11.05.1949
Neðri deild: 106. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (1319)

203. mál, skemmtanaskattur og Þjóðleikhús

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Það var árið 1947, að þessi hv. d. fjallaði um frv. til l. um þjóðleikhús, félagsheimili og skemmtanaskatt. Þá voru hér margar ræður haldnar um málið og á fund menntmn., sem hafði málið til meðferðar, voru kallaðir þeir menn, sem höfðu forustuna um byggingu þjóðleikhússins. Gáfu þeir n. glöggar upplýsingar, og sannfærðust nm. allir um það, að áætlun þeirra væri á rökum reist, og sama máli mun hafa verið að gegna með þm. yfirleitt. Þeir gáfu okkur þær upplýsingar, að byggingu þjóðleikhússins yrði lokið snemma á árinu 1948 og að til þess að ljúka því verki þyrfti ekki meira fé en svo, að nægja mundi að fá skemmtanaskattinn 1947. Svo líður tíminn fram yfir áramót 1948 og þjóðleikhúsið er ekki fullgert og er meira að segja ekki fullgert enn, en okkur er sagt, að einhverjar vonir standi til þess, að það verði fullgert um komandi áramót. Ekki veit ég, á hve traustum rökum þær vonir eru reistar, en víst er um það, að búið er að ráða í þessu skyni nokkurt starfslið og meðal annars þjóðleikhússtjóra. Og þegar hann fer að gera sér grein fyrir fjárreiðum fyrirtækisins, kemur það upp úr kafinu, að æði mikið vantar til þess, að skemmtanaskatturinn 1947 hrökkvi til þess að greiða kostnaðinn, þ.e. þessar 4.200.000 kr., sem á vantar. Og það kemur í raun og veru meira upp úr kafinu, sem sé það, að þeir menn, sem sérstaklega hefur verið falin forstaða þessa verks, nefnilega þjóðleikhúsnefnd, hefur í þessum efnum ekki vitað sitt rjúkandi ráð, vissi ekki, hvað hefur gerzt eða var að gerast. Og það er fyrst eftir ýtarlega endurskoðun þjóðleikhússtjórnarinnar, að komið er upp úr kafinu, að það allra minnsta, sem þarf til þess að ljúka við bygginguna, eru 4.200.000 kr. Mér finnst ekki hlýða, að þetta mál fari svo fram hjá d., að henni sé ekki gerð full grein fyrir því, hve herfilega rangar upplýsingar henni voru gefnar fyrir tveimur árum. Mér liggur við að segja, að hér sé flestum metum hrundið. Sem sé, byggingin átti að vera tilbúin 1948, eftir að hafa verið í smíðum um mjög langan tíma, en nú átti að leggja síðustu hönd á verkið. Þetta varð ekki, eins og við vitum allir, og 17. apríl stendur hæstv. ríkisstj. frammi fyrir þeirri staðreynd, að til byggingarinnar vantar rúmlega 4,2 millj. Henni varð svo fyrst á að taka ca. 800 þús. kr., sem ganga áttu til rekstrarsjóðs 1948, og síðan um 400 þús., sem eftir voru í byggingarsjóði. En nú standa sakir þannig, að það vantar um 3 millj. til þess að hægt sé að fullgera bygginguna. Og hvar á nú að taka þetta fé? Ég verð nú að minna á, að Alþingi tók sér fyrir hendur að ráðstafa skemmtanaskattinum 1947 þannig: 40% til að standa straum af rekstri þjóðleikhússins, 10% til kaupa á kennslukvikmyndum og bókasafna og 50% til félagsheimilanna. Það er alveg víst, að sú ákvörðun Alþingis um svo ríflegan hlut til félagsheimilanna mæltist mjög vel fyrir og jók áhugann á að koma þeim upp, jafnframt sem hún mætti mikilli þörf. Það er því alveg víst, að Alþingi gerði rétt í að verja svo miklum hluta til félagsheimilanna, og ég vil ekki leyna því, að ef Alþ. sér sig knúið til þess að skerða þennan hlut, þá er það raunar brigðmæli, því að Alþ. gaf 1947 loforð um, að þessi upphæð skyldi ganga til félagsheimilanna. Út frá þessu er ég á þeirri skoðun, að mjög hæpið sé að mæta þessari þörf þjóðleikhússins, sem fram er komin vegna rangra upplýsinga, með því að skerða félagsheimilasjóðinn. Mér hefði þótt miklum mun eðlilegra, að hæstv. ríkisstj. fengi heimild til lántöku, svo að hægt væri að fullgera húsið,. t.d. 15–20 ára lán og hefði það verið greitt niður með rekstri hússins. Nú hefur hæstv. ráðh. tekið alveg af um það, að hæstv. stj. geti tekið slíkt lán, en mér finnst sú saga ekki sennileg, því að hús, sem kostar um 13 millj., ætti ekki að vera sérlega illa statt, þótt það skuldaði 3 millj. Undir rekstri þess standa þeir, sem húsið sækja, svo að ég hygg, að honum sé ekki stofnað í neinn voða, þótt tekið sé fasteignaveðslán. En eins og ég hef áður sagt, hefur hæstv. ráðh. tekið alveg af um þetta og fullyrt, að ekki væri hægt að fá lán, nema hægt væri að benda á alveg öruggan tekjustofn. Hann hefur og talið enga leið færa til þess að ljúka smiði hússins aðra, en þá að skerða hlut félagsheimilasjóðsins af skemmtanaskattinum. Mér fyndist nú eðlilegast, að tekið væri 10 ára lán, svo að ekki þyrfti að skerða hlut félagsheimilasjóðsins nema um 15% af skemmtanaskattinum, þannig að tillagið til félagsheimilasjóðs verði 35%, rekstrarsjóðs þjóðleikhússins 30% og til að ljúka byggingu þjóðleikhússins 25%. Þessu mundi ég fylgja, ef fram kæmi um það brtt. En hitt er rétt, að til samkomulags féllst ég á að skrifa undir nál. með þeim fyrirvara, er þar greinir. Þá er það varðandi þskj. 612, sem ég vildi fara um nokkrum orðum. Í upphaflega frv. á þskj, 612 er gert ráð fyrir, að 25% af skemmtanaskattinum renni til félagsheimilanna. Þetta hefur n. lagað þannig, að hún gerir ráð fyrir, að þangað renni 40%, og hugsar sér, að það gerist með því, að tekið sé 5–6 ára lán til byggingarsjóðsins og einnig með því, að gengið verði eitthvað á rekstrarsjóð þjóðleikhússins, sem ég tel þó hæpið, en hef gengizt inn á til samkomulags. Afstaða mín er því sú að fylgja brtt., sem fer í þá átt, að tekið verði lán til að fullgera húsið og minna skarð verði höggvið í félagsheimilasjóð. Ég vil undirstrika, að Alþ. hefur verið blekkt með því, að sagt var hér á þingi 1947, að húsið yrði fullgert 1948, og ef það fengi að halda öllum skattinum, mundi það nægja fyrir öllum kostnaði. Og ég vil ítreka, að það er hið mesta alvörumál, að þær skýrslur eða áætlanir, sem Alþingi fær frá opinberum starfsmönnum, eru gersamlega rangar. Þetta er þó ekki sök hæstv. ríkisstj., heldur trúnaðarmanna hennar, og bera þeir þunga sök, sem ekki er rétt að þegja yfir.