérgrein Helga Tómassonar. Hann hefur haft þá skoðun, að drykkjusjúklingar væru geðveikir, og því meðhöndlað þá svo. En honum hefur ekki tekizt að lækna drykkjusjúklinga, svo að ég viti. Kann að vera, að hann geti læknað þá frekar í þessari stofnun, en ólíklegt má það teljast.

Þá er sú spurning, hvers vegna hælið hafi verið flutt frá Kumbaravogi. Það var af því, að ekki var horfið að því meginatriði frá upphafi, — og hið sama á því við um flutning hælisins frá Kaldaðarnesi, — að læknir væri á hælinu, sem gætti sjúklinganna daglega, og hælið þannig byggt upp eins og hælið í Reykjalundi. Og ég sé ekki neinar vonir til, að hælið yrði ekki eins flutt frá Úlfarsá, ef lögin ná fram að ganga, úr því að það á ekki að byggjast upp eins og þeir menn, sem mest hafa kynnt sér málið, telja, að heppilegast sé. Ég skal láta afskiptalaust að ræða um drykkjuskap og strok sjúklinganna. Meginatriðið er það, að ekki var farið að á þann hátt, sem þurfti til að halda sjúklingunum í hælinu. — Skoðanir mínar og hæstv. ráðh. í meðferð sjúklinganna eru eins fjarlægar og suðrið er frá norðrinu. Hann vill enn skoða sjúklingana sem afbrotamenn og fasa með þá í samræmi við það. Það kom skýrt fram í hans ræðu. Hann taldi kjallara lögreglunnar alls ekki óboðlega vistarveru fyrir 16 ára unglinga og taldi það enga goðgá að geyma þá þar. En ég get ekki skilið, hvernig hæstv. dómsmrh. fer að verja það, að 15–16 ára unglingar, sem e.t.v. hafa orðið ölvaðir í fyrsta sinn á ævi sinni, skuli vera fluttir í aðra eins svínastíu. Ég hygg, að hæstv. dómsmrh., með öllu sínu valdi, geti ekki borið ábyrgð á öðru eins og því. Það er hræðileg staðreynd, að unglingar frá beztu heimilum hafa kannske verið þar gestir að staðaldri í allt að tveggja ára tíma, án þess að heimilin vissu um það. Ummæli hæstv. ráðh. um það, að ég mundi ekki vera viljugur að hlaupa til með minn einkabíl í hvert sinn, sem á þyrfti að halda, sýna ekki aðeins andúð hans, heldur fjandskap við till. Hæstv. ráðh. vildi láta í það skína, að mína till. væru þannig, að í raun og veru væri það enn meira mannúðarleysi að fara með sjúklingana eins og ég legði til. Hann talaði um 5. gr. í því sambandi. Náttúrlega má fella 5. gr. niður, ef á því strandar. Meginatriðið fyrir mér er það, að ekki verði farið með þessa menn eins og afbrotamenn, og mestu varðar, að gerðar verði breytingar til batnaðar á meðferð drykkjumanna hér í þessum bæ. Það er e.t.v. meira virði en að byrja á að byggja hæli, því að það er fyrst og fremst þessi meðferð, sem fyllir hælin. E.t.v. er hæstv. dómsmrh. hér undir meiri áhrifum frá sinni lögspeki en almennri mannúð. En ég er viss um það, að hann kemst að þeirri niðurstöðu, ef hann kynnir sér málið, að það væri stórkostleg breyting í rétta átt, ef bætt væri meðferð drykkjumannanna í Rvík. Það er ákaflega illa farið, að unglingar skuli vera beittir þessari meðferð, þó að það saki minna um suma hina eldri; og ég er ekki einn um þá skoðun. Hæstv. dómsmrh. spurði: „hvað á að gera við þessa menn, ef ekki að fara með þá í fangelsi?“ — Á meðan þessi hugsunarháttur ríkir, er ekki von, að vel fari. Það er einmitt allt annað, sem á að gera. Og ég hygg, að hv. 3. landsk. sé mér sammála um þetta atriði. Vill hann nú fá yfirlýsingu um það frá dómsmrh. og menntmrh., að ef frv. verði samþ., þá skuli verða farið öðruvísi með þessa menn en gert er í dag? Þarf að samþ. frv. til þess að koma fram slíkum breytingum?

Hæstv. dómsmrh. skoraði á mig að tilgreina þá menn, sem hefðu flutt mér slíkar sögur sem ég sagði áðan. Telur þá hæstv. ráðh. það beztu lausnina til að bæta úr þessu, að þeir menn verði persónulega dregnir inn í þessar umræður? Hæstv. ráðh. hlýtur að vera þessu kunnugri en hann lætur í veðri vaka, og e.t.v. gæti t.d. hv. þm. Seyðf., sem komst í kast við þessa menn og stóð í málaferlum út af því, upplýst hann eitthvað. Og hvað mundi svo hafast upp úr því, ef ég gæfi upplýsingar hér um þessa menn og sannanir fengjust um, að þeir hefðu framið misgerðir? Mundu ekki halda áfram sömu misgerðirnar? — Ég skal einhverntíma benda hæstv. ráðh. á ýmis mistök í þessum efnum og t.d. á vissa erfiðleika, sem hann varð að glíma við persónulega og beita til þess öllum sínum hyggindum og lagni að kippa þar í lag. En jafnvel þótt hæstv. ráðh. reki sig á, þá endurtekur sig sama sagan dag eftir dag. Og sama stefnan hlýtur að halda áfram, á meðan hæstv. dómsmrh. hefur slíkan hugsunarhátt. Hann mundi að vísu verða að viðurkenna; að mistök ættu sér stað, ef rannsókn færi fram, en það mundi bara engu breyta. Svo sagði hæstv. dómsmrh. það, sem mig undraði mest: ég á eftir að sjá, hvort muni verða meira fráhrindandi, sjúkrahúsið eða kjallarinn. Ég er nú alveg undrandi að heyra annað eins og þetta frá hæstv. dómsmrh. Ég er ákaflega hræddur um, að ef hann kæmist í þá aðstöðu að vita sína nánustu. t.d. börn sín 15–16 ára, á fyrsta stigi drykkjusýkinnar, að hann kæmist þá að þeirri niðurstöðu, að sjúkrahúsið væri þeim hollari vistarvera en kjallari lögreglunnar.

Ég sé nú ekki ástæðu til að ræða þetta frekar við hæstv. dómsmrh. Hann hefur lýst því yfir, að honum sé sama, þótt frv. nái fram að ganga, þótt hann hins vegar hafi enga trú á, að það geri það gagn, sem til er ætlazt, og verð ég að segja, að hann er ekki mikið að hugsa um ríkissjóðinn, ef honum er sama; þótt 9 millj. kr. sé fleygt í tilraun, sem hann hefur enga trú á. En hann um það.

Í sambandi við það, sem hæstv. menntmrh.. sagði, að hann vildi ekki, að stofnunin yrði slitin úr tengslum við geðveikrahæli, vil ég segja nokkur orð. Hann vill m.ö.o., að tekin sé upp þessi stefna, að byggð verði 8 manná hæli, þar sem gerðar yrðu þær tilraunir með' sjúklingana, sem dr. Helga Tómassyni þykja nauðsynlegar — og hælið yrði í grennd við Rvík, t.d. á Úlfarsá — og allir aðrir væru svo látnir bíða á meðan. Ætli þetta sé nú ekki nóg til að sýna hug hans til þessa máls? Hann hefur aldrei neitt viljað fyrir mál þetta gera: Þá taldi hann það misráðið að láta ríkissjóð bera allan kostnaðinn og rökstuddi það með því, að Rvíkurbær væri t.d. reiðubúinn til að leggja fram sinn hluta. Það getur nú vel verið, en engar samþykktir veit ég til, að liggi fyrir um það. Og ég verð að segja, að mér finnst það í litlu samræmi við annað, sem hæstv: menntmrh. hefur áður sagt og gert, ef hann vill nú fara að velta þarna þungri byrði yfir á sveitarfélögin. Eitthvað af þessum kostnaði kynni þá t.d. að falla á S-Múlasýslu, rétt eins og Rvík. Ég álít það fullkomið hneyksli að gera gildringar til að láta nokkur af þessum kostnaði falla á sveitarsjóðina, ekki sízt vegna þess, að áfengissalan, sem ríkissjóði hefur reynzt drýgst til tekna, á höfuðsökina á því hvernig komið er fyrir þessum mönnum.

Það, sem hæstv. menntmrh. hafði að segja annað, var lítið nema það, að ég yrði mér til skammar á degi hverjum og vissi aldrei, hvort ég segði satt eða ósatt. Lengra náðu sem sagt ekki röksemdir hæstv. ráðh., sem hann tefldi fram gegn rökum mínum. Ég held, að segja megi, að hann hafi aldrei komizt lengra hér á Alþ. í rökþrotum sínum og vesaldómi. Hæstv. menntmrh. sagði, að samkvæmt mínum till. væri hægt að halda sjúklingum fleiri vikur nauðugum á hæll. Ætli vært hægt að halda þeim lengur en t.d. þeim, sem hafa taugaveiki eða berkla? Ég hef heyrt, að tveimur heimilum hafi þannig verið haldið í sóttkví í 8–10 ár, og hefur það sjálfsagt þótt afsakanlegt af landlækni. Annað mál er, að Alþ. viðurkenndi, að rétt væri að veita einum þessara manna bætur, enda þótt réttmætt þætti að einangra heimilið. En ef það er viðurkennt, að rétt sé að einangra sjúklinga, sem tjón er fyrir þjóðfélagið að láta ganga lausa, getur það þá ekki eins átt við um áfengissjúklinga? Ég hef svo í mínum till. gert ráð fyrir því, að þeir ættu þess kost að rétta hlut sinn, ef hann væri borinn fyrir borð.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það eyðilegði málið að taka kostnaðinn beint úr ríkissjóði, en ekki af áfengisgróðanum. Hver er nú munurinn? Ég veit ekki til, að nokkur fjmrh. né Alþ. hafi neitað um nauðsynlegt fé til rekstrar sjúkrahúsa á Íslandi nokkurn tíma, og það stendur þá til að taka upp nýja háttu í því efni, því að annars þyrfti ekki að setja þetta ákvæði. Nú er það vitað, að jafnvel meiri hl. Alþ. vill vinna að því, að áfengisverzluninni verði lokað. Væri það þá fjandskapur við ríkið að vilja loka áfengisverzluninni? — Þetta eru rök hæstv. ráðh. og þannig leyfir hann sér að tala, eftir að hann hefur vísvitandi haldið málinu hér í n. síðan 30. nóv. og beðið form. n. að láta það ekki koma fram, fyrr en á síðustu stundu. Hæstv. ráðh. hefur alltaf komið þannig fram sem ábyrgðarlaus unglingur, og er ekki við að búast, að sú afstaða hans til málefna verði pilluð úr honum á einum eftirmiðdagsfundi.

Hv. 1. þm. N–M. get ég minnt á það, að ég margspurði hann í n., hvernig á því stæði, að þeir fengjust ekki til að gefa út nál. Það má segja, að ég hefði getað gefið út minnihlutanál. En ég vildi bíða þess, að hitt nál. kæmi, því að ef vitað hefði verið, að meiri hl. hefði viljað samþ. frv. óbreytt, hefði verið hægara fyrir mig að gefa út mitt nál. Það var látið i veðri vaka af form., að lítið bæri á milli. En menntmrh. vildi draga málið á langinn og bað um að láta það ekki koma fram fyrr en á síðustu stundu. Það er og einkennilegt, að hann skuli ekki hafa gert ráðstafanir til þess að taka þetta inn á fjárlögin núna, þegar þau hafa verið til umr. Hann sagði, að ekki hefði verið tekin heimild í 22. gr. fyrir hlutatryggingasjóðinn. Veit hæstv. ráðh. ekkert, hvað hefur verið að gerast í þinginu hér að undanförnu? Ég veit að minnsta kosti ekki betur en að það hafi verið gert. En hann veit ef til vil] ekki um svona lítinn póst. Í sambandi við þetta mál hefur mér hins vegar verið sagt, að það hafi verið sett í frv., að það tæki ekki gildi fyrr en 1. janúar 1950, af því að búið væri að ráðstafa öllum ágóða áfengisverzlunar ríkisins fyrir árið 1949. Ef það er rétt, að búið sé að ráðstafa öllum ágóða áfengisverzlunarinnar, sem hæstv. ráðh. hefur nú ekki þorað að viðurkenna opinberlega, þá er nauðsynlegt að fella þetta ákvæði í burtu og setja nýtt í staðinn, því að það getur ekki staðizt eins og það er. Það er ekki hægt að nota áfengiságóðann bæði til brúargerða og í annað. Þetta álít ég, að sé rétt að athuga nokkru nánar, áður en nokkuð er ákveðið. — Hv. form. n. álítur og heldur því fram, að stofnunin ætti að vera undir stjórn eins manns, og er það reyndar óskipt skoðun allrar n. Spurningin er því, hvort þetta á að vera aðalstarf eða aukastarf. Nú hefur hæstv. ráðh. ákveðið, að þetta skuli vera aukastarf, og sýnir það bara, að hæstv. ráðh. hefur ekki hugsað sér sama árangur og n., enda er ekki hægt að ná sama árangri með því, að einn maður hafi stjórnina sem aukavinnu. Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða um þetta atriði:

Þá ætla ég aðeins að minnast á rök hv. 3. landsk. Hann tók undir orð hæstv. dómsmrh. um það, að mín orð um læknana hefðu ekki við nein rök að styðjast. Ég ætla ekki að fara að gera það að neinu umtalsefni hér, ég get látið nægja að vísa til nefndarfundar um það atriði. Hv. þm. er vel kunnugt um, hvað fram fór á þeim fundi, og ég hef sömu sérstöðu í málinu nú og ég hafði þá, því að ég tel, að reynsla sú, sem fengizt hefur á þessum málum, gefi mér fullt tilefni til þess að vilja ekki, að málið sé lagt í hendur þessara manna, ef einhver árangur á að nást. Hv. frsm. er hræddur um, að engin hæli verði byggð, ef sveitarsjóðirnir eiga að bera kostnað af stofnun og rekstri. En ég vil þá leyfa mér að spyrja hann: Vill hann þá styðja frv. óbreytt? Ég á eftir að sjá, hvort hann greiðir atkv. með því, að frv. nái fram að ganga, og þá ætti líka að koma í ljós, hvort það er raunverulegur vilji fyrir hendi hjá ráðherra til þess að koma hælinu upp. Þá segir hann einnig, að það sé ranglega túlkað af mér að segja, að farið sé með þessa menn eins og afbrotamenn. Ég ætla aðeins að láta nægja að vísa í orð hæstv. dómsmrh., sem hann viðhafði hér áðan. Þá sagði hann, að það væri aðeins framkvæmdaatriði, hve mörg hæli yrðu reist og hvar þau væru. Hvers vegna er það þá ekki einnig um skóla, berklahæli o.s.frv.? Hvers vegna þarf að ákveða það, hve margir skólar skuli vera og hve mörg heilsuhæli? Nei, ég held, að það sé alveg nauðsynlegt að gera sér það ljóst, hvenær og hvar á að byggja þetta upp. Það verður að gera þetta fyrir fram, eins og gert var þegar Reykjalundur var byggður. Þar byrjuðu þeir á smáum húsum og héldu síðan áfram, því að þeir vissu það þá fyrir fram, hve mörg hús þeir ætluðu að byggja þarna. Það var allt gert samkvæmt fyrir fram gerðri áætlun, og þær áætlanir liggja fyrir á þingskjölum, svo að þm. geta séð þær sjálfir. Ég held því, að það sé miklu hyggilegra að gera sér það strax ljóst, hver kostnaðurinn muni verða, og gera um það áætlanir, heldur en að ráfa í myrkri og skilningsleysi um þetta, þegar framkvæmdir ættu að fara að hefjast. Og það er alveg augljóst, að það er ekki hægt að samræma það að hafa aðeins einn lækni yfir þessu og láta hann hafa það sem aukastarf. En það er auðséð, að hann ætlar sér, að þetta verði auka starf fyrir einn ákveðinn lækni hér í Reykjavík, Helga Tómasson, en ekki haft sem aðalstarf. Hann sagði meira að segja, að hann gæti betur fellt sig við frv. sjálft heldur en till. minni hl. Ég verð að segja, að ég skil ekki fyllilega, hvað hv. þm. á við með því, nema þetta hafi verið einhver útúrsnúningur. Annars vil ég taka það fram, að ég er fullkomlega tilbúinn til þess að ræða breyt. á þessari gr. um, að settar verði meiri takmarkanir en þar eru. Hins vegar finnst mér það mjög einkennilegt af hv. þm., þegar hann lýsir því nú yfir, að hann vilji heldur fá frv. óbreytt, og er þó nýbúinn að lýsa því yfir, að frv. komi ekki að neinu gagni, nema því sé breytt til muna, því að þá verði ekkert úr þessu nema dauður bókstafur. Hann er þá kominn yfir á skoðun hæstv. ráðh., að þetta sé ekki gert nema til málamynda, þetta sé aðeins auglýsingastarf. — Ég get svo lokið máli mínu að þessu sinni.