12.05.1949
Sameinað þing: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

42. mál, fjárlög 1949

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég á hér nokkrar brtt. við fjárl., flestar ásamt öðrum hv. þm. 1. till., sem ég á, flyt ég með þeim hæstv. atvmrh. og hv. þm. N-Ísf. og er á þskj. 704, XVII. Hún er þess efnis, að stj. heimilist að greiða tveim nafngreindum bændum, er urðu fyrir því, að heimili þeirra voru sett í sóttkví, öðrum 5 þús. kr., en hinum 12 þús. kr. Á Alþ. í fyrra var samþ. að veita bónda í Norður-Ísafjarðarsýslu 12 þús. kr. vegna langvarandi sóttkvíar á heimili hans. Mér er ekki kunnugt um, að Pétur Jónatansson hafi lent í hinu sama, en það er staðreynd, að hann lenti í hinu sama í 12 ár. Varð hann að hætta sölu mjólkur í mörg ár, og þegar kvínni var aflétt, varð hann að breyta búi sínu í upprunalegt horf, kúabú. Það eru litlar sárabætur, sem bændurnir fá með þessu, en mér finnst, að veita ætti þetta eins og í fyrra. — Ég held, að það þurfi ekki fleiri orð um þessa till., en treysti því, að hún verði samþ.

Þá er ég einn með till. á þskj. 704, XX. Við 2. umr. fjárl. bar ég fram till. um, að veittar yrðu 30 þús. eða 40 þús. kr. til að halda uppi kennslu, er svari til I. bekkjar menntaskóla, í sambandi við gagnfræðaskólann á Ísafirði veturinn 1949–50. Sú till. var tekin aftur, en er nú flutt aftur og hljóðar á 30 þús. kr., sem áður var varatill. Komi hún á 22. gr. l. Þannig háttar til á Ísafirði, að þar er miðskóladeild, og 20 nemendur ganga þar að vori undir miðskólapróf. Eiga þeir þá rétt á að ganga upp í 1. bekk menntaskóla, ef þeir standast prófið. En þeir mundu stöðvast hinir efnaminni, ef þeim gæfist ekki kostur á að stunda nám heima hjá sér.

Í þriðja stað flyt ég ásamt hv. þm. N-Ísf. till. um að verja allt að 50 þús. kr. til bjargráðaráðstafana í Grunnavíkur- og Sléttuhreppum. Þetta var heimilað á síðasta ári, en framkvæmdum varð þá ekki lokið, og þarf nú viðbótarfjárhæð að vera fyrir hendi, til þess að greiða mætti upp lánið og ljúka framkvæmdum. — Þá er 2. liður á sama þskj., 704, XXII, um að verja allt að 30 þús. kr. til kaupa á snjóbil til samgöngubóta fyrir byggðina norðan Skorarheiðar í Norður-Ísafjarðarsýslu. Þessi byggð á erfitt um samgöngur við Ísafjarðarkaupstað og verður að hafa samband fyrir Strandir og Horn, og er þá oft samgönguteppa, svo að vikum og jafnvel mánuðum getur skipt. Hér er hins vegar um stutta heiði að fara fyrir Furufjarðarbotn, og þá verður sjóleiðin styttri til Ísafjarðar. Tækist því á þennan hátt að opna leiðina norðan Skorarheiðar, þá væri stórkostlega bætt aðstaða manna í þessum hluta Grunnavíkurhrepps. — Á þskj. 685 flytjum við hv. þm. V-Húnv., hv. 6. þm. Reykv., hv. þm. A-Sk. og hv. 1. þm. Skagf. till. í tveim liðum, að inn í texta fjárl. sé bætt undirliðum, í a-lið hennar, að við Áfengisverzlun ríkisins komi svo hljóðandi aths.: „Enginn viðskiptamaður má njóta sérréttinda hjá verzluninni, hvorki um verðlag á áfengi né annað, nema ákveðin séu í lögum.“ B-liður á við Tóbakseinkasöluna, en er samhljóða hinum að öðru leyti. Þarf eigi að fara mörgum orðum um þessa till. Öllum hv. þm. er kunnugt um, að sömu menn hafi borið fram þáltill. unz, að sérréttindi þau, sem einstökum mönnum hafa verið veitt um áfengis- og tóbakskaup, yrðu felld niður. Þessi till. hefur eigi komið til umr., og sáum við ekki aðra leið til að greiða fyrir þessu, en bera fram þessa brtt. við fjárl. — Að síðustu ber ég ásamt þeim hv. þm. Ísaf. og hv. þm. N-Ísf. fram brtt. við 12. gr. fjárl., X. lið, að nýr liður bætist við, þess efnis, að til sjúkrahúss á Ísafirði skuli veittar kr. 100 þús. Er þetta á þskj. 718. Á fjárl. eru nú greiddar stórar upphæðir til annarra sjúkrahúsa, bæði á Akureyri og í Reykjavík. Ísafjarðarkaupstaður á stóra byggingu fyrir 40–50 sjúklinga, en hún þarf nú nýrrar aðgerðar með. Ríkið hefur eigi greitt neitt að ráði til þessa húss. Ísafjarðarkaupstaður réðst þá í að reisa það fyrir eigið fé, en það er nú rekið með miklum halla frá ári til árs. Mér hefur verið tjáð, að hlutaðeigendur telji þessa viðgerð óumflýjanlega. Bæjarfélagið hefur lagt fram fé, en sagt er, að það risi ekki undir kostnaðinum eitt sér. Þegar alls er gætt, tel ég óumflýjanlegt að umbæta þetta hús, en til slíkra húsa verður að gera strangari kröfur, en annarra. Ég afhendi hæstv. forseta hér nýja till., en mun bíða með að ræða hana, þar til er afbrigði hafa verið veitt. — Ég læt þá máli mínu lokið, en vænti þess, að till. mínar fái góðar undirtektir, þegar til atkvgr. kemur, hinnar miklu og alvarlegu stundar.