23.04.1949
Neðri deild: 91. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í B-deild Alþingistíðinda. (2480)

164. mál, orkuver og orkuveitur

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað frv. það, er hér liggur fyrir, og rætt það við raforkumálastjóra. Sú varð niðurstaða í n. að gefa ekki út nál., þar sem frv. er flutt af n. sjálfri, heldur að láta nægja að beina fyrirspurnum til hæstv. atvmrh. í umr. um málið.

Frv. þetta er um það tvennt að heimila ríkisstj. að fela rafmagnsveitum ríkisins að virkja Laxá fremri í Austur-Húnavatnssýslu og að virkja Þverá úr Þiðriksvatni í Strandasýslu. Um Laxá fremri hafa verið gerðar tvær áætlanir varðandi stórvirkjun á þeim stað, í fyrsta lagi um 6.400–7.000 hestafla stöð. En ef allt þetta afl á að fást, mundi sú virkjun verða mjög kostnaðarsöm, og af raforkumálaskrifstofunni er ekki mælt með þeirri leið. Hins vegar er hér á 1. tölul. 1. gr. gerð till. um 1.900 ha. stöð á þessum stað. Það er tekið fram í grg. raforkumálastjóra, sem prentuð er sem fskj. með frv., að með því móti mundi vera á glæ kastað mörgum þúsundum hestafla, er ekki yrðu þá síðar notuð á hagkvæman hátt. Þá segir og í bréfi hans, að eðlilegt og heppilegt yrði að telja, að rafmagnsveitur ríkisins kæmu upp vatnsorkuveri í Austur-Húnavatnssýslu. En nokkur atriði í því sambandi eru óathuguð, og er þörf á að rannsaka þau, áður en því er slegið föstu, hvort og hvernig Laxá skuli virkjuð. Í bréfinu segir einnig að raforkumálastjóri geti fallizt á, að nú þegar sé leitað heimildar Alþ. til virkjunar á þessum stað, „enda sé þá gengið út frá því, að heimildin verði ekki notuð, fyrr en að fullathuguðu máli og ekki hafizt handa um framkvæmdir, nema nauðsynlegt fé til þeirra hafi verið tryggt.“

Það kom fram, er við ræddum við raforkumálastjóra um þetta mál, að fram hafa farið byrjunarathuganir á því í Vatnsdal, hvort takast mætti að veita vötnum inni á hálendinu í farveg Vatnsdalsár og fá þannig vatnsmagn fyrir stórt orkuver, ef til vill 30.000 hestafla stöð. Þessir möguleikar telur raforkumálastjóri að fullrannsakaðir verði á næsta sumri. Ef það kæmi í ljós, að þarna væru hagnýtir möguleikar fyrir stórt orkuver og tryggja mætti möguleika til fjáröflunar, þá kemur til mála að ráðast í virkjun á þeim stað. Ef slík stórvirkjun kæmist upp, mundi hún ekki aðeins fullnægja þörfum nálægra sveitarfélaga, heldur heils landshluta, og e.t.v. yrði hún tengd stærri virkjunum eða rafveitum og þá fyrst og fremst Laxá í Þingeyjarsýslu. Væri þannig með þessu séð ekki aðeins fyrir þörf Húnavatnssýslna fyrir rafmagni, heldur einnig fleiri byggðarlaga.

Það má því segja með réttu, að ekki sé tími til kominn að veita þessa heimild, sem hér ræðir um. En fjhn. getur þó fallizt á, að heimildin verði veitt með því skilyrði, að engar framkvæmdir verði hafnar fyrr en raforkumálaskrifstofan hefur lokið athugunum sínum, enda er þá gengið út frá því, að þeim yrði lokið í sumar, og mætti þá leggja málið fyrir Alþ. aftur á hausti komanda, ef raforkumálastjórnin kemst að þeirri niðurstöðu, að aðrar leiðir séu heppilegri en sú, sem frv. gerir ráð fyrir. Hins vegar mætti nota tímann til að afla fjár til framkvæmda, hvar sem virkjun yrði reist, enda þarf að tryggja það, að fé fáist, áður en hafizt er handa.

Hv. þm. A-Húnv. (JPálm) gat þess við 1. umr. þessa máls, að hefja mætti framkvæmdir nokkrar, svo sem stíflubyggingu, án þess að fé væri tryggt til fullnaðarframkvæmda. Mér finnst það hins vegar varhugavert og einsætt, að sú trygging verði að vera fyrir hendi, þar sem slík byrjun kæmi því aðeins nokkrum að gagni, að unnt yrði að ljúka verkinu. Fjhn. vill því óska þeirrar yfirlýsingar frá hæstv. atvmrh., að engar framkvæmdir verði hafnar fyrr, en fullnaðarathugun er lokið og fjár hefur verið aflað og því aðeins verði ráðizt í virkjun Laxár, að raforkumálastjóri telji það heppilegustu leiðina til rafmagnsöflunar í héraðinu.

Þá er í 2. tölul. 1. gr. gert ráð fyrir virkjun á Þverá úr Þiðriksvallavatni í Strandasýslu og allt að 1.400 ha. orkuveri. Annars liggja fyrir upplýsingar um það í grg. raforkumálastjóra, að þar sé um fleiri en einn möguleika að ræða eftir því, hvort neðri hluti fallhæðarinnar er nýttur eða ekki. Þeim hestöflum, ef ekki yrðu hagnýtt, mundi þá ekki vera unnt að bæta við með hægu móti síðar. Í frv. er gert ráð fyrir að virkja efri hlutann fyrir 2,4 millj. kr. og fá 1.400 hestöfl. Hins vegar er möguleiki að virkja allt fallið og byrja með 1.300 ha. virkjun. Mætti þá auka þá virkjun síðar um 1.300 hestöfl með því að bæta við vélasamstæðu. Um þetta segir raforkumálastjóri, að hann geti fallizt á, að leitað sé heimildar til að virkja Þiðriksvallavatn, en þá sé gengið út frá, að heimildin verði ekki notuð nema að undangenginni fullnaðarathugun og fjárhagslegri tryggingu. — Ég hef séð, að í rekstraráætlun fyrir þessa virkjun á Þverá er miðað við, að veita verði lögð til Drangsness og Kaldrananess, en hér er aðeins talað um Hólmavík og byggðir Steingrímsfjarðar og Bjarnarfjarðar. Álít ég, að það mætti athuga á milli 2. og 3. umr., hvort bæta ætti Drangsnesi og Kaldrananesi inn í heimildina, og leita um það álits hæstv. ráðh. og raforkumálastjóra, hvort þörf þætti á því.

Þá liggur hér fyrir bréf frá raforkumálastjóra til atvmrn., og er í því útdráttur úr fundargerð raforkuráðs frá 11. marz 1949, en á þeim fundi tók ráðið þetta frv. til athugunar, og segir þar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Málið var rætt, og bendir ráðið á það í sambandi við frv. og leggur á það áherzlu, að ekkert verði gert, er gæti tafið fyrir framtíðarlausn á þessum málum.“

Þetta virðist mér í fullu samræmi við áður um getið, þ.e.a.s. þá afstöðu, að allt sé athugað að fullu, áður en hafizt er handa. — Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar að sinni.