12.05.1949
Sameinað þing: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í B-deild Alþingistíðinda. (1474)

42. mál, fjárlög 1949

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Við 2. umr. flutti ég ásamt hv. 3. landsk. nokkrar brtt. til hækkunar á framlagi til brúa og hafna í Norður-Ísafjarðarsýslu. Það, að við höfum ekki endurflutt þær till. við 3. umr., en við tókum þær aftur við 2. umr., er ekki af því, að við höfum ekki talið brýna nauðsyn á því að fá þær hækkanir, sem þar er farið fram á, heldur af hinu, að við gerum ráð fyrir því varðandi hafnarframkvæmdir, að það verði að fá fé til þeirra úr hafnarbótasjóði, og hins vegar, að ekki er talið mögulegt að fá hærra framlag til brúa, eins og líkur eru til, að heildarsvipurinn verði á fjárl. Við höfum þess vegna orðið að láta kyrrt liggja um fjárveitingar til verklegra framkvæmda, vega, hafna og brúa. En við gerum hins vegar ráð fyrir því, að brýn þörf sé þeirra hafna, sem verst hafa orðið úti hjá hafnarbótasjóði, og teljum okkur hafa fengið loforð fyrir því, sem geri það að verkum, að við getum látið undan fallast með að flytja brtt. um þann lið fjárl. að þessu sinni.

Við höfum hins vegar, ég og hv. 3. landsk., flutt 3 brtt. varðandi okkar hérað. Þessar brtt. eru á þskj. 704. Ein þeirra er nr. XVII, og er hæstv. atvmrh. 1. flm. að henni með okkur.

Ég get um rök fyrir till. þessari vísað til þess, sem ég sagði við 2. umr., en auk þess mun hæstv. atvmrh. gera grein fyrir þeirri viðbót, sem nú er flutt, nefnilega að öðrum manni verði veittar hliðstæðar bætur og þeim manni, sem við höfðum áður lagt til, að fengi þær, Pétri Jónatanssyni bónda í Engidal.

Um XXII. till. við 22. gr., um að verja allt að 50 þús. kr. til bjargráðaráðstafana í Grunnavíkur- og Sléttuhreppum og að heimila ríkisstj. að verja allt að 30 þús. kr. til kaupa á snjóbíl til samgöngubóta fyrir byggðina norðan Skorarheiðar í Norður-Ísafjarðarsýslu, get ég einnig vísað til ræðu, sem ég hélt við 2. umr. Vil ég aðeins leggja áherzlu á varðandi þessa tvo liði, að mjög brýna nauðsyn ber til þess, að þessi fjárveiting verði samþ. og þannig snúizt af skilningi við þeim einstæðu vandamálum, sem þessar byggðir eiga við að stríða.

Þetta eru þær till., sem ég stend að ásamt hv. 3. landsk. Þá hef ég einnig flutt á sama þskj. ásamt hv. þm. V-Húnv., hv. 9. landsk. þm., hv. 6. þm. Reykv., hv. 4. þm. Reykv. og hv. þm. Snæf., till. um að greiða Örlygi Sigurðssyni listmálara 15 þús. kr. byggingarstyrk. Ég hef áður gert grein fyrir þessari till., en vil aðeins ítreka tilmæli og ósk til hv. þm. um það að láta þennan unga listamann njóta svipaðra hlunninda og aðrir listamenn á undan honum hafa notið í byggingarmálum þeirra. Enn fremur vil ég mæla með því, að till., sem ég er meðflutningsmaður að, á sama þskj., og hv. 4. þm. Reykv. er 1. flm. að, verði samþ., þ.e. að veita Gunnlaugi Ó. Scheving 15 þús. kr. byggingarstyrk. Loks vil ég aðeins drepa á till., sem ég er meðfIm. að ásamt hv. þm. Snæf., hv. þm. V-Ísf. og hv. þm. Str., um að styrkur til skálda, rithöfunda og listamanna verði hækkaður um 69 þús. kr. Hæstv. Alþ. lækkaði þennan styrk við 2. umr. frá því, sem frv. fjmrh. gerir ráð fyrir, um 75 þús. kr., og var sú till. frá fjvn. samþ. með litlum atkvæðamun. Það er ekki nauðsyn, að ég mæli fyrir þessari till., vegna þess að það verður gert af 1. flm. En ég vil láta í ljós þann vilja minn, að þessu verði breytt til samræmis við frv. hæstv. fjmrh. og að skáld, rithöfundar og listamenn hafi sömu styrkupphæð og þeir fengu í fjárl. s.l. árs.

Ég hef þá gert grein fyrir þeim till., sem ég er ýmist 1. flm. að eða meðfim. að, og vil ég að öðru leyti varðandi þær till., sem ég flutti við 2. umr., vísa til þeirra raka, sem ég þá flutti fram fyrir þeim.