18.12.1948
Efri deild: 41. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

66. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Ásmundur Sigurðsson:

Það eru aðeins örfá orð út af þessari síðustu brtt. Hv. 2. þm. Árn. vill með þessari till. segja það, að Alþ. sé áður búið að ákveða brú á Hvítá hjá Iðu og sé því ekki hægt að ákveða að byggja aðra brú fyrr. En ég vil benda hv. þm. á það, að Alþ. er líka búið að ákveða aðrar stórbrýr með því að veita fé til þeirra. T.d. hefur verið veitt fé til fyrirhleðslu við Jökulsá í Lóni, sem er nauðsynlegur liður í brúargerðinni og verður að fara á undan, og fyrirhleðslan kemur að því leyti að gagni, þótt hún sé gerð á undan brúnni, að hún mundi varna því, að áin færi í nýjan farveg. Þetta má því skoða sem fjárveitingu til brúargerðarinnar. Ég vil enn fremur benda á það, að á Hvítá eru ekki minna en 3 brýr fyrir, þ.e. Ölfusárbrúin, brúin á Brúarhlöðum og brú hjá Hvítárvatni. Það mátti setja 3 brýr á Hvítá áður en farið var að hugsa um að brúa Jökulsá í Lóni, sem sker heila sýslu frá öðrum byggðarlögum. Ætli það verði ekki krafizt fimmtu brúarinnar á Hvítá áður en það næst samþykki um eina brú á Jökulsá í Lóni, ef þessi till. nær fram að ganga. Ég get ekki samþ. þessa skriflegu brtt., vegna þess að ég tel enga sanngirni í því.