12.05.1949
Sameinað þing: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (1478)

42. mál, fjárlög 1949

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Á þskj. 704, XI. lið, eru tvær brtt. frá okkur þm. Skagf. og hæstv. atvmrh. Sú fyrri er við 16. gr. og er um það, að veitt sé til Ólafs Sigurðssonar á Hellulandi 20 þús. kr. Ég vil skýra þessa till. lítillega með því að minna á það, sem Alþ. er að vísu kunnugt, að Ólafur hefur verið í þjónustu ríkisins lengi, lengst sem leiðbeinandi um klak og fiskirækt, en þegar veiðimálastjóraembættið var stofnað og í það skipaður sérfræðingur á þessu sviði, hvarf Ólafur frá starfinu, en var ráðinn með 25 þús. kr. fjárveitingu til að hafa leiðbeiningu um æðarvarp. Það vita allir, að það eru einhver allra skemmtilegustu hlunnindin, sem land okkar hefur. Það er orðið lítið um æðarfuglinn í heiminum, og liggur við, að hann sé útdauður, svo að heiður okkar liggur við, að svo verði ekki. Það eru mikil hlunnindi að æðarvarpinu, og borgar sig að kosta nokkru til. Það er vitað, að hægt hefur verið að rækta lítið varp, svo að það verði til stórnytja, og þetta er hægt enn, þó að vörpin hafi eyðilagzt af vissum ástæðum, svo sem hernaðarundirbúningi hér í nágrenni Rvíkur. Enn má auka það úti um land og jafnvel koma því upp þar, sem það ekki er. Þess er ekki að vænta, að hægt sé að benda á mikinn árangur af starfi Ólafs í þessi tvö ár, sem hann hefur unnið að þessu, en hann hefur mjög athugað málið og eytt miklum tíma í að ferðast um landið og kynnt sér nýjar aðferðir við hreinsun dúnsins, þar sem gamla aðferðin að handhreinsa hann er of dýr nú orðið. Hann hefur kynnt sér þessi mál bæði utanlands og innan, og mun nú verið að setja upp slíka stöð á Akureyri með nýjum vélum. Ég tel miður farið, að þessi liður skuli ekki hafa verið settur í fjárlögin nú, hvorki af hæstv. ríkisstj.fjvn., og hefur lagfæring á þessu ekki fengizt enn sem komið er, og því flytjum við þessa brtt. Þess ber að gæta, sem hv. þm. er raunar kunnugt, að bráðum er komið mitt fjárlagaár, og þar sem hann er starfsmaður ríkisins, hefur hann fengið laun það, sem af er árinu, og verður sennilega ekki sagt upp fyrirvaralaust, eða það væri meiri harðneskja en við eigum að venjast af ríkinu. Og þar sem búið er að kosta nokkuð til þessa starfs og verður enn um stund, þá væri það að falsa staðreyndir að taka ekki eitthvað inn á þennan lið. Við leggjum því til, að til þessa verði lagðar 20 þús. kr., og er það 5 þús. kr. lægra en verið hefur 2 undanfarin ár, og held ég, að hægt muni að draga það úr kostnaðinum. Ég vona, að Alþ. sannfærist um, að ekki sé annað fært en taka þetta inn á fjárl., bæði vegna starfsins og þess, að þegar er búið að greiða nokkuð af laununum, og hlýtur að verða svo enn um stund, jafnvel þótt brtt. verði felld. Ég mun nú ekki ræða þessa brtt. frekar.

Þá er ég einnig ásamt sömu þm. flm. að annarri lítilli brtt., sem er einnig undir XI. lið á sama þskj., b-liður: Að Loðdýraræktarfélagi Íslands verði veittar 6 þús. kr., eins og það hefur haft, en var fellt úr fjárl. nú. Félagsskapnum hefur hnignað nú undanfarið vegna þess, að loðdýrarækt hefur dregizt saman undanfarin ár. En nú hefur orðið nokkur skinnasala þetta ár, og finnst mér hart að fella niður þessa litlu upphæð meðan félagið er við líði, og leggjum við því til að þessi upphæð verði aftur tekin upp, þar sem hún er svo lítil, að hún breytir engu um afkomu fjárl. Og er ástæðulaust að orðlengja þetta frekar, og vona ég, að till. verði samþ.

Á sama þskj., XXIV.-lið, er till. frá okkur þm. Skagf. og hv. þm. Siglf. um heimild til að greiða Skafta Stefánssyni á Siglufirði 27 þús. kr. vegna halla á rekstri m.b. Mjölnis við flutninga um Skagafjörð árið 1947. En ástæðan til, að við förum fram á þessar bætur, er í örfáum orðum sú, að þetta er einn af þeim flóabátum, sem undanfarið hafa gengið með styrk úr ríkissjóði. En á bátnum varð svo tilfinnanlegur halli þetta ár, sem Skafti hefur ekki fengið endurgreiddan, að hann verður af þeim ástæðum fyrir tilfinnanlegu tjóni. Þetta er því tilfinnanlegra sem Skafti er fátækur maður, og þetta var hans helzta lífsframfæri, en Skafti er, eins og allir vita, sem til þekkja, annálaður dugnaðarmaður. Á þessu sumri var vegurinn yfir Siglufjarðarskarð opnaður, og viðurkennir Skipaútgerðin, að hallinn stafi af því. Það er því réttlátt, að ríkið greiði honum þann halla, sem hann hefur orðið fyrir. Það var að vísu gleðilegt, að leið skyldi opnast yfir Siglufjarðarskarð, en það hafði óþægilegar afleiðingar fyrir þennan mann, sem hér um ræðir. En þetta hefur ekki fengizt lagfært hjá samgmrh., en við, sem að þessari till. stöndum, viljum rétta hlut Skafta Stefánssonar. Þá vil ég benda á, að slíkar greiðslur eru ekkert einsdæmi, því að í 22. gr. fjárlagafrv. er heimild til að greiða h.f. Skallagrími í Borgarnesi 40 þús. kr. vegna halla á m.s. Víði árið 1947. Ég skil ekki þann halla, sem orðið hefur á Víði 1947, og eru ekki færð rök fyrir þeim halla, en ég hef fært eðlileg rök fyrir tjóni Skafta Stefánssonar, sem stafaði af því, að ný leið var opnuð til yfirferðar. Og úr því að Alþ. veitir sterku félagi 40 þús. kr., þá getur það ekki verið þekkt fyrir að neita fátækum útgerðarmanni um smábætur fyrir sams konar tjón á sama ári, sérstaklega þar sem hægt er að færa eðlilega ástæðu fyrir hallanum. Við flm. væntum því og teljum ekki annað sæmandi fyrir Alþ. vegna þess fordæmis, sem það hefur gefið, en veita þessa upphæð, sem við förum fram á.

Þá er ég meðflm. að fleiri till., og vil ég ekki þreyta hv. þm. á að ræða þær, þar sem aðrir munu mæla fyrir þeim. Það var við 2. umr. fjárl., að við þm. Skagf. fluttum brtt., sem við tókum þá aftur til 3. umr., og vil ég aftur minnast lítillega á hana. Hún var á þskj. 488, IX. liður, og lögðum við þar til, að í stað 100 þús. kr. til hafnar í Hofsósi kæmi 150 þús. kr. Ég ætla ekki að endurtaka rök fyrir því, en það var byggt á loforði frá ráðuneytinu að leggja til, að þessi fjárveiting fengist næstu 3 árin, enda hvílir allt á, að svo verði. Nú er um það talað að veita 50 þús. úr hafnarbótasjóði auk þessara 100 þús. á fjárlögum. Við munum sætta okkur við þetta og vonum, að þetta megi teljast öruggt, en það verður að vinna að hafnarbótum í Hofsósi í sumar, ef ekki á að eyðileggjast það, sem gert var þar í fyrra. Það hefði verið betra að fá 150 þús. á fjárl. og von í hafnarbótasjóði, en ríkisstj. og fjvn. hafa komið sér saman um þetta, og það þýðir ekki að deila við dómarann. Við verðum því að sætta okkur við það næstbezta. Þá bárum við einnig fram till. um 50 þús. kr. framlag til húsmæðraskólans á Löngumýri. Við væntum þess, að fást mundi samkomulag milli ríkisstj. og fjvn. um þetta framlag til skólans. Það nálgast eins dæmi, að ein kona komi upp slíku menntasetri, sem kostað hefur um millj., og fengið aðeins 50 þús. kr. fjárveitingu, og ég vænti, að þeir, sem trúa og dá einstaklingsframtakið, vilji styðja slíkan dugnað. En þar sem undirtektir undir þetta voru daufar, sáum við okkur ekki annað fært en rifa seglin og slá í félag með þingmönnum Árnesinga, sem voru með framlag til skóla Árnýjar Filippusdóttur í Hveragerði, og hefur það leitt til þess, að við höfum í félagi farið fram á á þskj. 681. VIII, að á 22. gr. yrði heimilaður 50 þús. kr. byggingarstyrkur til beggja þessara skóla, 25 þús. til hvors. Það hefur þegar verið mælt fyrir þessari till. af hv. 2. þm. Árn., og þarf ég ekki að hafa fleiri orð um það, og þetta er svo lítil upphæð, að ég trúi ekki, að Alþ. neiti þessum merku menntastofnunum um svo smávægilega aðstoð. Skólarnir eru nú fullir af nemendum þrátt fyrir erfið skilyrði. Á Löngumýri munu nú t.d. vera 35 nemendur, og hefur forstöðukonan, Ingibjörg Jóhannsdóttir, komið skólanum upp af eigin rammleik. Við treystum því, að þessi litla upphæð verði veitt til skólanna. Ég hef nú mælt með brtt. mínum og læt því lokið máli mínu.