11.02.1949
Efri deild: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1453 í B-deild Alþingistíðinda. (1925)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Þegar sams konar mál hefur verið á döfinni á undanförnum þ., hef ég gert aths. við þau, sem gengið hafa í svipaða átt og hér hefur komið fram, að ég hef viljað leggja áherzlu á það, að fjárlög yrðu tilbúin á áramótum og enginn tími ársins liði svo, að ekki giltu fjárlög. Ég hef því talið það, að varlegra væri að hafa samkomudag þingsins, þegar haustþing er á annað borð, heldur fyrr en síðar. Og einmitt vegna þessarar afstöðu minnar, sem ég hef látið í ljós á undanförnum þingum, þá hef ég nú kvatt mér hljóðs. Því að það er nefnilega þannig, að þó ég liti svona á, þá álít ég, að í sjálfu sér geti komið annað verra fyrir en það, að einhver tími af árinu liði án þess að hafa fjárlög, og það er að hafa á þingi hér 52 þm. og allt það starfslið, sem því fylgir, aðgerðalaust eða sama sem það, e.t.v. dundandi við það að ræða um hálfgerð hégómamál. Þess vegna er það, að ég get alveg fallizt á það sjónarmið, sem mér finnst hafa komið fram frá hæstv. ríkisstj., að ekki sé í raun og veru ástæða til að kalla þingið saman fyrr en líkur eru til, að fjárlfrv. sé undirbúið. Og eftir því sem verið hefur undanarin ár, þá sé ég nú ekki líkur til, að fjárlfrv. verði undirbúið fyrr en a.m.k. kæmi fram að mánaðamótum sept. og okt., sem er í samræmi við það, sem hæstv. ríkisstj. lagði nú til í fyrstunni viðkomandi samkomudeginum. Náttúrlega skiptir litlu um þessa tíu daga, sem brtt. hefur verið samþ. um í hv. Nd. Þetta hefur nú gengið svona síðan 1942, að fjárlög hafa oft ekki verið afgr. fyrir áramót, þó að svo væri á því þingi, sem hv. þm. Barð. nefndi, 1944. Á flestum öðrum þingum síðan 1942 hefur það dregizt fram á næsta ár að ljúka afgreiðslu fjárl., árið sem fjárl. áttu að gilda fyrir. Og ástæðan hefur m. a. verið sú, — það hafa verið fjórar stjórnir síðan eða a.m.k. þrjár, — að það hefur reynzt svo, að fjárlagafrv. hefur alls ekki verið tilbúið, þegar þing hefur komið saman. Stundum hefur að vísu verið lagt fram fjárlagafrv. í þingbyrjun, en tekið aftur og svo borið fram nýtt frv.

Þó að ég leggi því mjög mikla áherzlu á það, að afgreiðsla fjárl. verði lokið fyrir áramót og þingi þar með slitið fyrir áramót, því að ég kann t.d. mjög illa við, að við skulum nú á árinu 1949 vera að halda þingið 1948, þá hef ég nú samt sem áður ákveðið að greiða atkv. með því frv., sem hér liggur fyrir, og eins og það liggur fyrir. En ég vil taka það fram, sem er önnur ástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hljóðs, að ég geri það með þeim eindregnu tilmælum bil hæstv. ríkisstj. og í trausti þess, að hún geri það, sem hún getur í því efni að hraða undirbúningi fjárlaga eins og hún getur og kalli þingið saman, þrátt fyrir ákvæði l., svo fljótt sem hún hefur lokið undirbúningi fjárlagafrv. Og þá sé ég ekki, að neinu sé sleppt, þó að frv. sé samþ., því að það flýtir í raun og veru ekki neitt afgreiðslu fjárlaga að hafa Alþ. hér starfandi, ef nauðsynlegur undirbúningur undir fjárl. hefur ekki farið fram, og er öllum til leiðinda í sjálfu sér að hafa hér aðgerðalaust þing.