03.03.1949
Efri deild: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1511 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

40. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur nú tvívegis verið tekið af dagskrá skv. tilmælum mínum. Var það vegna þess, að ég vildi hafa tóm til að athuga málið sjálft og framkomna brtt., áður en ég tæki afstöðu til þess. Ég hef nú þær fregnir að færa af framkvæmd skattal. skv. vitnisburði skattstjórans, að í framkvæmd hafi verið reynt af ýtrasta megni að gæta þeirra ástæðna, er frv. fjallar um, m.ö.o. eignarauka þess, sem stafa frá eftirvinnu einstakra manna, sem utan venjulegs dagsverks vinna að byggingu eigin íbúðar. Mér hefur verið sagt, að skattyfirvöldin hafi reynt að ákveða skattálagninguna mildilega í þessu efni. Hins vegar varðar þetta mál einstaka menn, og einkum snertir það þá, er taka kaup hjá öðrum, eru ekki atvinnurekendur, en leggja á sig eftirvinnu í þessu skyni. Þar eð hér er um svo þjóðholla og nauðsynlega framkvæmd að ræða, álit ég — þrátt fyrir ýmsa agnúa, er á þessu eru —, að samþykkja eigi þetta frv. Mun afstaða mín mótast af því, að ég tel það — sem kallað er — réttlætismál í fremstu röð. Hitt er mér ljóst, að ákvæði eins og þetta væri mjög slæmt, ef það yrði misnotað og notað til þess að hylma yfir og verða ávinningur þeim mönnum, sem reisa hús og selja vegna atvinnu sinnar, sem er fullkomlega góð og gild atvinna og á vitanlega að vera skattskyld sem aðrar atvinnugreinar. Hér í 1. gr. frv. er það lagt í hendur fjmrh. að setja reglur um framkvæmd l. þessara. Og þá ætlast ég til, að skattyfirvöldin geti forðazt það, að þetta ákvæði verði ekki notað á réttan hátt, eins og þau hafa þegar lýst yfir við mig, að þau hafi mildilega beitt ákvæðum skattal. gagnvart þeim mönnum, sem komið hafa sér upp íbúð utan venjulegs dagsverks. Ég vil trúa því, að þetta sé rétt, en þykir á hinn bóginn, að ákvæði þetta megi lögfesta.

Nú eru komnar hér fram ýmsar brtt. við þetta frv., og verð ég um þær að segja, að ég fyrir mitt leyti er þeim öllum ósamþykkur. Í fyrsta lagi vegna þess, að þar er málið teygt út á ýmis svið, sem geta orðið vafasöm, og því meiri hætta er á, að þau verði vafasöm, sem sviðin eru fleiri eða angar laganna lengri. Þess vegna er ég á móti þessum brtt. Og ég vil benda þeim hv. þm. á, sem þær flytja og annars eru því fylgjandi, að efnalitlir launamenn, hvort sem það eru verkamenn eða aðrir, fái lögmælt fyrirheit um það, að á þeirra yfirvinnu til þess að koma upp eigin íbúð verði ekki ráðizt með skattálagningu., þeir menn ættu ekki að leggja til, að blandað verði inn í þetta frv. fleiri greinum og margvíslegri, sem þá vel gætu orðið til þess að fá andúð þingsins á móti aðalmálinu, ef slíkar brtt. yrðu samþ.

Ég held þá, að mín afstaða í málinu sé skýr. Ég vil, eftir atvikum og eftir ýtarlegri íhugun, ráða til þess, að það sé lögfest, að einstaklingar, sem vinna að því að koma upp eigin íbúðum á þann hátt, sem í frv. greinir, fái skattfrelsi fyrir þeirri sinni vinnu. En lengra vil ég ekki ganga.