18.10.1948
Neðri deild: 5. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

5. mál, niðursoðin mjólk

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. gat þess, að hann teldi það nokkuð varhugavert að hafa innflutningsbann á þurrmjólk, eins og farið er fram á í þessu frv., og vék jafnvel að því, að ástæða væri til að breyta til, að því er snertir innflutningsbann á niðursoðinni mjólk, vegna þess að hún væri alltaf nægilega mikil fyrir hendi. Um það hef ég ekki þekkingu, hvað mikill hefur verið skortur þeirrar vöru. En mér finnst það liggja í augum uppi, að gilda verður sama í þessu efni um niðursoðna mjólk og þurrmjólk. Hvort tveggja varan er framleidd í fyrirtækjum, sem kosta mikið. Og hvað þurrmjólk snertir er hægt að fullnægja eftirspurninni, eins og hún hefur verið að undanförnu. Því var lofað, fyrst af búnaðarráði og síðan af framleiðsluráði landbúnaðarins til handa þurrmjólkurstöðinni á Blönduósi, að reynt skyldi að sjá um, þegar þessi framleiðsla yrði hafin, að ekki yrði flutt inn þessi vara til að keppa við mjólkurstöðina, að því tilskildu, að hún gæti fullnægt eftirspurn. Nú hef ég fengið upplýsingar um það frá forstjóra mjólkurbúsins á Blönduósi, að aldrei hafi verið spurt um þurrmjólk af þeirra hálfu, sem höfðu innflutning þennan á hendi. Sá innflutningur hefur þá farið fram án vitundar framleiðsluráðs landbúnaðarins og einnig án vitundar landbrh.

Um það, að hér sé um aðrar tegundir að ræða, þá eru ekki til af þurrmjólk nema tvær tegundir. Annars vegar þurrmjólk úr undanrennu, og hins vegar úr nýmjólk. Báðar þessar tegundir eru framleiddar á Blönduósi. Og sá innflutningur, sem hér mun hafa átt sér stað, mun vera allur frá Danmörku, og er ekki því til að dreifa, að það sé betri vara, því að hún er framleidd í sams konar vélum og þeim í mjólkurbúinu á Blönduósi. Hér er því aðeins um það að ræða, að viðskiptanefnd hefur leyft innflutning til að keppa við það bú, sem nýlega hefur verið stofnað, og vinna gegn því, að það geti komið út sinni framleiðslu. Enda sýnir það sig, eins og ég gat um áðan, að um leið og flutt hefur verið inn á 18. tonn af þurrmjólk á þessu ári, hefur safnazt upp milli 40 og 50 tonn hjá því mjólkurbúi, sem hefur framleitt þessa vöru og fullnægt þeirri þörf, sem er fyrir hendi. Ég tel þess vegna, að þarna sé um mjög slæma frammistöðu að tala frá hálfu þeirra nefnda, sem hlut eiga að máli.

Varðandi það, sem hv. 2. þm. Reykv. talaði um, að hér mundi vera um innflutning frá Ameríku að ræða, þá held ég, að svo sé ekki, heldur allt frá Danmörku. En ég vænti, að það sé nægilega ljóst, hvað hefur hér skeð, til þess að hv. d. taki þessu litla frv. vel og láti það ganga greiðlega gegnum Alþingi.