09.12.1948
Neðri deild: 30. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. Brtt. á þskj. 179 eru, eins og frv. sjálft, fluttar af sjútvn. fyrir tilmæli hæstv. fjmrh. Í fljótu bragði gæti virzt, að þetta væri eiginlega nýtt frv. En við samlestur till. á þskj. 179 og frv. sjálfs kemur í ljós, að brtt. binda í sér efni frv. að miklu leyti. Tvær höfuðbreyt. felast þó í brtt. og báðar undir tölul. 1. Í fyrsta lagi það, að ríkissjóður æskir sér að fá rétt til þess, samkv. stafl. a, að innleysa forgangskröfur útgerðarinnar, þ.e. sjóveðs- og lögveðskröfur, og jafnframt halda rétti þeim, sem þessar kröfur veita handhafa. Hitt atriðið, sem er meginbreyting, er það, að gefinn er greiðslufrestur um rúmlega hálft ár frá þessum degi á öllum skuldum og vöxtum af þeim, sem hvíla á þessum sömu aðilum, útgerðarmönnum og útgerðarfyrirtækjum. — Ég skal taka það fram, að sakir standa svipað nú eins og þegar frv. var til 1. umr., að okkur er það alveg ljóst flm., eins og að sjálfsögðu hæstv. ríkisstj. líka, að það fé, sem ætlað er á fjárl. til þess að standast þennan kostnað ríkisins, það er náttúrlega ekki fullnægjandi til þess að útgerðin geti af eigin rammleik komizt á næstu vertíð. Það hefur verið miðað fyrst og fremst eða eiginlega eingöngu við forgangskröfur, sjóveðs- og lögveðskröfur, og það án þess að fullnægjandi rannsókn væri á því, hvort það mundi einu sinni hrökkva fyrir þessum kröfum. Önnur hjálp til útgerðarinnar, svo að hún geti haldið áfram, er ekki að vænta að komi, nema frá Landsbankanum. Og um það hafa staðið nokkuð langar viðræður milli landsbankastj. annars vegar og ríkisstj. hins vegar, hvað landsbankastj. sæi sér fært að gera til þess, að bátaflotinn kæmist á veiðar, ef ríkið léti af mörkum það, sem hér er tilgreint og veitt er í fjárlögum.

Síðasta atriðið, um greiðslufrestinn, er beinlínis fram komið fyrir tilmæli bankanna, einmitt í sambandi við þá væntanlegu hjálp, sem um er að ræða og samningaumleitanir hafa staðið yfir um milli ríkisstj. og bankanna. Og sjútvn. telur sér skylt að styðja þetta mál, bæði með flutningi sínum á því og með atkv. sínum.

Um brtt. að öðru leyti sé ég nú ekki mikla ástæðu til þess að fjölyrða. Ég veit, að hv. þm. hafa gert sér ljós ákvæði þeirra með samanburði á þeim við frv. En ég vil taka sérstaklega fram, vegna brtt. hér á þskj. 150, sem sjútvn. flytur, að fyrir tilmæli, sem n. hefur fengið, þá mun hún taka þessar brtt. aftur til 3. umr. En það hefur ekkert fram komið hjá n., sem gefi tilefni til neinnar yfirlýsingar frá hennar hálfu um frekari frestun á þessum brtt.