06.12.1948
Neðri deild: 27. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1408 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

83. mál, almannatryggingar

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Þegar rætt var um breyt. á lögum um almannatryggingar hér á Alþ. í fyrra, var því lofað, að endurskoðun laganna skyldi verða lokið áður en þetta Alþ. kæmi saman, sem nú situr. Þetta hefur ekki orðið eins og lofað var, enda er sagt hér í þessu frv., að heildarendurskoðun skuli hraða svo, að niðurstöður hennar verði afgreiddar til ríkisstj. fyrir 1. okt. 1949. Þetta þykir mér nokkuð langur dráttur og sérstaklega vegna þess, að það er vitað, að ýmsir vankantar eru á löggjöfinni, sem þarf að sníða af. Það hefur verið rætt um það á öllum fundum og mannamótum, þar sem þetta mál hefur verið til umræðu, hvað miklir vankantar séu á tryggingalöggjöfinni, og þess vegna er það alveg dæmalaust, hvað þessi dráttur er langur á því, að heildarendurskoðun fari fram á þessari löggjöf. Það er vitanlegt, að fyrst þetta ákvæði er sett hér inn í frv., að endurskoðun skuli ekki verða lokið fyrr en 1. okt. 1949, að litið hefur verið að henni unnið fram að þessum tíma. Um þetta þýðir ekki að sakast. Ég tók eftir því við umr. hér um daginn, að það var talað um, að ársreikningar Tryggingastofnunar ríkisins fyrir árið 1947 væru ekki enn komnir út, en þó að reikningarnir séu ekki til enn þá, þá hlýtur stjórn Tryggingastofnunarinnar að vita nokkurn veginn, hvaða útkomu árið 1947 gefur. Og mér þætti vænt um að fá svör við því, helzt við þessa umr., hvort ekki væru möguleikar á því að lækka iðgjöld atvinnurekenda samkv. 112. gr. um meira en 25% á árinu 1949. Ég man það, að útkoman hvað þetta snerti fyrir árið 1946 var sérstaklega góð og mikill afgangur, og væri útkoman fyrir árið 1947 ekki lakari, þá ætti að vera fært að lækka þessi iðgjöld um allt að 40%, að mér skilst. Ég geri ráð fyrir því, að frsm. meiri hl. félmn. geti gefið upplýsingar um það, hvernig útkoman hefur verið á árinu 1947. (HelgJ: Ég gerði það á föstudaginn.) Þá er hér í 8. lið 1. gr. frv. lagt til, að iðgjöld samkv. 107. gr. og 112. gr. skuli á árinu 1949 innheimt með vísitöluálagi, er miðist við 310 vísitölustig. Mér finnst þetta einkennilegt, þar sem alltaf er miðað við 300 vísitölustig í öllum kaupgreiðslum. Mundi það ekki nægja í þessu tilfelli einnig að miða við 300 stig, og mundi þá ekki einnig möguleiki til þess að lækka grunnupphæð heildarframlags sveitarfélaganna, sem er tilfinnanlegt, eins og allir vita. Þetta þætti mér gott að yrði tekið til athugunar, og helzt vildi ég fá einhverjar upplýsingar um þetta atriði við þessa umr. málsins, ef þess væri kostur. Það er vitanlegt, að margir hafa í hyggju að flytja brtt. við frv., en hætta við það, ef sannanir fást fyrir því, að raunverulega sé ekki hægt að ganga lengra en gert er í frv. að öðrum ástæðum óbreyttum. Eins finnst mér það einkennilegt, að löngum tíma skuli vera eytt til þess hér, að svo komnu máli, að ræða um, hvort fresta skuli framkvæmd III. kafla laganna eða ekki. Ég hélt, að öllum væri það ljóst, að eins og nú standa sakir, er enginn möguleiki á því að láta þann kafla koma til framkvæmda. Þetta vildi ég taka fram um þessi efni og eins og áður er tekið fram helzt fá upplýsingar nú þegar.