29.11.1948
Neðri deild: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. frsm. sjútvn., að dráttur á þessum málum sé orðinn allt of mikill. Það er orðið mjög tilfinnanlegt, hve þessi dráttur er orðinn mikill, vegna þess að það virðast allir hafa verið á því, frá þeim tíma er séð var, hvernig síldarvertíðin fór, að ekki yrði komizt hjá að veita bátaflotanum einhverja aðstoð. Og vitanlega er tilgangslaust að veita skipum aðra aðstoð en þá, sem getur orðið til þess, að skipin komist af stað á veiðar. Það þarf ekki að veita þeim skipum svona aðstoð, sem hvort sem er komast ekki af stað til veiða. — En þegar allir eru sammála um að veita bátaflotanum aðstoð, þá er ákaflega misráðið að draga þetta svona lengi. Nú er þegar farið að ganga að bátum vegna skulda, en við það fellur aukakostnaður á þessar kröfur, sem á að borga, oft svo skiptir tugum þús. kr., sem hægt hefði verið að komast hjá, ef með festu hefði verið á málum tekið og ákveðið hefði verið strax að vertíðarlokum, hvernig taka skyldi á þessum erfiðleikum. Þótt ekki hefði verið búið að gera annað en að ákveða, á hvern hátt hægt væri að hjálpa bátunum, þá hefðu þeir getað fengið fyrst þá nauðsynlegu hjálp, sem nægt hefði til þess, að þeir gætu komizt hjá, að höfðuð væru á þá mál út af kröfum, sem auka geysimikið kostnað. Og illt er til þess að vita, að þegar þessi hjálp kemur frá því opinbera, þá skuli samt sem áður þúsundir króna fara í þessa milliliði, lögfræðinga og þess háttar, sem alls ekki hefði þurft að greiða, ef á þessum málum hefði verið tekið með meiri festu. — Og það er einn af þeim göllum, sem eru á þessu frv. eins og það liggur fyrir, sem vafalaust verður athugað í sjútvn. síðar, að þessi aðstoð er bundin við það, að fjárlög séu afgreidd. Þetta eru sem sagt till. um ráðstöfun á fé, sem veitt kann að verða á fjárl. Þetta gerir það að verkum, að menn vita ekkert ákveðið, hvað úr þessu verður, fyrr en búið er að afgr. fjárlög. Og þetta er eitt af þeim atriðum í frv., sem þarf að breyta. Þegar Alþ. samþ. nú þetta frv., þá þarf það að vera lög, sem eru ákvörðun um, hvað gera skal fyrir báta, sem eru illa komnir fjárhagslega vegna vertíðarinnar 1948 ofan á þau áföll, sem þeir eru búnir að fá áður.

Svo eru nokkur atriði önnur, sem þarf að taka til athugunar í sambandi við afgreiðslu þessa máls, svo sem það, sem ekki er hægt annað en að hafa fyrir augum, að þegar þarf að veita nú í þriðja skipti á fjórum árum styrktarlán til útvegsins og bátaútvegurinn hafði engar tekjur af síldarvertíðinni í sumar yfirleitt þegar svona er komið, þá þýðir ekkert annað en að horfast í augu við þá staðreynd, að styrktarlánin frá 1945 og 1947 til bátanna eru tapað fé og við eigum ekki að leggja á útgerðina að standa undir þeim lánum. Við eigum að horfast í augu við staðreyndir og gefa þessar skuldir eftir, því að það er algerlega séð, að útgerðin getur ekkí staðið við að greiða þessi lán, nema eitthvert óskaplega mikið síldarmagn komi, sem útgerðin geti notað sér. En ríkisstj. hefur ekki séð sér fært að gera þetta, þó að fjöldi báta hafi ekki getað staðið við skuldbindingar sínar um greiðslu vaxta og afborgana af þessum styrktarlánum. Samt sem áður hefur ríkisstj. ekki gengið að bátunum vegna vanskila þessara styrktarlánþega. Og ég efast ekkert um, að það sé álit meiri hl. þm., að ekki sé forsvaranlegt að ganga að þeim, sem þessi styrktarlán hafa fengið, en ekki getað staðið í skilum vegna getuleysis, því að allir vita, að þessi styrktarlán voru ekki nema fyrir nokkrum hluta af þeim töpum, sem bátaútvegurinn varð raunverulega fyrir.

Þá er enn eitt atriði, sem þarf að taka tillit til við svona hjálp, það eru ákvæðin um vexti af öllum skuldum útgerðarinnar. Í dýrtíðarlögunum frá síðasta þingi voru ákvæði um vexti þannig, að meðan þau lög væru í gildi, mætti ekki taka hærri vexti en 4% af þessum lánum. En bankarnir hafa gengið fram hjá þessu ákvæði. Þeir hafa lánað rekstrarlán til þriggja mánaða, og þegar þau hafa ekki verið borguð, þá hafa þau verið framlengd með venjulegum víxilvöxtum, 61/2%, þannig að þetta ákvæði um 4% vextina hefur ekki í reyndinni verið nema sáralítil ívilnun gagnvart útgerðinni, sem vitanlega hefur hverfandi áhrif á afkomu bátanna. Hinu ber ekki að neita, að útgerðin er ákaflega skuldug orðin og verður að borga 61/2% í vexti af mjög miklum hluta skulda sinna. Og hver maður sér, að slík vaxtabyrði er útgerðinni gersamlega ofviða. Og ég tel, að í þessu sambandi þurfi að ákveða ekki aðeins lækkun vaxtanna framvegis, heldur einnig þurfi að gera bönkunum það að skyldu að greiða útgerðinni nokkurn hluta þeirra vaxta, sem henni hafa verið reiknaðir, til þess að létta af henni skuldum, því að mikill hluti af öllum skuldum útgerðarinnar eru einmitt vaxtaskuldir.

Það væri fróðlegt að fá að heyra, hvað líður þeirri samkomulagsviðleitni, sem hæstv. fjmrh. hefur verið að reyna að koma til leiðar við bankana báða um aðstoð við síldarútveginn. Og mér skilst, að það hafi verið ein af ástæðunum fyrir því, að þetta frv. hefur ekki komið fram fyrr, að hann hafi verið að leitast við að koma þessu samkomulagi á. Mér skilst, að það sé hans meining, að ríkissjóður leggi fram t.d. 6 millj. kr. og síðan legðu bankarnir fram þar eitthvað á móti til þess að greiða úr því, sem er mest aðkallandi fyrir útgerðina. Væri fróðlegt að vita, hvernig þau mál standa nú, því að það getur haft sitt að segja í sambandi við þann hraða, sem þarf að hafa á afgreiðslu þessa máls hér í þinginu, hvernig bankarnir taka á því að gera sitt til þess, að sú framkvæmd, sem kynni að verða samþ. af Alþ. og ríkisstj., komi að gagni, til þess að útvegurinn geti hafið sína starfrækslu á ný.