11.11.1948
Efri deild: 11. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

46. mál, eyðing svartbaks

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Landbn. d. hefur athugað þetta frv., sem hér liggur fyrir, og leggur til, að það verði samþ. óbreytt. Þetta mál hefur áður verið flutt hér á þinginu, þ.e.a.s. sams konar framlenging á þessum l., og einnig reifaði ég málið við 1. umr. hér í hv. d. Ég tel því ástæðulaust nú að teygja lopann um þetta atriði, mönnum er þetta mjög vel kunnugt, og ég geri ráð fyrir því, að það muni fáir hv. dm. komnir á þá skoðun, að svartbakurinn sé nokkurs konar fósturfé æðarfuglsins og hjálpi til að koma þeim stofni á og halda honum við með drápi sínu. En það vita allir, sem horft hafa á aðfarir veiðibjöllunnar, að hún tekur ekki aðeins þá veiklaðri einstaklinga, heldur er hún yfirleitt tilbúin til að taka fuglinn og drepa hann. Menn ættu að horfa á, þegar æðarkollan labbar með ungahópinn niður að sjónum og svartbakurinn sveimar yfir og steypir sér niður að þeim og gleypir ungana hvern af öðrum og verður ekki meint af, þótt hún hirði 4–5 stykki í einu. — Ég get búizt við því, að það komi fram svipuð skoðun um það, að minkurinn sé nokkurs konar fósturfé hænsnanna. En ég skal ekki deila um þetta. N. er öll sammála um að samþ. þetta frv. óbreytt, og ég veit, að hugur hæstv. landbrh. mun ekki vera ólíkur þeim hug, sem landbn. hefur í þessu máli.